04.12.2015 10:33

Líkön af Nýsköpunartogurunum. lV.

Elliði SI 1. TFID. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Siglufjarðar. 654 brl. 1000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Togarinn fórst um 25 sjómílur norðvestur af Öndverðarnesi,10 febrúar 1962. Tveir menn fórust er gúmmíbjörgunarbátur sem þeir komust í,slitnaði frá skipinu í aftaka veðri. 26 skipverjum var bjargað á síðustu stundu við illan leik um borð í togarann Júpíter RE 161 frá Reykjavík. Það má geta þess að vélbáturinn Skarðsvík SH 205 frá Rifi sem fann gúmmíbjörgunarbátinn af Elliða með líkum skipverjanna tveggja sem fórust,sökk þegar báturinn var á heimleið eftir að mikill leki kom að honum. Áhöfninni var bjargað um borð í Stapafell SH 15 frá Ólafsvík.

 
Elliði SI 1.                                                  (C) mynd: Guðmundur Gauti Sveinsson. (skoger.123.is)


Elliði SI 1. Sjá má í líkan af togaranum Hafliða SI 2,en honum verða gerð góð skil síðar.
                                                               (C) mynd: Guðmundur Gauti Sveinsson. (skoger.123.is

 Á sunnudaginn,19 október lagðist hinn nýi togari Bæjarútgerðar Siglufjarðar, Elliði SI 1 í fyrsta sinn að bryggju á Siglufirði. Þetta er fyrsti togarinn, sem Siglfirðingar eignast og fyrsti togarinn, sem héðan verður gerður út. Það er því fyllilega réttmætt að segja, að koma þessa glæsilega skips marki tímamót í sögu bæjarins. Nýr þáttur er að hefjast í athafnalifi hans, togaraútgerð. Mikliar vonir eru tengdar við þennan atburð. Siglufjörður er mikill starfs og athafnabær. - Hvergi á íslandi mun vera aflað jafnmikilla verðmæta fyrir þjóðarbúið og hér á Siglufirði, að tiltölu við fólksfjölda. Og tæpast mun sá bær finnast hér á landi, þar sem jafnmikill fjöldi íbúanna vinnur við arðskapandi framleiðslustörf yfir sumartímann og hér. En samt sem áður stendur ennþá ófyllt skarð í athafnalifi bæjarins. Atvinnuleysið herjar enn á íbúana á hverjum vetri. Vinnan við síldveiðarnar er aðeins árstíðarvinna. Framleiðslan þarf að verða fjölbreyttari. Siglfirðingar þurfa að einbeita sér að því að fylla þetta skarð á sem skemmstum tíma.Að því ættu allir bæjarbúar að geta stuðlað af fremsta megni, án flokkadrátta. Hér þarf að rísa upp fiskútgerð og verksmiðjuiðnaður í sambandi við sjávarútveginn, sem starfræktur yrði allt árið og ekki sízt á veturna. Nýi togarinn á að geta fyllt þetta skarð að nokkru, þó miklu þurfi þar við að bæta. Auk þeirra siglfirzku sjómanna, sem vinna á skipinu, mun verða nokkur vinna í Iandi í sambandi við útgerð hans. Koma togarans Elliða er vissulega merkilegur og gleðilegur viðburður í sögu bæjarins, og munu árnaðaróskir allra bæjarbúa fylgja honum og skipshöfn hans, er hann leggur upp í sína fyrstu veiðiför, og ævinlega. Bræðslutæki Elliða eru smíðuð af vélsmiðjunni Héðni í Reykjavik. Voru þau tekin um borð um daginn, er togarinn fór til Hafnarfjarðar. Er nú unnið af kappi að því, að setja tækin niður og mun það sennilega taka 1-2 vikur.

                                                                            Heimild: Mjölnir,10 árg.22 okt.1947.

Togarinn Elliði SI 1 við bryggju á Siglufirði.                                                Ljósm: Hinrik Andrésson.

Ég vil þakka Guðmundi Gauta Sveinssyni fyrir þessar myndir af líkaninu af Elliða.

Einnig vil ég þakka Sæmundi Þórðarsyni og Hauki Sigtryggi Valdimarssyni fyrir þeirra innlegg sem birt verða hér á síðunni á næstunni. Bestu kveðjur.





Flettingar í dag: 329
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 722994
Samtals gestir: 53659
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 09:12:44