31.01.2016 11:34

Loftskeytaklefinn úr togaranum Geir RE 241.

Eftir að áhugi útgerðarmanna vaknaði á því að koma loftskeytatækjunum um borð í skipin sín, virtist það ekki standa í vegi þó að skipin væru ekki stór að tonnatölu. Þetta voru nauðsynleg tæki að þeirra mati, það varð að koma þeim einhverstaðar fyrir hvað sem tautaði og raulaði. Þegar skipin voru byggð hafði engan órað fyrir þessari nýju tæknibyltingu, sem vonlegt var.


Loftskeytaklefinn úr togaranum Geir RE 241. Klefinn er til sýnis á Sjóminjasafninu Víkinni á Grandagarði í Reykjavík.

Brúttó rúmlesta stærð togaranna var ekki látin standa í vegi fyrir því að loftskeytatæki yrðu sett þar um borð. Jón forseti RE 108 var nú minnsti togarinn, 233 brl. en algengasta stærðin á Íslensku togurunum á þessu tímabili var frá 300 og upp í rösklega 400 brl.


Inngangurinn í klefann.

Útgerðarmenn í Englandi fóru að setja loftskeytatæki í togara sína upp úr 1913 og hafði sú nýjung gefið góða raun, bæði sem öryggistæki og til aflamiðlunar (fiskifrétta á milli skipa). Ensku skipstjórarnir beinlínis kröfðust þess af útgerðarmönnum sínum að fá þessi tæki um borð, enda höfðu þeir sannanir fyrir því að með þeirra hjálp hefði margur veiðitúrinn, sem annars hefði misfarist, heppnast.
Auðvitað spurðist þetta til Íslands. Því var áformað að útbúa togaranna hér heima með loftskeytatækjum.


Loftskeytaklefinn að innan. Myndin á borðinu er af Snorra Jónassyni sem var loftskeytamaður á Geir RE 241 (eldri og yngri)  frá 1923-1953.

Til þess að koma loftskeytatækjunum fyrir um borð í þessum litlu skipum, en smæð skipanna var ekki látin standa fyrir því. Togarafélagið Kveldúlfur reið á vaðið og lét setja loftskeytastöðvar í þrjá togara. Frá því var sagt í Reykjavíkurblöðunum þann 14 mars 1920."Loftskeytatæki" hefur botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson nú fengið í síðustu Englandsferð sinni. Er Egill fyrsti botnvörpungur íslenskur, sem fær þennan útbúnað. Þessi fyrsta loftskeytastöð sem sett var um borð í íslenskan togara var 0,5 Kw. Marconi neistastöð. Skipstjórinn Jónas Jónasson sem tekið hafði loftskeytapróf, annaðist stöðina.


Loftskeytaklefinn að innan.

Þegar Egill Skallagrímsson RE 165 fékk sína fyrstu stöð, var reistur lítill timburklefi framan við bátadekk og afturmastur, aftast á keisnum fyrir ofan eldhúsið. Síðar var það nokkuð algengt að loftskeytaklefa togaranna væri komið fyrir á þessum stað, en þá voru þeir byggðir úr járni. Þannig var þessu fyrirkomið, t.d. á.; Kára, Geir, Surprise, Maí, Karlsefni og Austra, svo nokkrir séu nefndir. Klefarnir voru innréttaðir, oftast með panel og síðan málaðir. Tækjunum var komið fyrir upp á vegg og þar fyrir neðan skrifborði. Svefnbekkur loftskeytamannsins var þarna í klefanum, en ofan í bekknum voru svo rafgeymarnir. Það gefur auga leið að þessi staður fyrir rafgeymanna hefur ekki verið sá heppilegasti fyrir heilsu þess manns, sem í klefanum átti að hafa aðsetur allan sólarhringinn. Seinna var svo rafgeymunum komið fyrir í kistu upp á klefaþakinu.

Klefinn að innan. Hann var ekki stór, enda "húsgögnin" eftir því. Viðtækið og Morse lykillinn á borðinu en loftskeytatækin sjálf voru sett upp á veggina í klefanum.

Á togaranum Leifi heppna RE 146 var tækjunum komið fyrir í klefa 1 stýrimanns, sem var bakborðsmegin framan til við káetuna, en síðar var innréttaður loftskeytaklefi aftan til í brúnni. Það var samdóma álit togaraskipstjóranna að brúin væri heppilegasti staðurinn til að hafa tækin í. Enda fór svo, að á öllum þeim togurum er smíðaðir fyrir Íslendinga eftir að loftskeytatækin komu til sögunnar, var loftskeytaklefanum ætlaður staður í brúnni, aftantil við stjórnklefann. Sumir togararnir höfðu svo stór kortaherbergi að hægt var að stúka þau í sundur og útbúa loftskeytaklefa þar, en þó voru dæmi þess að kortaherbergið væri tekið fyrir loftskeytaklefa og skipstjórinn flutti kortin niður í íbúð sína undir stjórnpalli.


Togarinn Geir RE 241. Upplýsingar um hann má finna hér á síðunni frá 5 sept s.l.
                                                                                                    (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

Í nokkrum tilvikum var loftskeytatækjunum komið fyrir í íbúð skipstjóra, þannig var þetta t.d. á Arinbirni hersi RE 1, Max Pemperton RE 278, Hafsteini ÍS 449 og f.l. Eins og að framan er sagt var loftskeytatækjunum komið fyrir í klefa framan við káetuna á Leifi heppna til að byrja með, en þessi staður var notaður á þó nokkrum togurum og það til frambúðar, t.d. á Verði BA 142, ex Gulltoppur RE 247 (eldri), Hilmi RE 240, Skúla fógeta RE 144 (yngri). Það má geta þess að talstöðvar voru að ryðja sér til rúms á árinu 1924 og árið eftir voru komnar slíkar stöðvar í um 40 Íslensk skip, en eingöngu voru það kaupskip og nokkrir togarar.

                                                         Heimild: Loftskeytamenn og fjarskiptin, fyrsta bindi, útg 1987.
Flettingar í dag: 656
Gestir í dag: 114
Flettingar í gær: 699
Gestir í gær: 169
Samtals flettingar: 1866442
Samtals gestir: 479861
Tölur uppfærðar: 1.6.2020 17:00:44