29.11.2015 09:28

Togarinn Garðar GK 25 sigldur niður.

Árdegis 17 maí árið 1943 lagði togarinn Garðar GK 25 frá Hafnarfirði út úr heimahöfn sinni. Ferðinni var heitið til Englands með ísfiskfarm. Togarinn Garðar var smíðaður hjá Smith´s Dock Co Ltd á South Banks í Middlesbrough á Englandi árið 1930,fyrir Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði og var því eitt yngsta skipið í Íslenska togaraflotanum. Hafði hann reynst mikið happaskip undir stjórn Sigurjóns Einarssonar skipstjóra,og oftast verið með aflahæstu skipunum og auk þess komið við sögu fleiri en einnar björgunar. Sigurjón skipstjóri fór ekki þessa ferð með Garðari en í hans stað tók Jens Jónsson við skipsstjórninni,þaulvanur skipstjórnarmaður,traustur og aðgætinn.


Togarinn Garðar GK 25 nýsmíðaður árið 1930.                                 (C) mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

Um svipað leyti og Garðar fór frá Hafnarfirði lögðu togararnir Gyllir og Júpíter af stað frá Reykjavík. Þessi þrjú skip áttu að hafa samflot yfir hafið bæði á útleið og heimleið,þar sem nokkrum dögum áður hafði Atvinnu og samgöngumálaráðuneytið tilkynnt nýja reglugerð um siglingu Íslenskra skipa til breskra hafna. Í þeirri reglugerð var kveðið svo á,að öll Íslensk skip sem sigldu þessa leið með ísvarinn fisk,skyldu fara tvö eða fleiri saman,báðar leiðir. Átti Félag Íslenskra botnvörpuskipaeigenda að áhveða hvaða togarar sigldu saman í hverri ferð og á hvaða stað þeir skyldu hefja samflotið. Áttu skipin sem í samflotinu voru,að haga siglingu þannig,að þau væru ávallt í námunda hvert við annað,nema stórviðri eða dimmviðri hamlaði. Með þessum reglum átti að gera siglingu Íslensku skipanna öruggari en áður,enda hafði reynslan sannað að stundum sagði fátt af einum í hildarleik hafs og stríðs.


Garðar GK 25 að landa síld í Djúpavík á stríðsárunum.                         (C) mynd: Sigurjón Vigfússon.

Togararnir fengu gott veður á útsiglingunni og voru komnir upp að Skotlandsströndum að kvöldi 20 maí. Skipin voru þó ekki komin það snemma að leyfi fengist að sigla suður úr um kvöldið. Urðu þau því að liggja um kyrrt um nóttina og bíða morguns. Var haldið aftur af stað strax í birtingunni,en skömmu síðar skall á dimm þoka og urðu skipin þá fljótlega viðskila.
Þegar Garðar lagði af stað um morguninn,var Jens skipstjóri sjálfur á stjórnpalli,ásamt 1 stýrimanni og Jóni Halldórssyni háseta sem var við stýrið. Annar háseti,Ármann Óskar Markússon var á verði á þaki stýrishússins. Klukkan hálfátta fóru svo fram vaktaskipti,en Jens var áfram uppi. 2 stýrimaður tók við af 1 stýrimanni,Þórhallur Hálfdánarson háseti tók við stýrinu og Andrés Pálsson háseti fór á vörðinn á stýrishúsþakinu. Var síðan haldið áfram stutta stund,eða til klukkan átta,en þá var þokan orðin svo dimm að Jens skipstjóri ákvað að stöðva skipið. Lá Garðar þannig þangað til laust fyrir klukkan tíu um morguninn,er svolítið birti til,og var þá aftur sett á ferð. Þokan var þó enn mjög dimm og var aðvörunarmerki gefið með eimpípu skipsins á hálfrar annarar mínútu millibili.


Garðar GK á síldveiðum. Skipverjar háfa úr nótinni.                              (C) mynd: Sigurjón Vigfússon.

