27.11.2015 10:55

Strandferðaskipið Súðin.TFRA.

Súðin,ex Cambria,hét fyrst Goete.Smíðuð í Rostok í Þýskalandi árið 1895.811 brl.550 ha.3 þjöppu gufuvél.Eigandi var Ríkissjóður Íslands (Skipaútgerð ríkisins) frá ágúst 1930.Það var keypt frá Gautaborg í Svíþjóð.Skipið var selt í júní 1949,Útvegi h/f í Reykjavík,hét þá Súðin RE 210.Var notuð sem þjónustuskip smærri fiskiskip við Grænland.Ríkissjóður eignaðist svo aftur skipið árið 1951 og selur það Kjartani Guðmundssyni í Reykjavík.Selt til Ceylon (Sri Lanka) í febrúar 1952.Súðin varð fyrir árás Þýskrar sprengjuflugvélar á Skjálfandaflóa,16 júní 1943,þegar skipið var á leið til Húsavíkur frá Akureyri.Tveir menn létust og fjórir slösuðust alvarlega í þessari morðárás Þjóðverja á skipið.Breski togarinn Lameslate H 548 frá Hull bjargaði áhöfninni,því óttast var að skipið sykki þá og þegar,en það hélst á floti og var stuttu síðar dregið til hafnar á Húsavík af togaranum War Gray H 14 frá Hull.
Strandferðaskipið Súðin á siglingu.                                                   (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Hér á eftir kemur grein sem skrifuð var í Sjómannablaðið Víking,6-7 tölublað,5 árgang árið 1943 um árásina sem Súðin varð fyrir á Skjálfandaflóa,16 júní 1943.;

Útdráttur úr leiðarbók e.s. "Súðin" miðvikudaginn 16. júní 1943. Staður skipsins: 66 18' 5" n.br. 17 39' V.I., á leið til Akureyrar. Veður: NA 1, sjór 2, léttskýjað. Loftvog: 756.0 mm. Kl. 13.40 heyrði 3. stýrimaður, er átti vakt á stjórnpalli, í flugvél og í sama mund sá hann hvar flugvél kom beint undan sól (skipið hafði stefnu í vestur), og lækkaði flugið. Hann fór þegar að talpípu þeirri sem liggur niður til skipstjóra, til þess að tilkynna honum um flugvélina. I sama mund og hann tekur flautuna úr talrörinu, kom skot í vinstri öxl hans og hann féll flatur á stjórnpallinn. Á sömu stundu fleygði flugvélin sprengjum og lét jafnframt kúlnahríð dynja á skipið og lék allt á reiðiskjálfi. Þegar hann reis upp aftur fór hann að talpípunni og kallaði niður til skipstjóra, svaraði hann ekki, hljóp þá stýrimaður niður og inn til hans, skipstjóri var þá farinn úr íbúð sinni. Fór hann þá á stjórnpall aftur og stóð þá skipstjóri fáklæddur þar, höfðu þeir farist á mis. Skipstjóri stöðvaði þegar skipið og gaf skipun um að hafa bjargbáta tilbúna, ennfremur að menn yrðu tilbúnir við loftvarnartækin ef flugvélin kæmi aftur, einnig gaf hann loftskeytamanni skipun um að kalla út neyðarmerki, sem hann og framkvæmdi samstundis. Í þessari hríð særðust eftirtaldir menn: Ögmundur Ólafsson 3. stýrimaður, Guðjón Kristinsson viðvaningur, er var við stýrið, Hermann Jónsson háseti, er var að skafa teaktré á utanverðri afturhlið stjórnpalls, virtust þessir tveir síðastnefndu þegar við fyrstu athugun mjög mikið særðir. Ennfremur særðust: Björn Kjaran óvaningur, er var að hreinsa kopar á kistunni bakborðsmegin, Guðmundur V. Guðmundsson þjónn á 2. farrými, Ólafur S. Ólafsson hjálparmaður í vél og Adolf Hansen búrmaður, voru þessir menn einnig staddir á þilfari. Að lítilli stundu liðinni kom 1. vélstjóri og tilkynnti skipstjóra að botnventill skipsins hefði sprungið og sjórinn fossaði inn, enda var skipið þá þegar farið að hallast mikið til bakborða. Gaf skipstjóri þá skipun um að yfirgefa skipið.


Súðin í Reykjavíkurhöfn.                                              Mynd úr Þrautgóðir á raunastund 3 bindi.

