27.09.2020 07:38

B. v. Egill rauði NK 104. TFKC. Vatnslitamynd skotans Georges Wiseman.

Skoski málarinn George Wiseman 1906-1986, málaði margar myndir af íslensku togurunum þegar þeir lágu í höfn í Aberdeen. George og kona hans, ráku krá eða matsölustað við höfnina og þar hafði hann gott tækifæri að mála myndir sínar sem skipta hundruðum. Hann byrjaði ungur að mála, ekki bara skipamyndir heldur af flestu sem fyrir augu hans bar. Íslenskir sjómenn komu oft á matsölustað þeirra hjóna, en hvort þeir hafi beðið hann að mála mynd af skipum sínum eða hann hafi boðið þeim þær til kaups, veit ég ekki. Hann kom hingað til lands, ferðaðist um og málaði myndir. Vatnslitamyndin af Agli rauða NK 104 hér að neðan er einmitt máluð af honum og sennilega máluð fyrir Jón Svan Sigurðsson sem var framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Neskaupstaðar á árunum 1952 til ársins 1960, þegar hún var lögð niður eftir að togarinn Gerpir NK 106 var seldur Tryggva Ófeigssyni útgerðarmanni í Reykjavík í júlí árið 1960. Myndin hékk upp á vegg á skrifstofu Bæjarútgerðarinnar þann tíma sem Jón Svan var þar. Grétar, sonur Jóns, fékk svo myndina hjá föður sínum og var hún hjá honum um áratuga skeið. Fyrir nokkrum árum færði Grétar, Hólmfríði Guðjónsdóttur myndina að gjöf, en hún er dóttir Guðjóns Marteinssonar sem var stýrimaður á togaranum um skeið, og væntanlega hangir hún upp á vegg á heimili hennar.


Nýsköpunartogarinn Egill rauði NK 104 á ferð um úfinn sæ.             (C) Hólmfríður Guðjónsdóttir.

20.09.2020 10:01

202. Stjarnan RE 3. TFIL.

Vélskipið Stjarnan RE 3 var smíðuð í Halleviksstrand í Svíþjóð árið 1947 fyrir Ríkissjóð Íslands. Eik. 111 brl. 260 ha. Polar vél. Selt 10 febrúar 1949, Sjöstjörnunni hf í Reykjavík. Ný vél (1956) 350 ha. Alpha vél. Selt 17 ágúst 1966, Sjöstjörnunni hf í Njarðvík. Skipið var endurmælt árið 1968, mældist þá 100 brl. Ný vél (1968) 440 ha. Alpha vél. Selt 14 desember 1975, Sigtryggi Benediktz á Höfn í Hornafirði og Bjarna Jónssyni í Kópavogi, hét þá Svalan SF 3. Svalan hf á Höfn í Hornafirði var eigandi skipsins frá 17 september 1980. Frá sama ári hét skipið Jón Bjarnason SF 3, sömu eigendur. Skipið strandaði og sökk við Papey 12 október árið 1982. Áhöfnin, 9 menn komust í gúmmíbjörgunarbát og var síðan bjargað um borð í vélskipið Sturlaug ll ÁR 7 frá Þorlákshöfn.


202. Stjarnan RE 3.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

     Mótvindur tafði för Reykjavíkurbáts                              frá Danmörku

Í fyrrakvöld og gærmorgun var auglýst í útvarpinu eftir vélbátnum Stjarnan RE 3, sem vitað var, að var á leiðinni frá Danmörku til Hornafjarðar með sementsfarm. Þegar auglýst var og skipverjar beðnir að hafa samband við land, voru tveir dagar liðnir frá þeim tíma, sem búizt var við bátnum til Hornafjarðar. Í gær barst svo skeyti frá skipverjum, um að allt væri í lagi, en mótvindur hefði tafið för þeirra á heimleiðinni.

Tíminn. 28 október 1955.


Jón Bjarnason SF 3 sennilega á leið til Hafnar í Hornafirði.                   (C) Hilmar Bragason.


202. Stjarnan RE 3. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                        Ljósmyndari óþekktur.

     Strandaði og sökk við Papey

Vélbáturinn Jón Bjarnason SF 3 sem strandaði við Papey laust eftir miðnætti aðfaranótt miðvikudags. Kom mikill leki að bátnum og sökk hann í gær við eyna. Skipverjar komust í gúmmíbát og var skömmu síðar bjargað af vélbátnum Sturlaugi ÁR 7, sem nýlega er farið að gera út frá Hornafirði, og komu þeir til Hafnar um klukkan 8.30 í gærmorgun. Sjópróf fóru fram á Höfn í Hornafirði í gær. Jón Bjarnason SF 3 var tryggður fyrir tæplega 3,7 milljónir króna, en taka átti hann af skrá um áramót. Samkvæmt upplýsingum sem Mbl. fékk hjá sýslumanninum á Höfn, steytti báturinn á Flyðruskeri, sem er rétt við Papey. Báturinn var að koma frá Reyðarfirði, með viðkomu á Fáskrúðsfirði, og ætluðu bátsverjar suður fyrir Papey í síldarleit.
Talið er að miklir straumar við eyna hafi átt þátt í óhappinu, en innfall var á firðinum þegar báturinn strandaði. Mikil úrkoma var þegar strandið varð og talið er að það hafi haft áhrif á radarinn. Þá er talið hugsanlegt að sjálfstýring bátsins hafi bilað. Báturinn sökk skammt frá Papey á tiltölulega litlu dýpi, en um metri af mastrinu stóð upp úr sjónum þar sem báturinn lá, þegar síðast fréttist. Töluverð ólga er í sjónum þar sem báturinn liggur og talið er erfitt að bjarga nokkru úr honum, vegna óróleika í sjónum. Jón Bjarnason SF 3 var einn Svíþjóðarbátanna svokölluðu, byggður á Nýsköpunarárunum. Ákveðið hafði verið að eyða bátnum í vetur, því samþykkt hafði verið að hann væri úreltur orðinn, og voru eigendur hans að fá nýjan bát frá Noregi. Skipstjóri bátsins var annar eigenda hans.