Klukkan ellefu heyrðu skipverjar á Garðari blástur skipa á bakborða og var þá ferð togarans minnkuð. Sáu þeir skömmu síðar móta fyrir þremur skipum úti í þokunni. Fóru þau framhjá á bakborða og héldu í öfuga stefnu við Garðar.
En skömmu síðar sést til ferða fjórða skipsins. Það kom út úr þokunni beint fyrir framan Garðar,þegjandi og hljóðlaust. Virtist það vera á töluverðri ferð og stefna beint á togarann. Jens skipstjóri tók þá umsvifalaust ákvörðun. Hann gaf skipun um að snúa stýrinu hart í stjór og jafnframt ver gefið eitt stutt blástursmerki til þess að gefa stefnubreytinguna til kynna. Ennfremur var sett á fulla ferð til þess að skipið léti betur að stjórn. Gerðist nú margt í einni svipan. Aðkomuskipið hélt sínu striki og skall á Garðari bakborðsmegin,aftan við stjórnpallinn og skarst stefni þess inn undir miðju togarans,sem óðar tók að sökkva.
Jens skipstjóri gaf þá fyrirskipun að skipverjar færu þegar að björgunarbátunum og björgunarflekanum. Nokkrir skipverjanna höfðu verið niðri í skipinu er áreksturinn varð. Meðal þeirra var Haukur Erlendsson og ritaði hann frásögn af atburðinum skömmu síðar í Sjómannablaðið Víking. Segir hann þar m.a:

 Ferðin yfir hafið hafði gengið að óskum og vorum við komnir að strönd Skotlands, ásamt samfylgdarskipum okkar tveimur. Eins og gengur og gerist var verið að áætla áframhald ferðarinnar, hvenær við yrðum, að öllu forfallalausu, komnir á þennan og þennan staðinn, og þá fyrst og fremst, hvort við mundum geta haldið áfram um nóttina, suðurúr, en tíminn knappur. En svo fór, og munaði þó sáralitlu, að við neyddumst til að nema staðar, leggjast og bíða næsta dags. Um kvöldið var hið fegursta veður, logn og blíða, og þótti okkur súrt í broti, að geta ekki notið slíks til áframhalds ferðarinnar, en um það tjáði ekki að fást, og tókum við því lífinu með ró. Um kvóldið settumst við nokkrir að spilum og spiluðum fram á nótt, en að því loknu fór ég upp í brú og hugðist fara að sofa.


Nokkrir af áhöfn togarans Garðars GK. Ungi drengurinn er Einar Sigurjónsson,sonur Sigurjóns Einarssonar skipstjóra. Myndin trúlega tekin sumarið 1936.     (C) mynd: Sigurjón Vigfússon.

En þegar legið er fyrir föstu, í slíkri veðurblíðu og' alger kyrrð ríkir, á maður oft erfitt með að sofna, og svo var í þetta sinn, svo að mér dvaldist hjá þeim sem á verði voru í brúnni, og vorum við að rabba saman um ýms efni, og þau allsundurleit, og mun klukkan hafa verið um fjögur, er ég gekk til hvílu. Ég vaknaði því seint um morguninn, og er ég vaknaði, sem mun hafa verið um kl. 11, þóttist ég þess vís, að svarta þoka mundi vera, þar eð stöðugt voru gefin merki með flautunni, með örstuttum hvíldum, og vélin gekk hægt. Mér duttu í hug bollaleggingar okkar frá deginum áður, um áframhald ferðarinnar, og að við þessar tafir mundi sú áætlun ruglast að meira eða minna leyti, og hugsaði ég nú þungt til þess að við skyldum þurfa að bíða af okkur blíðuna og bjartviðrið um nóttina, og lenda svo í þessum skratta. Lá ég alllengi, hálfvaknaður, við þessar hugsanir, og var jafnframt að hlusta eftir, hvort ekki heyrðist til annara skipa, og heyrði ég hljóðmerkin af og til, misjöfn að tónhæð og styrkleika, sem benti til þess að nokkuð væri hér um skipaferðir, enda slíks von á þessum stað. Var ég að hugsa um að fara fram í brú 1G4 og líta í kringum mig, og viðra mig eftir svefninn. Þá heyri ég gefnar snöggar fyrirskipanir í brúnni, stýrinu er snúið hart í borð, og vélsímanum hringt snöggt. Ég ætlaði að rísa upp af bekknum, sem ég lá á, en í því kvað við ógurlegt brak, skipið rykktist á stjórnborðshliðina, ég fékk högg á höfuð- ið, og yfir mig hrundi spýtnabrak og glerbrot, og tæki, sem fest voru upp á þilin í klefanum, hrundu niður á gólf. Fyrir klefanum var "draghurð", hafði hún skekkst í falsinu, og varð ekki þokað, en engin leið út nema henni væri rutt úr vegi. Sparkaði ég nú sem ég gat, tvisvar eða þrisvar í hurðina og hugðist brjóta hana út, en án árangurs. Heyrði ég að skipstjórinn var frammi í brúnni, og kallaði til hans um að hjálpa mér. Kom hann þegar að hurðinni, tók í hana, en ég sparkaði um leið, með þeim árangri, að hún hrökk út í gang, og mér opnaðist leiðin út. Beið ég því ekki boðanna, hljóp út úr brúnni og aftur að bjargflekanum, sem stóð á rennibraut aftan við reykháfinn. Þar var fyrir II. stýrimaður, ásamt fleiri skipverjum, og unnu þeir að því að losa flekann, og gekk ég í það með þeim. En er við höfðum. losað hann, gátum við ekki rennt honum fyrir borð, vegna hallans á skipinu, sem gerði það að verkum, að rennibrautin varð lárétt. Snerum við því frá flekanum og hlupum aftur á bátadekkið að bátunum.

