05.02.2016 00:26

Mannskaðaveðrið í Ísafjarðardjúpi 4 febrúar 1968.

Veðrið þegar Kingston Peridot fórst þótti slæmt en var þó einungis forsmekkurinn að veðurofsanum sem gekk yfir Vestfirði fyrstu helgina í febrúar. Aðfaranótt laugardagsins 3. febrúar fór loftvogin að falla og um morguninn var spáð hvassviðri. Seinna um daginn þótti sýnt að þetta yrði meira en hvassviðri og spáð stormi um norðan- og vestanvert landið. Aðvaranir Veðurstofunnar urðu til þess að bátar reru ekki og þeir sem voru á veiðum á Vestfjarðamiðum héldu í var. Togarar sem höfðu dagana á undan leitað að Kingston Peridot og St. Romanus stefndu inn Ísafjarðardjúp og venju samkvæmt í var undir Grænuhlíð. Mörg skip lágu þar í vari, m.a. togararnir Ross Cleveland og Notts County. Skipstjórarnir höfðu margsinnis legið undir Grænuhlíð og það gengið áfallalaust. 

Þegar leið fram á nóttina og sunnudagsmorguninn fór ástandið að versna. Gríðarleg ísing safnaðist á skipin og þau urðu þung á sjónum. Ísingin lagðist líka á radara skipanna og þeir urðu meira og minna óvirkir. Radarlaus áttu skipin á hættu að stranda og einnig að lenda í árekstri við önnur skip þar sem þau voru svo mörg á litlu svæði. Að því kom að skipstjórar ræstu út áhafnirnar til að fara út og höggva ís. Í fæstum skipanna voru til áhöld til slíks og þurftu menn að grípa til alls sem að gagni gat komið. Kjötaxir voru sóttar í eldhúsin og í flestum skipanna voru til nokkrar axir. Menn gerðu sér grein fyrir alvöru málsins og reyndu jafnvel að rífa klakann af með berum höndum. 

Um miðjan dag urðu skipstjórar Ross Cleveland, Kingston Andalusite, Prince Philip, Kingston Garnet og Kingston Emerald sammála um að ekki væri lengur hægt að liggja undir Grænuhlíð. Sama hvað menn reyndu, ekkert yrði ráðið við ísinguna. Þeir héldu því innar í Djúpið og undir kvöld voru skipin milli Hnífsdals og Snæfjallastrandar. Veðrið var þá að ná hámarki. Skipverjum fannst að fyrir hvert kíló af ís sem náðist að kasta útbyrðis bættust tvö við. Rétt fyrir miðnætti var radar Ross Cleveland orðinn óvirkur vegna ísingar og skipstjórinn bað hin skipin að fylgjast með sér. Kingston Andalusite sigldi eins nálægt Ross Cleveland og hægt var. Skyggni var nær ekkert en þó rofaði til á milli og sáust þá ljósin á 
Ross Cleveland. 

"We are going over" 
. Þegar skipin voru þrjár mílur út af Arnarnesi sammæltust skipstjórarnir um að fara nær landi og setti skipstjórinn á Ross Cleveland stýrið hart í stjór og vélina á hálfa ferð. Skipið var orðið þungt af ísingu og ekkert gerðist. Var þá sett á fulla ferð og byrjaði þá skipið að snúast og lagðist á hliðina og rétti sig ekki. Í talstöðinni heyrðist í skipstjóra Ross Cleveland senda frá sér sín hinstu skilaboð: We are going over. I am going. Give my love and the crews love to the wives and the families. 


Ross Cleveland H 61. Smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. 659 brl. Hét áður Cape Cleveland H 61. Eigandi hans var Ross Trawlers Ltd í Hull.                     (C) Mynd: Steve Farrow.

Ljósin hurfu skyndilega og skipstjóri Kingston Andalusite setti stýrið hart í bak og á fulla ferð til að komast að Ross Cleveland í von um að bjarga einhverjum skipverjum. Minnstu munaði að eins færi fyrir Kingston Andalusite. Skipið lagðist á hliðina og virtist ekki ætla að rétta sig við. Á síðustu stundu mjakaðist það til baka og náði skipstjórinn að beina því upp í vindinn. Ómögulegt var fyrir Kingston Andalusite að koma skipverjum af Ross Cleveland til bjargar, væru þá einhverjir í sjónum. Enginn komst lífs af nema Harry Eddom. 