Var þá fyrst farið að bátum á bátaþilfari og reynt að koma þeim út, björgunarbát nr. 1 stjórnborðsmegin reyndist ómögulegt að koma út vegna halla skipsins, björgunarbátur nr. 2 bakborðsmegin var allur sundurskotinn og því ekki sjófær. Var nú farið að afturbátunum og þeir látnir síga í öldustokka hæð. Voru særðir menn og aðrir skipverjar látnir fara í bátana og þeir látnir síga í sjóinn og haldið frá skipinu. Skammt utar en árásin var gerð, voru togarar að veiðum (reyndust það síðar vera Englendingar). Áður en skipið var yfirgefið var gefið merki með eimpípunni til þess að vekja athygli þeira á kringumstæðunum. Komu tveir þeirra brátt á vettvang með stuttu millibili og var sá fyrir togarinn Limeslade H. 548 frá Hull, skipstjóri A. Stoners, fóru allir um borð í hann. Hinn togarinn var War Grey H. 14 frá Hull. Talaðist svo til milli skipstjóra Ingvars Kjaran og hinna ensku skipstjóra, að 1. stýrimaður, Pétur Bjarnason, og hinir særðu menn (að undanteknum Ögmundi Ólaf ssyni, sem ekki lét þess getið, fyrr en síðar að hann væri særður), ásamt nokkrum öðrum skipverjum færu strax með togaranum Lamesdale til næstu hafnar, er var Húsavík. Spurði skipstjóri hinn enska skipstjóra á War Grey hvort hann vildi taka að sér að bjarga skipinu og draga það til lands ef hann færi um borð með sína menn til þess að setja dráttartaugar í það, og játti hann því. Var nú það ráð tekið, að skipstjóri ásamt 1. vélstjóra 2. og 3. stýrimanni og þeim hluta skipshafnarinnar sem eftir var, færu um borð í War Grey og biðu átekta. Á meðan á þessu stóð, hafði e. s. Súðin sígið mikið niður að aftan og eldur gosið upp á bátaþilfari. Var nú beðið drykklanga stund ca. klukkutíma til þess að sjá hvað verða vildi. Að athuguðu máli var sú ákvörðun tekin, að fara um borð í e.s. Súðina aftur, til þess að koma dráttartaugum í hana, svo og til þess að yfirbuga eldinn, í því augnamiði að f reysta að koma henni til hafnar. Dráttartaugar voru nú teknar um borð, og árangurslaus tilraun gerð til þess að slökkva eldinn. Mikill sjór var nú kominn í afturlest, frystirúm, vélarrúm og kolageymslu og halli skipsins mjög mikill. Að þessu loknu var skipið yfirgefið þar eð ekki þótti fært að vera um borð, og farið aftur um borð í togarann War Grey. Þegar þessum undirbúningi var lokiS var, klukkan um 15.30 og var þá haldið til Húsavíkur með e.s. Súðina í eftirdragi. Meðan á þessu stóð hafði þriðji togarinn komið á vettvang, var það togarinn Newland H. 553 frá Hull og fylgdist hann með upp undir Húsavíkurhöfn. Á leiðinni hélt skipið áfram að síga að aftan og eldur logaði bæði á neðra og efra þilfari. Þegar komið var í landvar á Húsavíkurhöfn var stöðvað og skipstjóri fór með sína menn um borð ískipið, togarinn War Grey batt sig á bakborðshliðina og setti jafnframt brunaslöngu um borð, var þá tekið til að slökkva eldinn og haldið áfram að draga skipið upp að bryggju. Komu nú þrír vélbátar frá Húsavík og veittu þeir aðstoð eftir því sem beðið var um. Kl. 22.45 var búið að binda skipið við bryggju, var þá eldurinn slökktur, skipið var þá að mestu fullt af sjó fram að 2. lest. Skipið virðist vera mjög laskað, en að svo komnu ekki hægt að segja nánar um það. Togarinn "Lamesdale" kom til Húsavíkur kl. 17.00, voru þá þeir Hermann Jónsson og Guðjón Kristinsson látnir. Var þegar náð í lækni og hinum særðu mönnum komið á sjúkrahús. Strax og búið var að binda skipið við bryggjuvar brunadæla staðarins tekin um borð og byrjað að dæla sjó úr því, einnig voru athugaðar skemmdir á skipinu og kom þá í Ijós meðal annars, að þær voru mjög miklar af völdum skothríðar á eftirtöldum stöðum: á stjórnpalli, íbúð skipstjóra og loftskeytaklefa, á kistu bakborðsmegin yfir fyrsta farrými, á þilfarshúsi aftur á, á aftursiglu, á eldhús ljóra, á skjólklæðningu að framan miðskipa, á 2. bómu, á stjórnpalli, skot í gegnum fyrsta farrými, á 2. spili, á loftventli bakborðsmegin að framan, á reykháfi og eimpípu til flautunnar, ljóri og ljóraumbúnaður á 2. farými, og flísað upp úr þilfari miðskipa.