Morgunblaðið. 14 október 1982.


16.09.2020 17:01

B. v. Fylkir RE 171. TFCD.

Togarinn Fylkir RE 171 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1958 fyrir samnefnt hlutafélag í Reykjavík. 642 brl. 1.500 ha. Holmes Werkspoor díesel vél. Samið var um smíði þessa skips stuttu eftir að Nýsköpunartogarinn Fylkir RE 161 sökk 2 árum áður á Halamiðum eftir að hafa fengið tundurdufl í veiðarfærið og það sprungið undir síðu þess. Skipið var selt í janúar 1966, Newington Steam Trawlers Ltd í Hull, fékk nafnið Ian Fleming H 396. Togarinn strandaði og sökk í Havöy sundi í Norður Noregi á jóladag árið 1973. Áhöfnin, 20 menn, komust í 2 gúmmíbjörgunarbáta. Öðrum bátnum hvoldi með þeim afleiðingum að 3 skipverjar fórust. Þeim 17 skipverjum sem komust af var bjargað um borð í báta úr byggðunum við Havöy sund.


B.v. Fylkir RE 171 á toginu.                                                                        (C) Ingi Rúnar Árnason.

                  Nýr b.v. Fylkir

Nafnið Fylkir, sem féll út af skipaskrá togaranna í nóvember 1956, hefur nú verið fært aftur inn á þá skrá með einkennisstafina RE-171. Nýi Fylkir, eign hlutafélagsins Fylkis hér í Reykjavík, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn 6. júní s.l. Hinn kunni togaraskipstjóri og síðar útgerðarmaður, Aðalsteinn Pálsson, stofnaði hlutafélagið Fylki og keypti, er nýsköpunartogararnir voru byggðir, eldri Fylki, sem fórst á Halamiðum í nóvembermánuði 1956, er tundurdufl sprakk í vörpunni undir skipinu. Aðalsteinn var þá fallinn frá, en áður var orðinn framkvæmdastjóri hlutafélagsins, Sæmundur Auðunsson, skipstjóri, einn kunnasti aflamaður togaraflotans. Hóf félagið þegar í stað eftirgrennslan um kaup á togara, og varð það úr, að í febrúar 1957 fékk Fylkir h.f. smíðasamning við Beverley skipasmíðastöðina, sem smíðaði eldri Fylki, um smíði á 176 feta togara, rúmlega 640 tonna. Hófst svo smíði togarans í septembermánuði síðastliðinn.
Fylkir er dieseltogari, og var ganghraði hans í reynsluför 14,2 mílur en vélin er 1400 hestafla. Á heimleið frá Hull var siglt með 11 mílna hraða, og var togarinn 3 sólarhringa og 15 klst. hingað heim. Auðunn Auðunsson skipstjóri taldi það einna helzt frásagnarvert um skipið, að vél þess væri mjög sparneytin, eða færi með 2 ½  tonn af svonefndri gasolíu á sólarhring. Aðalvélin er þannig byggð, að enginn gír er milli hennar og skrúfunnar, eins og er í eldri dieseltogurunum. Aðalvélin knýr rafal á siglingu, sem er fyrir allt rafkerfi skipsins. Spilið, sem er rafknúið, er rúmlega 300 hestafla og er fyrir það sérstök vél. Fylkir mun vera fyrsti togarinn hér í Reykjavík, sem er með sjálfvirkt stýri, sem hægt er að setja í samband í lengri siglingum og síðan þarf ekki að fást um stefnuna og aðeins einn mann þarf í brú til að vera á varðbergi. Getur sá án efa gripið í stýrið ef eitthvað óvænt ber að höndum og skyndilega þarf að breyta stefnu skipsins. Þá er Fylkir fyrsti togarinn, þar sem aðeins einn björgunarbátur er á bátapalli. Hægt er að setja hann út hvoru megin sem vill og tekur aðeins 20 sek. Hann getur borið alla áhöfn skipsins, en auk hans eru á skipinu gúmmíbjörgunarbátar mjög burðarþolsmiklir hver um sig.
Fylkir er fyrsti togarinn, sem byggður er eftir stríð, þar sem öll siglingatæki og loftskeytastöð er að öllu leyti brezk smíði, en hann er búinn að öllum þeim öryggis- og fiskveiðitækjum, sem nú tíðkast. Auðunn skipstjóri skýrði frá því, að togari þessi væri nokkuð breiðari en tíðkast hefði um smíði togara af þessari stærð. Væri það m. a. af því, að eftir að sjóslysið mikla varð hér á árunum út af Horni, er tveir brezkir togarar, annar nýbyggður fórust, þá var talið að óstöðugleiki skipanna hefði átt sinn þátt í því hversu fór. Var því stöðugleiki togaranna aukinn, og er Fylkir einn þeirra. Athyglisvert er hversu brúin á Fylki er lítil, t. d. miðað við togara bæjarútgerðarinnar, Þormóð goða. Sagði Auðunn að vegna þessa þyrfti ekki að hafa hreyfanlegt stýri í brúnni, því auðveldlega sæist frá stýri, þegar verið væri að toga. Þar er og miðstöð hátalarakerfis, sem er um allt skipið og fram á þilfarið. Hinir kunnu bræður, sem báðir hafa víðtæka þekkingu á öllu, sem lýtur að hæfni togara, og um góðan frágang á öllu handbragði, kváðust vera mjög ánægðir með hinn nýja togara, er kostaði kringum 260 þús. sterlingspund, sem er tæplega 12 milljónir króna.