Notts County.

 Togarinn Notts County var í mynni Ísafjarðardjúps þegar óveðrið skall á og var búinn að vera á Íslandsmiðum í nokkra daga. Skipstjórinn ætlaði að halda sjó en fljótlega bilaði annar radarinn og fékk hann þá fylgd annarra togara inn Djúpið. Erfitt var fyrir skipstjórnarmenn að vita nákvæmlega um staðsetningu skipanna og var ýmist keyrt á fullri ferð eða hálfri eða látið reka. Veðrið magnaðist og um hádegi byrjaði ísing að hlaðast á skipið og hreyfingar þess urðu þyngri. Áhöfninni var skipað út að höggva þrátt fyrir bágborinn verkfærakost. Fjórar ísaxir voru um borð og þurftu skipverjar að notast við melspírur og hvað eina sem gat komið að notum til að höggva ísinn. Um kvöldið heyrði loftskeytamaðurinn á Notts County síðasta kallið frá Ross Cleveland. 

Ástandið um borð í Notts County var orðið ískyggilegt, skipið var orðið yfirísað, báðir radararnir óvirkir vegna ísingar og dýptarmælirinn virkaði ekki vegna hafróts. Tímaspursmál var hvenær loftnet miðunarstöðvarinnar slitnaði niður, svo mikill ís hafði hlaðist utan á það. Tíðindin um Ross Cleveland bárust milli skipverjanna á Notts County og eflaust hafa þeir hugsað hvort þeir færu niður næst. 

Skyndilega var eins og skipið tæki stökk og í fyrstu vissu menn ekki hvað var að gerast. Ærandi brimgnýr kæfði flest annað en í gegn heyrðust lætin þegar skipið nuddaðist við grýttan sjávarbotninn. Notts County var strandaður. Sjórinn fossaði inn í vélarrúmið. Skipstjórinn skipaði áhöfninni að koma aftur í brú. Mennirnir voru í mikilli hættu þegar þeir hlupu yfir þilfarið því að svo mjög gaf yfir skipið að það færðist að mestu í kaf. 

Björgunarbátar voru settir út en skipstjórinn gaf fyrirmæli um að ekki mætti fara út í þá. Þeir áttu að vera til taks við síðuna ef skipið skyldi brotna í briminu. Þegar fyrsti gúmmíbáturinn var sjósettur gekk sjór yfir skipið og hreif hann með sér. Einn hásetanna kastaði sér um borð í bátinn meðan hann flaut með síðunni. Gekk þá aftur sjór yfir skipið og hvolfdi bátnum og maðurinn fór í sjóinn en á undraverðan hátt tókst skipsfélögum hans að bjarga honum um borð. Maðurinn var mjög kaldur og fljótlega fór að draga verulega af honum og lést hann í höndum félaga sinna. 


Togarinn Notts County GY 643.                                                                               (C) Mynd: James Cullen.

Ástandið um borð í Notts County var skelfilegt þar sem skipið barðist í fjörunni á Snæfjallaströnd, nokkrum mílum utan við Æðey. Mennirnir héldu sig í brúnni og reyndu að halda á sér hita. Fljótlega fór að bera á kali. Það drapst á ljósavélum en eftir margar tilraunir tókst að koma neyðarljósavél skipsins í gang. Þá náðist loftskeytasamband og fengu skipbrotsmennirnir þau fyrirmæli frá Sigurði Árnasyni skipherra á varðskipinu Óðni, að þeir ættu að halda kyrru fyrir og ekki reyna landtöku. Varðskipið kæmi þeim til bjargar eins fljótt og veður leyfði. 

Bátar flýja Bolungarvík 

Varðskipið Óðinn kom á Vestfjarðamið laugardaginn 3. febrúar til að sinna hefðbundinni gæslu. Skipið lá inni á Önundarfirði þegar hjálparbeiðni barst frá togaranum Northern Prince, sem staddur var suðvestur af Rit, en leki var kominn að skipinu. Þegar varðskipið var komið inn á Ísafjarðardjúp var ljóst að togarinn kæmist hjálparlaust til hafnar á Ísafirði. Óðinn lagðist þá í var undir Grænuhlíð. Þá voru þar 22 togarar. Aðfaranótt sunnudagsins versnaði veðrið til muna. Ekki var treystandi á radar Óðins vegna ísingar og til að forðast árekstrahættu hélt varðskipið inn í Jökulfirði. 