 
Um borð í Garðari GK 25. Skipverjar gefa sér tíma fyrir myndatöku.  (C) mynd: Sigurjón Vigfússon.

Bátamir stóðu í stólunum, en bátauglur útslegnar, og gengu menn þegar í það, að losa bátana, og settust síðan upp í þá, en þeir f lutu upp er skipið sökk, án teljandi tálmana, því að svo heppilega vildi til, að það sökk jafnt, en stakkst ekki á endann. Ég bjóst við að skipið mundi stingast á annanhvorn endann, og mundi því vafasamt hvernig bátunum reiddi af, og tók því þann kostinn, að kasta mér í sjóinn og synda sem lengst ég gæti frá sökkvandi skipinu, til að losna við sogið, sem myndast kynni, er það sykki. Synti ég sem mest ég mátti aftur með bóg ásiglingarskipsins, og er ég leit við, var Garðar horfinn í djúpið, en ýmislegt brak flaut á sjónum, og til allrar hamingju hafði bátunum reitt.vel af, og flutu þeir þarna á réttum kili, með fé- laga mína innanborðs. Skipverjar á ásiglingarskipinu, en það var brezkt 5400 smálesta flutningaskip, fleygðu til mín lífbeltum og öðru er ég gæti flotið á, og renndu niður til mín kaðli, til að halda mér í við skipssíðuna. En skipstjóri minn og I. stýrimaður, sem voru í öðrum bátnum, reru til mín og tóku mig upp í bátinn. Er okkur varð litið yfir í hinn bátinn og töldum þá sem í honum voru, sáum við að þrjá félaga okkar vantaði, og sló á okkur óhug. Bar nú að bát frá hinu brezka skipi, og leituðu þeir hinna söknuðu lengi, en því miður án árangurs. Fórum við nú um borð í skipið, og var mjög vel við okkur tekið. Færðir úr f ötum, sem blautir voru, og klæddir öðrum þurrum. Komu sér nú vel föt þau, peysur, sokkar o. fl., sem í bátunum voru, en Bretarnir létu okkur í té það sem á vantaði, en það urðu allmargar flíkur, samankomið. Af samfylgdarskipunum höfðum við misst í þokunni um morguninn, en samferða okkur höfðu verið tveir litlir brezkir togarar. Kom nú annað þessara skipa á vettvang. Höfðu menn þar um borð heyrt gnýinn er áreksturinn varð, en sáu ekki til ferða okkar vegna dimmu. Þóttust þeir vita að um árekstur væri að ræða, og ekki ólíklegt að um okkar skip væri að ræða, þar eð hljóðáttin benti til þess. Fór skipstjóri skipsins, sem á okkur sigldi, þess á leit við skipstjóra togarans, að hann tæki okkur um borð til sín, og flytti okkur til hafnar. Var það auð- sótt mál, og höfðum við síðan. skipaskifti. Var okkur vel tekið af hinum brezku stéttarbræðrum okkar, og skiluðu þeir okkur í skozka höfn, tæpum tuttugu tímum eftir að ásiglingin átti sér stað. Þar tók á móti okkur maður nokkur, Repper að nafni, prúðmenni og prýðilegur í alla staði. Kom hann okkur á gistihús, sá okkur fyrir fatnaði og gerði sér far um að okkur gæti liðið sem bezt. Gististaður okkar var að vísu ekki sem skemmtilegastur, sérstaklega þó hvað við vorum dreyfðir um húsið, en við gerðum okkur það að góðu, enda hvergi annarsstaðar heppilegri vistarverur að fá. Daginn eftir kom svo Sigursteinn Magnússon ræðismaður okkar í Edinborg, og kom hann okkur fyrir á öðrum stað, heppilegri. Við eigum, að mínu áliti, og ég býst við að ég megi mæla svo fyrir munn okkar allra, er í þessum hóp vorum, góðan fulltrúa, þar sem Sigursteinn er. Og er ekki ónýtt fyrir okkur, ekki sízt undir slíkum kringumstæðum sem þessum, að eiga slíkan hauk í horni. Ef vera kynni, að þessar línur bærust Sigursteini fyrir augu, þá vil ég hér með færa honum mínar beztu þakkir, og okkar allra, því að ég þykist þess fullviss að í því efni séu félagar mínir mér samhuga, okkar beztu þakkir til hans, fyrir framkomu hans í okkar garð. Og hafi hann samband við Mr. Repper, bið ég hann að skila slíku hinu sama til hans. Þarna dvöldum við svo í viku, nokkuð langa viku að því er okkur fannst, því hugurinn allur var fyrir löngu floginn norður yfir hafið, heim að gamla Fróni, til ástvina og ættingja.


