27.02.2016 11:13

1281. Ólafur Bekkur ÓF 2. TFLD.

Ólafur Bekkur ÓF 2 var smíðaður hjá Niigata Engineering & Co Ltd í Niigata á Hounsueyju í Japan árið 1973. 461 brl. 2.000 ha. Niigata díesel vél, 1.471 Kw. Eigandi var Útgerðarfélag Ólafsfjarðar h/f frá maí 1973. Skipið var lengt og endurmælt árið 1987 og mældist þá 550 brl. Einnig var skipt um aðalvél, 2.035 ha Niigata díesel vél, 1.691 Kw. Skipið var selt 23 október árið 1991, Sæbergi h/f á Ólafsfirði. Skipið hét Múlaberg ÓF 32. Selt árið 1997, Þormóði ramma- Sæberg h/f á Siglufirði, skipið heitir Múlaberg SI 22. Frá árinu 2007 hefur Þormóður rammi h/f á Siglufirði verið eigandi þess og gert það út frá Siglufirði.

1281. Ólafur Bekkur ÓF 2.                                                                   (C) Mynd: Sveinn Magnússon.


Ólafur Bekkur ÓF 2 skírður.                 (C) Mynd: Magni Kristjánsson.


Sigríður Guðbjartsdóttir, eiginkona Magna Kristjánssonar skipstjóra á Bjarti NK, til hægri að gefa togaranum nafnið Ólafur Bekkur við hátíðlega athöfn í skipasmíðastöðinni.         (C) Mynd: Magni Kristjánsson.

1281. Múlaberg ÓF 32.                                                                        (C) Mynd: Sveinn Magnússon.


1281. Múlaberg SI 22.                                                       (C) Mynd: Þórarinn Guðni Sveinsson. 2015.

Þriðjudagurinn 8. maí var stór dagur í lífi okkar Ólafsfirðinga, en þann dag klukkan rúmlega 12, sigldi hinn nýi skuttogari, Ólafur bekkur ÓF 2, eign Útgerðarfélags Ólafsfjarðar h.f., inn á fjörðinn í blíðskaparveðri, eftir 50 daga siglingu frá Japan. Var bærinn allur fánum skrýddur vegna komu skipsins, fánaborg reist á hafnargarðinum og komið fyrir stórum, bláum borða með áletruninni: Velkominn, Ólafur bekkur.

Tollskoðun fór fram úti á firðinum. Mikill mannfjöldi safnaðist saman á hafnargarðinum um klukkan tvö en klukkan tæplega þrjú sigldi hið fagra fley inn í höfnina. Skipinu var fagnað með kröftugu húrrahrópi, síðan söng Karlakór Ólafsfjarðar með aðstoð blásara: Heyrið morgunsöng á sænum, undir stjórn Frank Herlufsen söngstjóra.

Þá tók Ásgrímur Hartmannsson bæjarstjóri og formaður Útgerðarfélagsins til máls og flutti skörulega ræðu. Afhenti hann að lokum framkvæmdastjóra Utgerðarfélagsins skipið. Tók þá Haraldur Þórðarson framkvæmdastjóri til máls. Næstur tók Kjartan Jóhannsson forstjóri Asíufélagsins til máls.

Útgerðarfélagið bauð til kaffidrykkju í félags heimilinu næsta kvöld. Skipstjóri á Ólafi bekk er Ólafur Sæmundsson, fyrsti stýrimaður Magnús Ólafsson og fyrsti vélstjóri Jóhann Már Jóhannsson úr Reykjavík. Ólafur bekkur er búinn öllum fullkomnustu fiskileitar- og siglingatækjum og eru þau öll japönsk, af Fuano-gerð, nema talstöðin, sem er dönsk. Aðalvél skipsins er af gerðinni Niigata, 2 þús. hestöfl og ljósavélarnar eru 300 hestöfl hvor af sömu gerð.

Skipið reyndist í alla staði vel í heimferðinni, sem tók 50 daga. Skipið fer í sína fyrstu veiðiferð seint í þessari viku.

Dagur. 16.05.1973.
Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar á Dalvík. 
Flettingar í dag: 1245
Gestir í dag: 334
Flettingar í gær: 798
Gestir í gær: 301
Samtals flettingar: 1963697
Samtals gestir: 497328
Tölur uppfærðar: 12.8.2020 06:20:10