Sömu nótt voru Bolvíkingar farnir að óttast um báta sína við Brjótinn. Hafnarmannvirki í Bolungarvík voru mjög bágborin miðað við það sem er í dag og gengu skipin til eins og þau væru úti á rúmsjó. Þegar svo mikið ólag var í höfninni flúðu menn með skip sín til Ísafjarðar. Snemma um morguninn lögðu vélbátarnir Sólrún ÍS og Hugrún ÍS úr höfn í Bolungarvík. Aftakaveður var á leiðinni en bátarnir komust heilu og höldnu til Ísafjarðar og mátti ekki tæpara standa eins og Hávarður Olgeirsson og Bjarni Benediktsson greina frá síðar í umfjölluninni. 

Þessa helgi voru margir Bolvíkingar á þorrablóti á Ísafirði og í Hnífsdal. Meðal þeirra voru Jón Eggert Sigurgeirsson skipstjóri á Heiðrúnu II og Anders Guðmundsson 1. vélstjóri. Heiðrúnin lá við Brjótinn í Bolungarvík og var farin að slíta landfestar. Rögnvaldur Sigurjónsson 2. vélstjóri var um borð ásamt tveimur sonum sínum, Ragnari og Sigurjóni, og einnig voru um borð Páll Ísleifur Vilhjálmsson, Kjartan Halldór Halldórsson og Sigurður Sigurðsson. Ekki var hægt að láta Heiðrúnina liggja öllu lengur við Brjótinn þegar landfestar voru að slitna. Þrátt fyrir að Rögnvaldur væri með stýrimannspróf var gamalreyndur skipstjóri í Bolungarvík, Leifur Jónsson, fenginn til að stýra bátnum til Ísafjarðar. 

Þegar Leifur kom niður á höfn hafði síðasti spottinn slitnað og ekkert annað fyrir Rögnvald að gera en að bjarga bátnum og halda til Ísafjarðar. Veðurhæðin var þá orðin gífurleg og sást vart út úr augum fyrir hríðinni. Þegar Heiðrúnin var út af Hnífsdal bilaði radarinn og þótti ekki hættandi á að sigla inn Skutulsfjörðinn blint. Ákvað Rögnvaldur að fara undir Snæfjallaströnd í var. Jón Eggert skipstjóri var um borð í Guðmundi Péturs ÍS í Ísafjarðarhöfn og í stöðugu talstöðvarsambandi en fljótlega varð sambandið slitrótt. 

Upp úr hádegi kallaði Ísafjarðarradíó í Óðin og bað um að fylgst yrði með Heiðrúnu. Varðskipið reyndi að ná sambandi við bátinn en það var slitrótt og þurftu Guðmundur Péturs og Ísafjarðarradíó að bera skilaboð á milli. Skömmu seinna bárust þau skilaboð frá Heiðrúnu að dýptarmælirinn væri kominn í lag og settu skipverjar út ljósbauju og andæfðu við hana. Um miðjan dag fréttist það af Heiðrúnu, að ísing hefði sest á bátinn en búið væri að berja það mesta af en erfiðlega gengi að halda sig við baujuna. Þegar leið á daginn versnaði veðrið og varð hvassara og meira frost. Ísing hlóðst á Óðin og fór hann inn í Jökulfirði þar sem varðskipsmenn börðu ís í fjóra klukkutíma. Laust fyrir klukkan tíu bar Guðmundur Péturs skilaboð til Óðins um að varðskipið kæmi til Heiðrúnar og staðsetti bátinn. Töldu skipverjar að þeir væru undir Bjarnarnúpi. 


164. Heiðrún ll ÍS 12. Hét áður Páll Pálsson GK 360. Smíðaður á Akranesi 1963. 154 brl. 470 ha. Krumhout díesel vél.                                                                                       (C) Mynd: Haraldur Sturlaugsson.