Sjómannablaðið Víkingur. 6 júní 1958.


B.v. Fylkir RE 171 við komuna til landsins hinn 6 júní árið 1958.          (C) Jón Hákon Magnússon.


Ian Fleming H 396.                                                                                   Mynd úr safni mínu.


Málverk af Ian Fleming H 396.                                                                      (C) P. Dell.

      Sóttu Ian Fleming til Íslands

Eins og lesendum er kunnugt var togarinn Fylkir frá Reykjavík seldur til Hull í fyrra mánuði. Kaupandi var togarafélagið Newington Steam Trawling þar í borg, en það skírir skip sín í höfuðið á frægum brezkum rithöfundum, t. d. Somerset Maugham, Joseph Conrad, James Barrie o.s.frv. Nú er svo búið að skíra Fylki upp og hlaut hann nafnið lan Fleming, hvorki meira né minna. lan Fleming, sem er nýlega dáinn, var sem kunnugt er höfundur hinna víðfrægu James Bond bóka, sem lesnar eru af milljónum manna um allan heim. Við verðum aðeins að vona, að hinn upprisni Ian Fleming hafi ekki neina James Bond tilburði í frammi í íslenzkri landhelgi, þegar fram líða stundir.

Alþýðublaðið. 23 febrúar 1966.

13.09.2020 11:10

Landlega á Siglufirði.

Á síldarárunum svonefndu lágu oft á tíðum fjöldi skipa inn á Siglufirði vegna brælu á miðunum eða að síldin lét ekki sjá sig eins og hennar var von og vísa. Þekkja má þarna nokkur skip, m.a. 414. Fjalar VE 333, 49 brl smíðaður í Raa í Svíþjóð fyrir Helga Benediktsson útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Svo má sjá, 599. Ingjald SH 154 ex ÍS 82 ex Kylle, 47 brl. smíðaður í Marstal í Danmörku árið 1946. Var fyrst í eigu Samvinnufélags Dýrfirðinga á Þingeyri. Svo má sjá í 77. Hafþór RE 95 ex Jón Valgeir ÍS 98, 100 brl, smíðaður í Djupvik í Svíþjóð árið 1946 fyrir Ríkissjóð Íslands og hf. Vísi í Súðavík. Fjöldi nótabáta er í forgrunni myndarinnar sem mun vera tekin sumarið 1957-58.


Landlega síldveiðiflotans á Siglufirði sumarið 1958-59.                    (C) Hannes Baldvinsson.

      Landlega í gær á Siglufirði

Í gær var landlega á Siglufirði og lágu um 160 skip bundin við bryggjur. Þau komu inn í fyrradag og lönduðu en hafa síðan ekki farið út vegna storms á miðum. Í gær var sólskin á Siglufirði framan af degi en fór að hvessa er á daginn leið og illt veður úti fyrir. Var ekki búizt við að nein skip færi á veiðar í nótt. Síldarleitarflug lá niðri í allan gærdag. Í fyrrakvöld var fjölsóttur dansleikur á Siglufirði en fór hið bezta fram og ölvun lítil, enda hefur útsala ATVR verið lokuð frá því um helgi. Nokkuð bar þó á ölvun og óspektum um nóttina, voru menn hávaðasamir og fyrirferðarmiklir og var 7 görpum vísað til sængur í Steininum.
Talið er að leynivínsalar frá Akureyri hafi séð sér leik á borði, meðan útsalan var lokuð á Siglufirði og flutt hinar dýru veigar norður.

Tíminn. 6 júlí 1960.


06.09.2020 10:34

Síldarflutningaskipið Haförninn lestar síld á miðunum við Svalbarða.

Þegar síldveiðarnar á miðunum við landið brugðust, var þá gripið til þess ráðs að senda síldveiðiskipin íslensku langt norður í höf og það alveg til Svalbarða. Skipin þurftu þá að sigla allt að 700 til 1000 sjómílur á miðin. Fjarlægðin gerði það að verkum að nánast var ógerlegt að sigla með síldina heim í hvert skipti sem þau fylltu sig. Þá var gripið til þess ráðs að fá síldartökuskip (flutningaskip) sem hægt væri að landa í á miðunum og þau sigldu svo til lands með fullfermi. Haförninn var eitt þeirra skipa sem flutti síldina til bræðslu á Siglufirði. Það var í eigu Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði frá árinu 1966 þar til það var selt til Ítalíu árið 1971. Haförninn var smíðaður í Noregi árið 1957 og var 2.462 brl. með 2.100 ha. B & W vél. Einnig flutti Haförninn olíu og vistir til flotans og sjálfsagt margt annað sem til féll.


Skip Síldarvinnslunnar hf, 970. Barði NK 120 til vinstri og 975. Bjartur NK 121 til hægri, að landa síld í Haförninn á miðunum við Svalbarða.      (C) Steingrímur Kristinsson.


           Haförninn fullfermdur

Rúmlega 30 íslenzk skip eru nú á síldveiðum við Bjarnarey. Erfiðlega hefur gengið að fá fréttir af afla þar sem vegalengdin milli lands og síldarmiðanna er um 700 sjómílur. Þó er vitað að 12 skip fengu afla síðasta sólarhring. Landa skipin í síldarflutningaskip, og eru þrjú slík á miðunum, auk söltunarskips Valtýs Þorsteinssonar. Var fyrsta síldin söltuð þar um borð í gær. Voru það 400 tunnur. Flutningaskipið Haförninn var komið með fullfermi í dag og er sennilega lagt af stað til Siglufjarðar, en þar verður síldinni landað á mánudag eða þriðjudag. Þegar er byrjað að lesta Síldina en þriðja síldarflutningaskipið þarna norður frá er Nordgard og verður ekki byrjað að losa í það fyrr en Síldin er fullfermd, og þegar Nordgard verður komið með fullfermi má búast við að Haförninn verði kominn á miðin aftur. Síldarradíóin á Raufarhöfn og Dalatanga tóku til starfa um hádegi í dag. Árni Friðriksson er á leið til Bjarnareyjasvæðisins til að fylgjast með hreyfingum síldarinnar. Leiðangursstjóri er Jakob Jakobsson.

