30.01.2016 11:11

975. Bjartur NK 121. TFGT.

Bjartur NK 121 var smíðaður hjá V.E.B. Elber Werft Boizenburg í Austur Þýskalandi árið 1965 fyrir útgerð Síldarvinnslunnar h/f í Neskaupstað. 264 brl. 600 ha. Lister díesel vél. Kom fyrst til heimahafnar 14 maí sama ár. Fyrsti skipstjóri á Bjarti var Filip Þór Höskuldsson frá 1965-1967, þar til hann tók við nýjum Birting NK 119. Ísak Valdimarsson frá 1967-1972. Skipið var selt 29 janúar 1972, Fiskanesi h/f í Grindavík, hét Grímseyingur GK 606. Selt 9 febrúar 1976, Félagsútgerð Reynis Jóhannssonar og Benónýs Þórhallssonar í Grindavík, hét Víkurberg GK 1. Selt 27 desember 1979, Þormóði ramma h/f á Siglufirði. 7 febrúar 1980 var skráður eigandi Ríkissjóður Íslands, hét Bjartur og var skráð sem rannsóknarskip. Selt 19 febrúar 1982, Vísi h/f í Grindavík, hét þar fyrst Bjartur GK 57 í stuttan tíma en fékk svo nafnið Sighvatur GK 57. Árið 1983 var sett ný vél í skipið, 850 ha. Caterpillar díesel vél . Skipið hefur verið yfirbyggt. Sighvatur GK 57 er eitt af aflasælustu línuveiðiskipum flotans í dag.


Bjartur NK 121 að koma með fullfermi síldar í Fiskvinnslustöð S.Ú.N, í Neskaupstað, sumarið 1965.
                                          (C) Mynd: Guðmundur Sveinsson. / Skjala og myndasafn Norðfjarðar.


Bjartur NK 121 með fullfermi síldar við bryggju Fiskvinnslustöðvar S.Ú.N í Neskaupstað. Það gæti verið að þessi mynd og hún hér að ofan sé af fyrstu veiðiferð Bjarts.   (C) Mynd: Síldarvinnslan h/f.


Bjartur NK 121 með fullfermi.                                                   (C) Mynd: Svanhildur Óskarsdóttir.


Bjartur NK 121 að landa síld í gömlu síldarbræðslu S.V.N árið 1967 (C) Mynd Sigurður Arnfinnsson.


Rannsóknarskipið Bjartur í Reykjavíkurhöfn árið 1980.                (C) Mynd: Þjóðminjasafn Íslands.


975. Sighvatur GK 57. Búið að byggja yfir skipið.                              (C) Mynd: Ragnar Hauksson.


975. Sighvatur GK 57 að koma inn til löndunar á Dalvík, 21 sept 2015. Mikil útlitsbreyting hefur átt sér stað á skipinu á þessum rúmlega 50 árum sem það hefur verið gert út og er af þeim sökum óþekkjanlegt frá upphaflega útliti skipsins frá árinu 1965 (C) Mynd:Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

Þessi skemmtilega grein með vísukorni birtist í vikublaðinu Austurlandi 21 maí 1965 og hljóðar hún svona.;

 Hinn 14. þ. m. kom skipið Bjartur NK 121, hið síðara skip, sem Síldarvinnslan hf. keypti í Austur-Þýzkalandi, til Neskaupstaðar. Þegar Barði, fyrra skipið, kom, var ég veikur og gat ekki skoðað hann, en var hressari þegar hið síðara skip kom og brá ég mér þá um borð. Ég fór fyrst inn í stjórnklefann (stýrishúsið). Þar stóð Jóhann Sigurðsson, tollþjónn, vakt og ruddi hann mér strax braut inn í skipstjóraklefann. Þar voru fyrir fjórir menn og var mér þar vel tekið. Skipstjóri, Filip Höskuldsson, bauð mér strax sæti. Hinir aðrir, er þar voru, Guðgeir Jónsson, bílstjóri, Kristinn Sigurðsson, forstjóri og Högni Jónasson, bílstjóri, báðu mig umi að gera vísu í tilefni af komu skipsins, en það kom enginn andi yfir mig þá og því varð engin vísa. En til þess að gera þeim einhverja úrlausn bið ég Austurland fyrir vísur, sem komu í hug mér þegar heim kom og sendi ég þeim þær hér með:

Bjartur kom í heimahöfn
hlaðinn beztu kostum,
allvel fær í úfna dröfn,
illviðrum og frostum.

Semsagt fær í flestan sjó
farkostur hinn bezti.
Honum gifta gefist nóg
og gæfa í veganesti.

Líkt er það með Barða og Bjart,
báðir í nýjum flíkum,
útlitið er ekki svart
með útgerðina á slíkum.

Valdimar Eyjólfsson.


          
Flettingar í dag: 710
Gestir í dag: 261
Flettingar í gær: 1610
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1952272
Samtals gestir: 494573
Tölur uppfærðar: 5.8.2020 10:00:25