Óðinn yfirgefur Heiðrúnu 

Óðinn lagði þá af stað úr Jökulfjörðum en þegar skipið kom fyrir Bjarnarnúp var þar fárviðri og haugasjór. Mikil ísing settist á skipið á augabragði. Í radarnum sáu varðskipsmenn 4-5 skip sem ljóst var að voru erlendir togarar. Varðskipið hélt áfram og stundarfjórðungi fyrir ellefu sást bátur í radarnum um 1,2 mílur sunnan við Bjarnarnúp og gat ekki verið nema um Heiðrúnu að ræða. Sigurður skipherra reyndi að komast að bátnum kulmegin en það reyndist erfitt þar sem annar radarinn virkaði illa og hinn var alveg óvirkur vegna ísingar. 

Rétt áður en Óðinn kom að Heiðrúnu bárust þau skilaboð frá Ísafjarðarradíói, að Ross Cleveland hefði horfið af ratsjám og ekkert talstöðvarsamband næðist. Óðinn gaf Heiðrúnu upp staðsetningu og hélt upp undir Grænuhlíð þar sem reyna átti að berja ís af radarloftnetunum. Það var enginn hægðarleikur að vera undir Grænuhlíð við þessar aðstæður, radarlaus innan um fjölda skipa sem flest voru líka án 
radars vegna ísingar. Það tókst að mestu að hreinsa loftnetin og var því lokið um hálftólf. Bárust varðskipsmönnum þá aftur váleg tíðindi. Notts County hafði strandað á Snæfjallaströnd og hélt Óðinn þegar áleiðis á strandstaðinn. Á leiðinni töldu skipverjar sig sjá Heiðrúnu í radarnum og blindsendu tilkynningu um að lóna vestur fyrir Bjarnarnúp því þar virtist vera minna rok. Síðast þegar varðskipsmenn urðu varir við bátinn virtist hann vera á vesturleið 2,7 mílur frá Bjarnarnúp. 

Ekkert hægt að gera á strandstað 

Þegar varðskipið var komið á strandstað Notts County var þar svartahríð og fárviðri og ekki hægt að bjarga skipverjum að svo stöddu. Klukkan tvö um nóttina ákvað Sigurður skipherra að yfirgefa strandstaðinn, þar sem ekkert var hægt að gera, og halda vestur fyrir Bjarnarnúp og svipast um eftir Heiðrúnu. Þeir urðu bátsins ekki varir og héldu undir Grænuhlíð þar sem veður var orðið mun betra. Þá tókst loks að hreinsa radarloftnetin almennilega og voru báðir virkir. 

Með tvo radara í góðu lagi hélt Óðinn aftur af stað frá Grænuhlíð og hélt áfram leit að Heiðrúnu fram undir morgun en án árangurs. Björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu á Ísafirði og Hjálparsveit skáta gengu út með Eyrarhlíð og menn frá Hnífsdal á móti þeim. Leit þeirra bar engan árangur um nóttina. 

Giftusamleg björgun 

Veður fór að ganga niður um morguninn en var þó enn mjög slæmt. Óðinn var kominn aftur á strandstað Notts County klukkan átta um morguninn. Þrátt fyrir skárra veður en geisað hafði daginn áður og um nóttina var haugasjór og skyggni lítið. Varðskipsmenn sendu fyrirmæli um borð að skipbrotsmenn ættu að halda kyrru fyrir og ekki reyna að yfirgefa skipið. Undir hádegi fór veður að lægja og sigldi varðskipið upp að strandstaðnum. Vegna ísingar var ekki hægt að koma stórum vélknúnum báti sem var á varðskipinu fyrir borð. Var því ekkert annað í stöðunni en að notast við gúmmíbát með utanborðsmótor til að komast um borð í 


Varðskipið Óðinn árið 1968.                                                                             (C) Mynd: Valdimar Jónsson.

Hættuför varðskipsmanna 

Tveir varðskipsmenn héldu út í sortann og var þetta mikil hættuför. Erfiðlega gekk að hemja bátinn og munaði minnstu að honum hvolfdi. Þó að um stuttan spöl væri að ræða tók ferðin að togaranum allmargar mínútur. Skipbrotsmenn hjálpuðu þeim að binda bátinn og var þegar hafist handa við að blása upp tvo gúmmíbáta sem voru með í för. Skipbrotsmennirnir renndu sér síðan einn af öðrum á kaðli niður í bátana. Lík mannsins sem lést var skilið eftir um borð. 