Tíminn. 13 júlí 1968.


05.09.2020 19:44

Reykjavíkurhöfn árið 1967.

Þessi ljósmynd er tekin í Reykjavíkurhöfn árið 1967. Það eru mörg skipin þarna við bryggjurnar eins og ævinlega var á árum áður. Það má nú þekkja þarna nokkur skip, t.d. fyrir miðri mynd er 162. Ólafur Tryggvason SF 60. Hann var smíðaður í Uksedal í Noregi árið 1960 fyrir Tryggva Sigjónsson og fl. Á Höfn í Hornafirði. 150 brl. 400 ha. Stork vél. Bar síðan nöfnin, Hringur GK 18 og Bliki EA 12. Seldur úr landi árið 1988. Utan á Ólafi liggur að ég held, 617. Hafnarberg RE 404, smíðaður í Eckernförde í Þýskalandi árið 1959. Eik. 74 brl. 400 ha. MWM vél. Hét fyrst Jón Gunnlaugs GK 444. Bar síðan nöfnin, Jói á Nesi SH, Jói gasalegi SH, Dúa SH og endaði sem Dúa RE 359. Sá skipið síðast í Grindavíkurhöfn í fyrrasumar og var þá að niðurlotum komið. Utan á Hafnarberginu er 815. Haukur RE 64, smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1947 sem Sveinn Guðmundsson AK 70. Báturinn sökk suður af Stokksnesi 25 nóvember árið 1974. Hét þá Haukur SU 50. Áhöfninni, 4 mönnum var bjargað um borð í vélskipið Skinney SF 20 frá Höfn í Hornafirði. Aftan við bátana er að ég held, 60. Garðar RE 9, smíðaður í Ósló í Noregi árið 1912. Hét fyrst hér á landi Siglunes SI 89. Hét áður Falkur. Hét svo nöfnunum, Sigurður Pétur RE 186, Hringsjá SI 94, Garðar GK 175, svo Garðar RE 9 eins og áður er getið og síðast Garðar BA 64 og var í eigu Jóns Magnússonar útgerðarmanns á Patreksfirði. Garðari  var siglt á land í Skápadal í Patreksfirði árið 1981 og er þar ennþá og er að grotna niður. Svo má sjá í Nýsköpunartogarann Ísborgu ÍS 250 sem á þessum tíma var búið að breyta í flutningaskip. Þá var búið að taka gufuvélina og ketilinn úr því, setja 750 ha. Skandia díesel vél og færa stýrishúsið aftur á keysinn. Þetta er sannarlega falleg mynd.


Úr Reykjavíkurhöfn sumarið 1967.                                                                         (C) Peter Brady.

01.09.2020 09:10

B. v. Sólborg ÍS 260. TFQD.

Nýsköpunartogarinn Sólborg ÍS 260 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Ísfirðing hf. á Ísafirði. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét Stígandi á smíðatíma. Smíðanúmer 736. Sólborgin var síðasti gufutogarinn sem kom til landsins. Árið 1966 var ríkissjóður eigandi skipsins og var það dregið frá Ísafirði til Reykjavíkur og komið fyrir á Kleppsvíkinni við legufæri. Sólborgin fór aldrei á veiðar eftir þetta og mun hafa legið á Kleppsvíkinni í á þriðja ár. Selt í brotajárn til Blyth á Englandi árið 1968.

Sólborg ÍS 260 var einn af hinum svokölluðu "Stefaníu" togurum, sem ríkisstjórn Stefáns J Stefánssonar samdi um smíði á í Bretlandi árið 1947. Þeir voru 10 að tölu, 8 gufutogarar smíðaðir í Skotlandi og 2 díesel togarar smíðaðir í Goole á Englandi.


B.v. Sólborg ÍS 260 á veiðum á Selvogsbanka 1955.  (C) Jón Hermannsson.  Ljósmynd í minni eigu.

          Ísafjarðartogarinn Sólborg                               kominn til landsins 

Klukkan 2 e. h. í gær sigldi Sólborg, hinn nýi togari Ísfirðinga, inn á Reykjavíkurhöfn. Kom skipið beint frá Aberdeen, en þar var það smíðað í skipasmíðastöð Alexander Hall. Er það 10. skipið, sem þetta fyrirtæki smíðar fyrir Íslendinga. Sólborg, sem er eign hlutafjelagsins Ísfirðingur á Ísafirði, er 732 brutto smálestir og 183 fet á lengd. Er hún síðasti eimtogarinn af þeim 8, sem samið var um smíði á árið 1947. Sólborg er hið fegursta skip. Ber hún einkennisstafina ÍS 260. Í skipinu er fiskimjölsverk smiðja, sem var reynd áður en það fór heim. Kælivjelar eru í lestarrúmum. Það er ennfremur búið fullkomnustu siglingatækjum, svo sem radar.
Meðal farþega með Sólborgu frá Englandi var Ásberg Sigurðsson, lögfræðingur, framkvæmdastjóri togarafjelagsins Ísfirðings. Skipstjóri á Sólborgu verður Páll Pálsson frá Hnífsdal. Fyrsti stýrimaður verður Guðmundur Thorlasíus og fyrsti vjelstjóri Kristinn Guðlaugsson.
Ráðgert var að skipið færi í gærkvöldi vestur til Ísafjarðar, en þaðan mun það fara á veiðar.