Skipið flaki líkast eftir árásina.                                        Mynd úr Þrautgóðum á raunastund,3 bindi.

Bátar og bátaþilfar brunnið, einnig matarkassi og björgunarfleki, neðra þilfar undir báta þilfari og þar fyrir framan og aftan, bjargbeltakistan og það sem í henni var, meira og minna brunnið. 3. lúka og búlkalúkur brunnar, vélarrúms loftljóri skemmdur af eldi, dyraumbúnaður á flestum hurðum miðskipa gengið úr lagi. Ýmislegt skemmt, brotið og blautt af sjó í klefum 1. stýrimanns, 1. og 2. vélstjóra, háseta og kyndara. Þetta er hin staðfesta skýrsla um atburðinn eins og hann gerðist. Sjálf árásin stóð yfir stutta stund. Flugvélin kom hljóðlaust úr landátt og fylgdi sólargeislunum og enginn veitti henni athygli fyrr en hún steypti sér niður að skipinu, og jafnvel þá uggðu menn ekki að sér og bjuggust ekki við neinu illu. Matsveinninn, sem stóð á þilfari með skaftpott í hendinni, otaði skaftinu í hálfgerðu gamni og grandvaraleysi að flugvélinni. En á augabragði og fyrr en nokkur gat áttað sig hvað um var að vera, var þilfar hins friðsama strandferðaskips orðið löðrað í blóði úr særðum mönnum og deyjandi. Sú saga er óskráð, hvað þeir hugsuðu sem mest urðu að hða og hvorki kveinkuðu sér við sár né bana, en hetjuskapur þeirra gaf ekki eftir hinum beztu fyrirmyndum í Islendinga sögum. Guðjón Kristinsson, er skotinn var við stýrið, og meðal fleiri áverka fékk sprengikúlu í síðuna með gapandi sári svo sá inn í lungu, hafði fulla meðvitund þangað til hann andaðist og bað félaga sína að tefja sig ekki á að sinna sér þar sem hverjum mætti vera ljóst að dagar sinir væru taldir. Hermann Jónsson, er fékk vélbyssuskot í brjóstið gekk fimm lengdir sínar að bjargbeltakistunni og setti sjálfur á sig bjargbelti áður en hann féll. Á Guðmundi V. Guðmundssyni, 17 ára pilti sem særðist, voru talin 143 sár eftir flísar úr sprengikúlum. Ólafur S. Ólafsson fékk kanónuskot í gegnum lærið. Björn Kjaran, sem særðist, var aðeins 13 ára drengur sonur skipstjórans. Ögmundur Ólafsson 3. stýrimaður, er hafði skot í öxlinni og annað gegnum þjóhnappana, lét ekki binda sár sín fyrr en búið var að koma dráttartaugum í Súðina. Flugvél sú, sem gerði árásina, mun að öllum líkindum hafa verið 4. hreyfla Fokke Wolf Gondor, en þær eru með stærstu árásarflugvélum Þjóðverja, og eru vopnaðar 8-10 vélbyssum og hraðskeyttum kanónum, og sáust glögg merki eftir fernskonar skot: venjuleg vélbyssuskot, íkveikjukúlur, sprengjukúlur og kanónukúlur úr hértu stáli, sem smugu margfaldann stálbyrðing og ekkert stóðst fyrir. Eitt slíkt skot fór í gegnum endilangan salinn á fyrsta farrými, gegnum mörg þil og uppkræktar hurðir og hafnaði að lokum aftur í vélarrúmi þar sem kúlan braut sundur guf urör, og slík virtist skotharkan annarsstaðar þar sem kúlunum rigndi úr öllum þessum byssum í einu. Í þetta skifti vildi svo lánlega til, að ekki voru nema tveir farþegar með skipinu og voru báðir undir þiljum, en hefði skipið verið fullt af farþegum með konum og börnum um allar þiljur, þarf engum getum að leiða að þeim víðtæku afleiðingum, sem þessi árás hefði haft. Guðjón Kristinsson frá Ísafirði, sem þarna lézt, var efnispiltur í blóma æsku sinnar og átti foreldra og systur á lífi. Hermann Jónsson, sem einnig lét lífið, var maður duglegur og vel látinn af öllum sem þekktu hann. Hann var kvæntur Kristínu Bjarnadóttur, ágætri konu vestfirzkri og áttu þau tvo syni innan við fermingu. Hann átti og aldraða móður á lífi er bjó hjá honum. Hermann hefði orðið 46 ára ef hann hefði lifað tveimur dögum lengur.