Þegar allir voru komnir um borð í gúmmíbátana var haldið af stað og dró varðskipsbáturinn hina bátana á eftir sér. Bátarnir létu illa í ölduganginum og vindhviðunum og mátti ekki miklu muna að einum þeirra hvolfdi. Kl. 13:35 á mánudag tilkynntu varðskipsmenn Ísafjarðarradíói að búið væri að bjarga öllum mönnunum sem lifandi voru um borð í Notts County. Fjölmenni beið á bryggjunni á Ísafirði þegar Óðinn kom klukkan þrjú um daginn. Farið var með þá sem verst voru haldnir rakleiðis á sjúkrahúsið. Tveim dögum síðar var aftur farið á strandstaðinn og líkið sótt.

Togarinn Notts County GY 643 á strandstað við Snæfjallaströnd. Mynd úr þrautgóðum á raunastund. 

Heiðrún talin af 

Strax í birtingu á mánudag hófst leit að Heiðrúnu og skipbrotsmönnum af Ross Cleveland. Guðmundur Guðmundsson formaður slysavarnadeildarinnar á Ísafirði stjórnaði henni úr landi en Hálfdán Einarsson skipstjóri á Sólrúnu stjórnaði leit á sjó. Gengnar voru fjörur frá Óshlíð og fyrir Kambsnes inn í Seyðisfjörð. Fljótlega fundust á Kirkjubólshlíð belgir merktir Heiðrúnu og skammt fyrir utan Súðavík fannst sjórekið lík sem strax var talið fullvíst að væri af skipverja á Ross Cleveland. Leitað var fram í myrkur á nítján bátum og sigldu þeir um Ísafjarðardjúp og Jökulfirði en ekkert fannst. 

Leitinni að Heiðrúnu var haldið áfram næstu tvo daga en að kvöldi miðvikudagsins 7. febrúar var báturinn talinn af. Í þessu mannskaðaveðri fórust 25 sjómenn. 

Maðurinn sem reis upp frá dauðum 

Harry Eddom var 1. stýrimaður á Ross Cleveland í ferðinni örlagaríku á Íslandsmið. Á sunnudagskvöldið þegar skipstjóri Ross Cleveland ætlaði að komast í betra var sendi hann Harry upp á brúarþak til að hreinsa ís af radarloftnetinu. Frostið var nístandi og Harry vel klæddur. Stuttu eftir að hann kom aftur inn í brú byrjaði skipið að halla. 

Þegar skipstjórinn sendi út sín frægu skilaboð klifraði Harry út um dyrnar stjórnborðsmegin. Skipið var þá byrjað að sökkva. Hann sá að tveimur félögum hans, Barry Rodgers og Wally Hewitt, hafði tekist að koma gúmmíbát í sjóinn og voru komnir í hann og Harry stökk á eftir þeim. Hann missti meðvitund í sjónum og björguðu félagar hans honum um borð í bátinn. Harry var vel klæddur eins og áður sagði en félagar hans voru léttklæddir, Wally í skyrtu og buxum en Barry einungis á nærfötum. Yfirbreiðsla bátsins hafði rifnað og þegar öldurnar buldu á bátnum gekk sjór inn í hann. Þeir urðu að láta sér nægja stígvél og könnu til að ausa bátinn en þegar þeir héldu að þeir væru loksins búnir að ausa hann kom önnur alda og fyllti hann á ný. 

Wally og Barry krókna 

Mennirnir urðu sífellt máttfarnari. Eftir nokkrar klukkustundir lést Barry og skömmu síðar fór Wally sömu leið. Harry Eddom var nú einsamall í bátnum með lík félaga sinna hjá sér, félaganna sem björguðu lífi hans þegar þeir drógu hann upp í bátinn. Hálfum sólarhring eftir að Ross Cleveland sökk fann Harry að báturinn tók niðri. Hann sá að bátinn hafði rekið upp í fjöru en vissi ekki hvar hann var. Hann vissi að firðirnir í Ísafjarðardjúpi væru strjálbýlir og líkur á björgun ekki miklar. Hann gekk frá bátnum þannig að hann ræki ekki út með lík félaga hans. 