Morgunblaðið. 28 ágúst 1951.


B.v. Sólborgu ÍS 260 hleypt af stokkunum hjá Alexander Hall & Co í Aberdeen í Skotlandi. Sólborg var síðasti gufutogarinn sem kom til landsins.  (C) Þórður Guðmundsson.


B.v. Sólborg ÍS 260 við komuna til Ísafjarðar.                             (C) Sigurgeir B Halldórsson.

         Ægir dregur tvo úr landi
          skipin seld í brotajárn

Ægir gamli hefur nú verið seldur í brotajárn til Englands, að því er annar eigandinn, Gísli Ísleifsson, hrl., tjáði Morgunblaðinu í gær. Verður honum siglt til Blyth í næstu viku og á að láta hann draga með sér tvo togara, Brimnes og Sólborg, sem einnig hafa verið seldir þangað í brotajárn. Skipstjóri í þessari síðustu för Ægis gamla verður Haraldur Ólafsson, en alls taldi Gísli, að 10 eða 11 menn þyrftu að vera á skipunum þremur í þessari ferð.

Morgunblaðið. 16 júní 1968.


01.09.2020 07:31

M. s. Liv EA 401. LBQK / TFGI.

Mótorskipið Liv EA 401 var smíðað í Stavanger í Noregi árið 1907. Eik og fura. 50 brl. 60 ha. Bolinder vél (1923). Guðmundur Pétursson útgerðarmaður og síldarsaltandi á Akureyri keypti skipið frá Noregi vorið 1924. Skipið var lengt árið 1944, mældist þá 65 brl. Ný vél (1946) 155 ha. Atlas vél. Selt 15 apríl 1948, Útgerðarfélagi Hríseyjar hf, hét Ver EA 401. Selt 5 nóvember 1953, Þórhalli Hálfdánarssyni í Hafnarfirði, hét þá Hreggviður GK 3. Selt 9 febrúar 1957, Ingólfi Theodórssyni í Vestmannaeyjum, hét Hafbjörg VE 54. Ný vél (1958) 375 ha. Kromhout vél. Selt 14 desember 1961, Þórólfi Ágústssyni í Stykkishólmi, hét Hafbjörg SH 133. Selt 19 maí 1964, Haraldi Jóhannssyni í Vestmannaeyjum, hét Hafbjörg EA 112. Haraldur flutti til Grímseyjar með skipið árið 1965. Skipið sökk með malarfarm um 6 sjómílur suðvestur af Grímsey 13 september árið 1965. Áhöfnin, 3 menn, komust í björgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í varðskipið Óðinn.


518. Liv EA 401 sennilega inn á Eyjafirði.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

                    Skipakaup

Guðmundur Pétursson útgerðarmaður kom í gær frá Noregi á 50 smálesta mótorkútter, er hann hefir keypt þar.

Íslendingur. 20 júní 1924.


Liv EA 401 á siglingu.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Sennilega er þetta Liv EA 401. Mér sýnist myndin tekin á Ísafirði.              Ljósmyndari óþekktur.


Liv EA 401. Módel.                                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


 Hafbjörg EA 112 sökk við Grímsey

Vélbáturinn Hafbjörg EA 112 sökk um kl. 5,30 í gærmorgun um 5-6 sjómílur suðvestur af Grímsey. Á bátnum voru þrír menn, sem björguðust í gúmbát, og voru þeir um 2 tímum síðar teknir um borð í varðskipið Óðinn. Hafbjörg var 65 lestir að stærð, byggð árið 1907, og hét báturinn áður Hreggviður. Óhappið gerðist er Hafbjörg var að flytja byggingamöl frá Dalvík til Grímseyjar. Voru um 50 tonn af möl um borð og kom mikill leki upp í bátnum um kl. 4 um nóttina. Reyndist árangurslaust að dæla sjónum úr honum. Gúmbátar, tveir að tölu, voru settir út og um kl. 5.30 um morguninn yfirgáfu skipverjar Hafbjörgu, sem sökk að 2-3 mínútum liðnum. Skipstjórinn, Haraldur Jóhannsson, hafði áður haft samband við lofskeytastöðina í Siglufirði og gert aðvart um hvernig komið væri. Um tveimur tímum síðar kom varðskipið Óðinn á staðinn og tók mennina þrjá um borð og flutti til Grímseyjar. Þar er Haraldur skipstjóri að byggja fiskvinnsluhús, en hann er gamall Grímseyingur. Hinir skipverjarnir tveir eru Björn Þorleifsson, búsettur á Húsavík og Pálmi Sigurðsson frá Akureyri.

Morgunblaðið. 14 september 1965.

30.08.2020 16:58

L.v. Alden RE 264. LBSF / TFBE.

Línuveiðarinn Alden RE 264 var smíðaður í Moss í Noregi árið 1907. Stál 111 brl. 175 ha. 2 þennslu gufuvél. Anton Jacobsen útgerðarmaður í Reykjavík keypti skipið frá Noregi í janúar árið 1925, hét áður Svalen. Selt 20 janúar árið 1927, Fiskveiðahlutafélaginu Hrólfi í Reykjavík, sama nafn og númer. Skipið var selt 27 febrúar 1931, Samvinnuútgerðinni í Stykkishólmi, skipið hét Alden SH 1. Selt 27 mars 1940, Hlutafélaginu Fossi í Hafnarfirði, skipið hét Alden GK 247. Selt 3 febrúar 1945, Hlutafélaginu Búa á Dalvík, hét Alden EA 755. Skipið var selt í brotajárn til Hollands í júní árið 1956.