Súðin við bryggju í Reykjavíkurhöfn.                                                      (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 

Hann hafði verið lengst á Súðinni allra hásetanna, en þar áður hafði hann verið á togurum, lengst á Snorra goða, og þótti hvert rúm vel skipað þar sem hann var. Aðstandendum og vinum hinna látnu er mikill harmur kveðinn, enn hefir tilfinnanlegt skarð verið höggvið í íslenzka sjómannastétt.

Skipverjar á M.s.Esju,skírðu frá einkennilegum fyrirburði þegar skipið var að koma frá Kópaskeri um kl.11 árdegis sama dag,en frásögnin hljóðar þannig.;

 Klukkan rúmlega 11 árdegis var m.s. Esja að sigla út frá Kópaskeri, þenna eftirminnilega dag var skipið komið út undir Grjótnes á Sléttu. Þoka hafði verið, en sólin skein í gegn einstöku sinnum. Er komið var út undir Grjótnesið birti skyndilega svo að sást langar leiðir. Sást þá e.s. Súðin og var hún komin nokkuð inn og vestur fyrir Rauðanúp. Kallaði yfirstýrimaður, Grímur Þorkelsson, á skipstjóra, er var inni í kortaklefanum, og sagði honum að m.s. Esja væri að fara fram hjá e.s. Súðinni, og gat þess um leið að sér virtist eitthvað einkennilegt við skipið. Fóru þá báðir, skipstjóri og stýrimaður, að beina sjónaukum að skipinu, og sýndist báðum, sem skipið væri stöðvað eða að snúast á sama blettinum, og um leið að komnar væru einhverjar hvítar skellur eða göt á bakborðshlið skipsins, voru þeir að ræða sín á milli hvað þetta gæti verið, hvort sæist inn í hvítu málninguna í herbergjunum, eða hvort það gæti verið að leki væri kominn að skipinu og sjórinn streymdi svona ákaft þarna út frá dælum, eða hvort gæti verið, að hvítar ábreiður væru þarna breiddar yfir eitthvað á þilfarinu og blöktu fyrir vindinum. Maðurinn, sem var á útverði, og sá er stýrði, heyrðu einnig á þetta tal skipstjóra og stýrimanns. Voru þeir að ræða sín á milli um þetta fram og aftur og þótti undarlegt að e.s. Súðin skyldi eigi gefa m.s. Esju nein merki, voru svo sannfærðir um að eitthvað væri að. Sáu síðan að skipið hélt, að þeim virtist, af stað og hélt vestur á bóginn. Kom þeim ásátt um, að þetta hlyti að hafa verið eitthvað smávægilegt, þar eð skipið héldi áfram, án þess að hafa samband við m.s. Esju. 1 nónfréttum útvarpsins var svo sagt frá að e.s. Súðin hafi orðið fyrir flugvélarárás fyrr um daginn. Varð þá skipstjóra að orði, að það hafi þó verið gott að ekki varð meira að en svo, að skipið hefði getað haldið áfram; setti þetta allt í samband við augnablik það er skipin voru þarna um kl. 11 árdegis á svipuðum slóðum. En er síðar fréttist, að árásin hafi fyrst orðið um 2 tímum eftir að skipstjóri og stýrimaður á m.s. Esju báðir sáu þessa áður umgetnu sýn, þótti hér nokkuð hafa borið við er í frásögur væri færandi.

                                                                                                       Frásögn eftir Ásgeir Sigurðsson.

Flettingar í dag: 710
Gestir í dag: 261
Flettingar í gær: 1610
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1952272
Samtals gestir: 494573
Tölur uppfærðar: 5.8.2020 10:00:25