14.05.2016 08:28

Flakið af togaranum Marz RE 114 við Gerðahólma í Garði á Reykjanesi árið 1916.

Þann 26 október árið 1916 strandaði botnvörpungurinn Marz RE 114 við Gerðahólma, skammt frá Garði á Reykjanesi. Veður var fremur slæmt er skipið strandaði, en greiðlega gekk þó að bjarga áhöfninni á land. Um björgun skipsins var hins vegar strax vonlítið, þar sem það brotnaði mikið við strandið og nóttina eftir var einnig mikið brim á strandstaðnum og þá barst skipið enn hærra upp. Björgunarskipið Geir var sent á staðinn, en hafði þar aðeins skamma viðdvöl, þar sem skipstjóri þess taldi með öllu þýðingarlaust að reyna björgun. Hins vegar tókst að bjarga nokkru af búnaði skipsins.
B.v. Mars RE 114 var eitt kunnasta aflaskip íslenska togaraflotans á þessum tíma. Var skipið í eigu Íslandsfélagsins í Reykjavík frá árinu 1907. Togarinn var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Hull árið 1900, 213 brl. með 430 ha. 3 þjöppu gufuvél. Hét áður Seagull H 494 og mun hafa borið það nafn hér við land í fyrstu. Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) var lengi skipstjóri á Marz, en síðar tók annar þekktur sægarpur, Þorsteinn í Þórshamri við stjórn skipsins.


B.v. Marz RE 114 á strandstað. Unnið við að bjarga verðmætum úr flaki hans.


Flak togarans Marz RE 114.


Allt hirt úr flakinu sem heillegt er.                                        (C) Myndir: Handels & söfartsmuseets.dk


B.v. Mars RE 114 við bryggju í Reykjavík.                                                   Ljósm: Magnús Ólafsson.

Heimild: Þrautgóðir á raunastund 9 bindi. 
Flettingar í dag: 188
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 988
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1540252
Samtals gestir: 415876
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 04:31:41