Alden RE 264 að landa síld á Siglufirði.                              (C) Jón & Vigfús.  Minjasafnið á Akureyri.

    Línuveiðarinn "Alden" RE 264

Alden heitir gufuskip sem hingað hefir verið keypt frá Noregi. Er eigandi þess Anton Jacobssen. Skipið er að stærð 111 tonn. Það mun eiga að fara til Vestmannaeyja og stunda þar netaveiðar, fyrst um sinn að minsta kosti.

Morgunblaðið. 28 janúar 1925.


Alden SH 1 í höfninni í Stykkishólmi. Súgandisey í baksýn. Ljósmyndin er tekin úr Stykkinu sem Stykkishólmur dregur nafn sitt af.   (C) William Th. Möller.

               Frá Stykkishólmi

Eins og kunnugt er var stofnað í vetur í Stykkishólmi félag til útgerðar á samvinnugrundvelli. Voru hér á ferð eftir nýjár tveir menn úr Stykkishólmi til að leita fyrir sér um kaup á togara fyrir félagið. Úr togarakaupunum varð ekki, en félagið keypti síðar línuveiðarann "Alden". Kom hann úr fyrstu veiðiförinni um miðjan f. m. með ágætan afla, 140 skpd. eftir 9 daga útivist. Stjóm samvinnufélagsins skipa 5 menn, 2 kosnir af félagsmönnum 2 af hreppsnefnd Stykkishólms og 1 sem fulltrúi þeirra, er vinna hjá félaginu, og var hann kosinn af Verkamannafélagi Stykkishólms.

Alþýðublaðið. 10 apríl 1931.


Línuveiðarinn Alden GK 247.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

    Hafnfirðingar kaupa línuveiðara

Hlutafjelagið "Foss " í Hafnarfirði hefir keypt línuveiðarann "Alden" frá Stykkishólmi og verður skipið gert út frá Hafnarfirði. Alden kom til Hafnarfjarðar í gær.  Aðaleigendur línuveiðarans eru, Jón Björn skipstjóri, Ólafur Tr Einarsson, Guðmundur Einarsson og Guðmundur Erlendsson.

Morgunblaðið. 21 apríl 1940.


Alden EA 755 með fullfermi af síld á leið til Siglufjarðar.                                        (C) Jón & Vigfús.

              Línuveiðari seldur

Línuveiðarinn Alden frá Hafnarfirði hefir verið seldur til Dalvíkur. Kaupendur eru hlutafélag þar.

Vísir. 19 janúar 1945.

            Brotajárnaskip lestar
        og línuveiðarar til niðurrifs

Tvö skip er verið að lesta hér í höfninni með brotajárn. Er annað þeirra gríska flutningaskipið Titika, sem strandaði í Keflavík í fyrravetur og nú hefur verið gert sjófært, svo að hægt sé að draga það til niðurrifs erlendis. Hitt skipið er Ulla Danielsen. Þá liggja vestur við Ægisgarð þrír gamlir línuveiðarar, járnskip, sem seldir hafa verið til niðurrifs, en það eru Alden, Ármann og Rafn. Innan fárra daga er von á dráttarbátum frá útlöndum til þess að sækja þessa gömlu kláfa og gríska skipið.

Morgunblaðið. 23 júní 1956.

29.08.2020 19:32

Siglufjörður á millistríðsárunum.

Þegar Siglufjörður var nefndur á nafn hér á landi um miðja síðustu öld kom flestum saman um að þar væri vagga síldveiðanna hér við land og einnig Eyjafjörður, sem auðvitað er rétt. Segja má að Siglufjörður hafi verið stærsti síldarbær í heimi miðað við höfðatölu, en á þessum krepputímum streymdi fólk hvaðanæva af landinu til að vinna í síldinni. Fólk úr sveitum landsins sá þar tækifæri til að losna úr hinum alræmdu"vistaböndum". Þar fékk fólk borgað í peningum sem var ekki títt á þessum tíma. Á Siglufirði voru margir síldargrósserar. Í hugan kemur nafn Óskars Halldórssonar sem má segja að sé "holdgerfingur" síldarævintýrisins hér á landi nánast frá upphafi fram yfir árið 1950. Alveg magnaður karakter. Marga aðra má nefna, danann Sören Goos, Ásgeir Pétursson, Anton Jónsson, Ingvar Guðjónsson og margir fleiri. En það var ekki bara við Eyjafjörðinn sem síldarplönin og síldarbræðslurnar voru reistar, þær voru það einnig víða á landsbyggðinni. Síldin átti sinn þátt ásamt mörgu öðru við sjávarsíðuna að koma þjóðinni endanlega úr moldarkofunum inn í þá tækniveröld sem á þessum árum var að byggjast upp hér á landi, hægt og rólega.


Siglufjörður um árið 1930. Síldarævintýrið í algleymingi.                                (C) Jón & Vigfús.