Bátinn hafði rekið inn í Seyðisfjörð og strandað við svonefnda Læki, um fjóra kílómetra frá Kleifum, sem eru næsti bær. Í svartamyrkri klöngraðist Harry inn með firðinum, ískaldur eftir þrekraunir síðasta sólarhrings. Fyrr um daginn hafði hann séð móta fyrir húsi í botni fjarðarins en þegar hann kom þangað uppgötvaði hann sér til skelfingar að húsið var yfirgefið og harðlæst. Hlerar voru fyrir gluggum og hafði hann enga krafta til að brjóta hurðina upp. Harry kom sér fyrir undir húsveggnum og vissi að það eina sem hann gæti gert til að komast lífs af væri að halda sér vakandi. Ef hann sofnaði væri úti um hann. 

Einn og hálfur sólarhringur var liðinn frá því að Ross Cleveland sökk og Harry Eddom var enn á lífi. Hann var svo máttfarinn að hann gat ekki hreyft fæturna og gerði enga tilraun til að komast eitt eða neitt. 


Harry Eddom og foreldrar hans á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Mynd úr þrautgóðum á raunastund.

Harry bjargað 

Harry lýsti því svo að tilfinningin þegar hann sá hunda koma hlaupandi hafi verið ólýsanleg. Því næst sá hann ungan dreng og kallaði til hans og hann sneri við og hélt til hans. Var þar kominn Guðmann Guðmundsson, 14 ára gamall bóndasonur á Kleifum í Seyðisfirði, en þennan mánudag hafði hann farið út með fé. Fólkið á Kleifum hafði fylgst með fréttum og vissi af atburðunum í Ísafjarðardjúpi og Guðmann áttaði sig á því um leið að þetta væri einn skipbrotsmannanna. Guðmann tók utan um Harry og kom honum heim að Kleifum. Ekki er um langan veg að fara en Harry hefði aldrei komist þetta hjálparlaust. Honum var komið í hlý föt og fékk heitt að drekka og sofnaði um leið og hann lagðist út af. 
Eftir óveðrið var símasambandslaust við Kleifar og engin leið að láta vita af björgun Harrys. Björgunarmenn sem gengu fjörur í Seyðisfirði sáu gúmmíbátinn með líkum sjómannanna, sem og fótspor sem lágu inn með firðinum. Þeir áttuðu sig á að maðurinn hefði reynt að komast að Kleifum. Vélbáturinn Svanur var með björgunarmönnunum í för og fóru þeir á honum inn að Kleifum og komust að því að breskur sjómaður væri inni. Þeir mátu það svo að Harry þyrfti að komast sem fyrst undir læknishendur og var hann fluttur á Svaninum til Ísafjarðar.

Sagan um björgunina kvisaðist út. Ekki hafði nokkurn mann órað fyrir að neinn á Ross Cleveland kæmist lífs af og fjölskyldu Harrys hafði daginn áður verið sagt að skip hans hefði farist. 

Fjölmiðlafár 

Skipskaðarnir við Íslandsstrendur voru efst á baugi í breskum fjölmiðlum. Þegar fréttist af björgun Harrys fóru breskir blaðamenn hamförum og á forsíðum dagblaðanna var talað um Harry sem manninn sem reis upp frá dauðum. Ritstjórn The Sun gerðu Ritu, konu Harrys, tilboð um að greiða fyrir hana far til Íslands gegn einkaviðtali við hjónin og ljósmyndum af hjónunum á sjúkrahúsinu á Ísafirði. Fjárráð þeirra voru ekki mikil og gekk hún að tilboðinu eftir miklar fortölur. 

Tugir breskra blaðamanna komu til Ísafjarðar til að fjalla um björgun Harrys Eddom og Úlfur Gunnarsson yfirlæknir þurfti að hafa sig allan við að stugga blaðamönnum frá sjúkrahúsinu, svo mikil var ásókn þeirra í að fylgjast með endurfundum hjónanna. Eftir átta daga dvöl á sjúkrahúsinu á Ísafirði sneri Harry aftur til Bretlands ásamt Ritu konu sinni. 


Heimildir: 
Þrautgóðir á raunastund - Steinar J. Lúðvíksson. 
Útkall í Djúpinu - Óttar Sveinsson. 
Gagnasafn Morgunblaðsins.
Bæjarins besta-Ísafirði.

Flettingar í dag: 431
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 767
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 718252
Samtals gestir: 53383
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 10:53:30