Garðar GK 25 með fullfermi síldar á Reykjarfirði og bíður löndunar í Djúpavík.
                                                                                                                             (C) mynd: Sigurjón Vigfússon.

Við áttum að fara með fyrri samflotsskipum okkar heim, og biðum þeirra með óþreyju. Það var svo um miðnætti, við vorum allir lagstir til hvíldar, og sumir höfðu fest svefn, að okkur er tilkynnt að skipin séu komin, og bíði eftir okkur. Það voru snör handtök hjá piltum er þeir spruttu upp úr bælum og týndu á sig spjarirnar. Og eftir stuttan tíma voru allir komnir um borð, fimm í hvort skip. Þar var okkur tekið opnum örmum, og búið um okkur eftir beztu föngum. Enda leið okkur prýðilega, eftir ástæðum. Dagarnir voru að vísu langir, að okkur fannst, og fegnir vorum við er við stigum á land. Gleðin var að vísu trega blandin, heimkoman eitthvað tómleg og allmiklu öðruvísi en við höfðum hugsað okkur hana. Er við stigum upp á bryggjuna, og litum til baka, söknuðum við hins stóra, trausta og góða skips, sem við lögðum á frá landi, og sem svo oft hafði skilað okkur glöðum og vonbjörtum að landi. Það er sár söknuður að slíku. En sárast var þó, að við vorum aðeins tíu er heim komu, en þrett- án létum við frá landi. Oddur! Óskar! Alli! Ég þakka ykkur fyrir samveruna, góða viðkynningu og margar glað- ar stundir. Þið félluð fyrir föðurlandið, við störf ykkar í þágu alþjóðar. Enn hefir höggvist skarð í fylkingu okkar, þrír mætir félagar fallið. En enginn veit hver næstur fellur Hittumst heilir fyrir handan."

Skipverjarnir tíu sem björguðust af Garðari voru síðan teknir upp í ásiglingarskipið sem reyndist vera 5.400 smálesta vöruflutningaskip,Miguel de Larrinaga frá Liverpool. Þeir sem fórust með togaranum voru:

Oddur Guðmundsson 1 vélstjóri Reykjavík.

Alfreð Stefánsson kyndari Hafnarfirði.

Ármann Óskar Markússon háseti Þykkvabæ í Rangarvallasýslu.

Skipshöfnin af Garðari kom svo heim með togurunum tveimur sem haft hafði verið samflot við á leiðinni út.


                                                                        Heimildir úr bókaflokknum,Þrautgóðir á raunastund.

Flettingar í dag: 710
Gestir í dag: 261
Flettingar í gær: 1610
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1952272
Samtals gestir: 494573
Tölur uppfærðar: 5.8.2020 10:00:25