 Síldarolíu og fiskimjölsverksmiðjur
             á Íslandi fyrr og nú

Evangers verksmiðjan á Siglufirði, var reist árið 1912, en eyðilagðist í snjóflóði 1919. Verksmiðjan »Ægir« í Krossanesi við Eyjafjörð, er einnig reist árið 1912 og sama ár byggir Goos verksmiðju sína á Siglufirði. Árið 1913 var verksmiðja reist á Dagverðareyri við Eyjafjörð, en hún brann árið 1916; var hún byggð upp aftur en hætti eftir fá ár og var flutt til Raufarhafnar 1926. 1918 reistu hinar sameinuðu íslenzku verzlanir, verksmiðju á Siglufirði, en hana keypti síðar Goos.
1913 byrjuðu Þjóðverjar síldarbræðslu á Sólbakka við Önundarfjörð, sem lagðist niður um tíma. Síðar byrjaði h. f. Andvari, sem stofnað var 1925. H. f. »Kveldúlfur« í Reykjavík á verksmiðju á Hesteyri við Ísafjarðardjúp, sem byrjað var að starfrækja árið 1923. Var þar áður hvalveiðastöðin »Hekla«, 1926 var verksmiðjan á Dagverðareyri flutt til Raufarhafnar og er starfrækt þar. 1929 er byrjað að reisa síldarbræðslustöð ríkisins á Siglufirði.
Árið 1915 reisti ræðismaður Gísli Johnsen verksmiðju í Vestmannaeyjum, sem starfrækt er enn og aðra verksmiðju reisti Thomsen o. fl. á sama stað, árið 1924. Það ár var verksmiðja á Norðfirði sett á fót af Dr. Paul. 1926 var verksmiðja reist á Ísafirði, sem nú er eign »Fiskimjöl h. f.« á Ísafirði, og sama ár byrjaði Dr. Paul að reka verksmiðju á Siglufirði og er hún einnig síldarolíuverksmiðja. 1927 reisti ræðismaður Gísli Johnsen fiskimjölsverksmiðju á Vatnsnesi við Keflavík, en hún brann skömmu síðar, var endurreist 1929 og er nú eign h. f. Lýsi og mjöl. 1928 var verksmiðja reist í grennd við Reykjavík og rekur h.f. »Fiskimjöl hana. H. f. »Bein« reisti verksmiðju á Siglufirði árið 1929, sem tók til starfa hið sama ár.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1930.


23.08.2020 09:44

Um borð í togaranum Úranusi RE 343.

Þessar ljósmyndir hér að neðan eru teknar um borð í togaranum Úranusi RE 343 og eru þær úr safni Atla Michelsen stýrimanns sem var skipverji á togaranum um miðjan 7 áratuginn. Myndirnar eru einstakar heimildir um þessa liðnu tíma í útgerðarsögu okkar íslendinga, um skipin og sjómennina. Og meira er, að Atli hefur haldið vel til haga nöfnum skipsfélaga sinna og viðurnefni þeirra sumra að mestu leiti.  Margar fleiri myndir er ég með úr safni Atla og mun ég setja þeir hér inn á næstunni.
Togarinn Úranus RE 343 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 725. Eigandi var Júpíter h/f í Reykjavík frá 2 apríl sama ár. Úranus kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 5 apríl árið 1949. Úranus RE 343 landaði síðast í Reykjavík 7. marz árið 1974 og fór til Spánar hinn 17. apríl sama ár með Marz RE 261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn og var tekinn af skrá 20 maí árið 1974.
Ýmsar breytingar voru gerðar á teikningu togarans, s.s. settur á skipið pólkompás sem staðsettur var framan á brúnni, pokabómur festar upp undir salningu. Þær vísuðu þá lárétt út þegar pokinn var hífður út og náði lengra en venjulegar bómur sem vísuðu skáhallt upp og voru festar neðarlega á mastrið. Úranus var jafnframt fyrsti togarinn sem smíðaður var með hærri lunningar sem náðu aftur að svelgnum. Áður höfðu togarar Tryggva, Neptúnus og Marz fengið hækkaðar lunningar en þær náðu aðeins aftur fyrir vantinn.


Árni Múli og Guðni jobbari um borð í Úranusi RE 343.

 
Sverrir Erlendsson skipstjóri í glugganum.


Viggó Gíslason vélstjóri.

     Úranusi hleypt af stokkunum

Í gær var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen, nýsköpunartogaranum Úranus RE 343. "Úranus" er af minstu gerð nýsköpunartogaranna, 175 fet á lengd. Eigandi hans er h.f. Júpíter hjer í Reykjavík, en framkvæmdastjóri fjelagsins er Tryggvi Ófeigsson. Var hann viðstaddur athöfnina, ásamt dóttur sinni, Herdísi, er Skýrði skipið.

Morgunblaðið. 6 október 1948.


Daði bræðslumaður.


Johan Karl Færeyingur.


Jón Júlíusson á trollvaktinni.                                                 (C) Atli Michelsen.


B.v. Úranus RE 343 á toginu. Takið eftir hvað bómurnar eru hátt í fremri vantinum.
(C) Sigurgeir B Halldórsson.

            Úranus kemur í dag

Í dag kemur nýsköpunartogarinn Úranus hingað til lands. Er þetta næst síðasti togarinn, sem samið var um smíði á. Úranus er eign h.f. Júpíters hér í Reykjavík. Skipstjóri er hinn kunni aflamaður Bjarni Ingimarsson. Einn togari, utan tveggja dieseltogara, er enn í smíðum í Englandi og er það Svalbakur, sem bojarútgerð Akureyrar á.

Vísir. 5 apríl 1949.
18.08.2020 18:00

B. v. Njörður RE 36. LCJD / TFEC.

Botnvörpungurinn Njörður RE 36 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Njörð í Reykjavík. 341 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var seldur Samvinnufélaginu Haukanesi í Hafnarfirði í september árið 1932, hét þá Haukanes GK 347. 23 júní 1939 var Útvegsbanki Íslands h/f skráður eigandi. Seldur Vífli h/f í Hafnarfirði í október 1940. Togarinn var seldur í brotajárn til Belgíu í febrúar árið 1952.


B.v. Njörður RE 36 með trollið á síðunni.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

             Nýr botnvörpungur

Í nótt kom enn einn nýr íslenskur botnvörpungur. Það er Njörður, eign hins nýja Njarðarfélags, stórt skip, svipað þeim, sem hingað hafa komið í vetur og vor. Skipstjóri er Guðmundur Guðnason.

