26.01.2016 09:24

Breski togarinn Kingston Peridot H 591 ferst 26 janúar 1968.

Árið 1968 byrjaði ekki vel á Íslandi. Óstöðug veðrátta og sjaldan gaf á sjó. Engin meiri háttar slys urðu fyrri hluta janúarmánaðar en það átti eftir að breytast. Föstudaginn 26. janúar skall á með slæmu norðanveðri og gætti þess mest norðanlands. Vindhraðinn náði 12 vindstigum og frostið var meira en 10 gráður um kvöldið. Illviðrið stóð fram á næsta dag. Þegar kom fram á sunnudag fór að bera á olíubrák í Axarfirði og daginn eftir fannst mannlaus gúmmíbátur þar í firðinum. Að morgni þriðjudagsins 30. janúar lýsti Slysavarnafélag Íslands eftir enska togaranum Kingston Peridot en ekkert samband hafði náðst við hann í fjóra daga. Fjörur voru gengnar um allt Norð- austurland en án árangurs og á föstudeginum var leit hætt. Nokkrum dögum áður hófst leit að togaranum St. Romanus sem hélt til veiða frá Hull 10. janúar eða sama dag og Kingston Peridot lagði af stað til Íslands. Ferð St. Romanus var heitið á miðin við Norður Noreg en talið er að togarinn hafi farist daginn eftir að hann lét úr höfn. Ekki var tilkynnt um hvarf hans fyrr en 24. janúar.
Togarinn Kingston Peridot var í eigu hins þekkta útgerðarfyrirtækis Hellyers Brothers í Hull. Togarinn var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948. Hann var 658 tonn að stærð og hafði lengst af stundað veiðar við Ísland.


Togarinn Kingston Peridot H 591.                                                                           (C) Mynd: James Cullen.

Togarinn var lengst af við veiðar út af Norðurlandi og um hádegisbil, 26 janúar hafði skipstjórinn á Kingston Peridot samband við skipstjórann á togaranum Kingston Sardius H 588, sömu útgerðar en sá togari var að veiðum út af Langanesi. Var Kingston Peridot þá að veiðum á norð-austur horni Skagagrunns en væri hættur veiðum þar sem veður fór sífellt versnandi. Ákvað skipstjórinn á Kingston Peridot að halda austur fyrir Langanes þar sem veður væri betra þar. Það síðasta sem heyrðist frá Kingston Peridot var þegar loftskeytamennirnir á honum og Kingston Sardius ræddust við um kvöldið, sagði loftskeytamaður Kingston Peridot að komið væri vitlaust veður og ís væri farinn að hlaðast á skipið. Eins og hér að framan greinir hafði Slysavarnarfélag Íslands þegar gert ráðstafanir til leitar er félaginu barst fréttin um að togarans væri saknað. Umfangsmikil leit var gerð af togaranum næstu daga en ekkert fannst fyrir utan gúmmíbátinn og þessa olíubrák utarlega á Öxarfirði.


Togarinn St.Romanus H 223.                                                                                    (C) Mynd: James Cullen.

Það var ekki fyrr en 22 apríl að togskipið Sæþór ÓF 5 frá Ólafsfirði var á togveiðum djúpt út af Öxarfirði. Var hann að toga í suðlæga stefnu að Mánáreyjum. Þegar trollið var híft sáu skipverjar strax að í því var einhver undarlegur aðskotahlutur. Sáu þeir að þetta var einskonar hetta af loftventli af skipi. Tóku þeir einnig eftir því að um leið trollið var tekið, kom olíubrák á sjóinn. Var álitið að togarinn hafi farist á þessum slóðum, honum hvolft skyndilega út af ofurþunga íss og hafróts og sokkið. Milil réttarhöld fóru fram í Bretlandi vegna þessara skipstapa og átti þessi ventilhetta eftir að skipta sköpum þar sem álitið var að togararnir væru vart haffærir og allra síst í vetrarveðrum við Ísland.


Togarinn Kingston Sardius H 588.                                                                            (C) Mynd: Steve Farrow.

Í Bretlandi var mjög mikið skrifað um hvarf togaranna og ekkjur sjómannanna sem fórust með þeim ákváðu að senda Harold Wilson forsætisráðherra áskorun um að rannsókn færi fram og að stjórnvöld beittu sér fyrir því að öryggi togarasjómanna yrði bætt. Var ákveðið að sjómannskonur og fulltrúar frá verkalýðsfélagi færu til Lundúna og afhentu þar áskorun til Wilsons. En áður en lagt var í hann bárust válegar fréttir frá Íslandi. Svo hörmulegar og ógnþrungnar að út yfir tók. Fólk hlustaði agndofa á fréttirnar og enn á ný höfðu embættismenn konunglegu nefndarinnar ærinn starfa. Vonir þeirra um að það illa væri yfirstaðið þegar þeir höfðu tilkynnt aðstandendum áhafnanna á Kingston Peridot og St Romanus að þær væru taldar af rættust ekki. Enn urðu þeir að ganga hús úr húsi og flytja váleg tíðindi.

                                                                    Heimildir: Þrautgóðir á raunastund. XVll bindi.

                                                                                  Bæjarins besta. febrúar árið 2008.

Flettingar í dag: 1533
Gestir í dag: 391
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963985
Samtals gestir: 497385
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 14:36:31