Vísir. 9 júlí 1920.


B.v. Njörður RE 36.                                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Haukanes GK 347 á siglingu sennilega á sjómannadag.           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

   Þegar tveir þeirra gömlu kvöddu 

Þess var getið í síðasta blaði að togararnir Haukanes og Baldur hefðu verið seldir til niðurrifs til Belgíu. Áður en þeir fóru héðan voru þeir fylltir af brotajárni, en þýzkur dráttarbátur var sendur til að draga þá utan. Þeir lögðu úr höfn mánudaginn 2. marz, en þegar komið var suður í Grindavíkursjó varð þess skjótlega vart, að kominn var talsverður sjór í Haukanes. Leit svo út um tíma, að það mundi sökkva og voru gerðar ráðstafanir til að koma viðgerðarmönnum um borð í skipið, en öll var þrenningin skammt undan landi. En þeir komust ekki um borð vegna veðurs. Dráttarbátnum tókst hins vegar að dæla sjónum úr Haukanesi og kom hann aftur með bæði skipin til Reykjavíkur. Við athugun kom í ljós, að leki hafði ekki komizt að Haukanesi, heldur hafði farið sjór inn um akkeriskeðjugatið. Nú eru skipin öll komin heil á húfi til Belgiu.

Ægir. 1 mars 1952.

17.08.2020 23:15

2895. Viðey RE 50 á sjómannadaginn 2020.

Tók þessar myndir af togaranum Viðey RE 50 á sjómannadaginn þar sem hann lá við bryggju í Reykjavíkurhöfn. Körin voru tilbúinn á bryggjunni og einungis eftir að hífa þau um borð. Viðey RE 50 var smíðuð hjá Celiktrans Shipyard í Istanbúl í Tyrklandi árið 2017 fyrir H.B. Granda h/f í Reykjavík. 1.827 bt. 2.445 ha. MAN B&W 6L27/38, 1.799 Kw. Smíðanúmer CS 50. Skipið er hannað af Nautic, Skipahönnun og ráðgjöf í Reykjavík. Viðey kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur á vetrarsólstöðum, hinn 21 desember árið 2017. Móttökuathöfn var haldin daginn eftir út í Örfirisey, og við það tækifæri var skipinu formlega gefið nafn. Viðey er glæsilegt skip eins og systurskip hennar sem þegar eru komnar til landsins, Engey RE 1, ( selt til Rússlands á síðasta ári) og Akurey AK 10.
Skipstjóri á Viðey er Jóhannes Ellert Eiríksson, sem áður var skipstjóri á Ottó N Þorlákssyni RE 203.


2895. Viðey RE 50 í Reykjavíkurhöfn.


2895. Viðey RE 50 við Grófarbryggjuna.


Körin tilbúin á kæjanum.


Góður og fallegur fiskur úr Viðey RE 50. Ég flakaði um 80 kör af afla Viðeyjar um síðustu mánaðarmót hjá Erik the Red Seafood ehf í Keflavík. Stærð fisksins var að meðaltali 4 til 8 kíló sem er mjög vænn fiskur sem gott er að vélflaka.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 

17.08.2020 21:11

2184. Vigri RE 71 að landa afla sínum í Örfirisey.

Frystitogarinn Vigri RE 71 var að landa afla sínum í Örfirisey í gær. Glæsilegt skip Vigri og hann mætti alveg við smá málningu, enda orðinn svolítið verklegur að sjá. En það þarf ekki að hvíla stálið og sennilega stutt í næstu veiðiferð hjá honum. Tók þessa mynd af honum í gær og enn og aftur, glæsilegt og mikið skip hann Vigri.


2184. Vigri RE 71 við bryggjuna í Örfirisey.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

17.08.2020 09:55

E. s. Christian lX. LBDN.

Eimskipið Christian lX (9) var smíðað hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1875 fyrir Sameinaða gufuskipafélagið (DFDS) í Kaupmannahöfn. 1.236 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. 230,8 ft. á lengd, 30,1 ft. á breidd og djúprista var 23,2 ft. Smíðanúmer 84. Selt 28 febrúar 1916, Ásgeiri Péturssyni útgerðar og kaupmanni á Akureyri, sama nafn. Skipið var selt í júní sama ár til Stokkhólms í Svíþjóð. Er svo í Malmö árið 1918. Er svo síðast skráð í Hammarby í Svíþjóð. Skipið strandaði og sökk í sænska skerjagarðinum hinn 25 október árið 1925.

Það kom frétt í blaðið Norðurland hinn 8 júní 1916, að Ásgeir hafi selt skipið stóru skipafélagi í Noregi. Mínar heimildir eru danskar og mun áræðanlegri að ég higg og nota ég þær frekar.


Gufuskipið "Christian lX" á siglingu.                                      Ljósmynd í minni eigu.

                 "Christian lX"

Skip sem Ásgeir Pétursson kaupmaður hefir keypt af sameinaða gufuskipafélaginu í Kaupmannahöfn kom hingað í gær, hlaðið steinolíu o. fl. vörum. Ásgeir Pétursson kom sjálfur á skipinu. Meðal farþega voru kaupmennirnir Sigtryggur Jónsson á Akureyri og Sigtryggur Jóhannesson í Reykjavík. Á þetta mikla og þjóðþarfa fyrirtæki Ásgeirs Péturssonar (kaup skipsins) verður nánar minst í næsta blaði.

Norðurland. 22 apríl 1916.


Today's page views: 21
Today's unique visitors: 14
Yesterday's page views: 1416
Yesterday's unique visitors: 501
Total page views: 2031763
Total unique visitors: 519497
Updated numbers: 28.9.2020 00:25:52