17.05.2016 09:48

Kútter Hákon RE 113. LBPH.

Kútter Hákon RE 113 var smíðaður í Englandi (Yarmouth ?) árið 1878. Eik og fura 74 brl. 57 ha. Alpha vél. Hét fyrst hér á landi Haraldur og fékk einkennisnúmerið MB 1 seinna. Mun hafa heitið William Boyce í Englandi. Fyrsti eigandi hér á landi var Böðvar Þorvaldsson á Akranesi frá apríl árið 1897. Árið 1901 keyptu Einar Ingjaldsson á Bakka og Björn Hannesson, Litlateigi á Akranesi skipið. Skipið var selt 20 desember 1901, Árna Kristni Magnússyni, Eyjólfi Eyjólfssyni, Carli Bjarnasen og Þórði Pjeturssyni í Reykjavík, skipið fær nafnið Hákon RE 113. Selt 24 maí 1907 Árna Magnússyni og Þórði Pjeturssyni í Reykjavík. Selt 6 október 1910 Firmanu H.P. Duus í Reykjavík. Skipið strandaði við Grindavík 9 maí árið 1926, hét þá Hákon RE 113. Áhöfnin, 21 maður, bjargaðist í skipsbátnum til lands.


Kútter Hákon RE 113.                                                                       (C) Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Hinn gamli góðkunni slagari: Kátir voru kallar af kútter Haraldi, hefur gert þetta litla fiskiskip nær ódauðlegt, því enn er sungið um kallana á kútter Haraldi, og margir munu þeir vera sem halda að kútter Haraldur sé einhverskonar þjóðsagnaskip.

Hann hafði verið keyptur hingað til lands árið 1898. Nokkru eftir að kútterinn kom, en eigandi hans var Geir Sigurðsson skipstjóri og fleiri, kom Geir til Akraness á skipi sínu Og lagði því við festar á legunni. Fór hann í land til þess að hitta kunningja sína, en meðal þeirra var Böðvar kaupmaður Þorvaldsson. Meðan Geir var í landi skall á ofsaveður. Kútterinn hét þá enn sínu skotzka nafni, en Geir hafði keypt hann í Skotlandi.

Þegar óveðrið stóð sem hæst Og menn óttuðust að kútterinn myndi þá Og þegar slitna upp Og reka upp í stórgrýtið, hafði Geir sagt við lítinn son Böðvars, Harald, að nú skyldi hann heita á hann: Ef að kútterinn færi ekki upp í þessu ofsaveðri, skyldi hann láta skíra kútterinn Harald. Svo varð. Festar kúttersins héldu og veðrinu slotnaði og Geir stóð við sitt heit kútterinn var skírður Haraldur og einkennisstafirnir MB 1.- Haraldur þessi varð er honum óx fiskur um hrygg einn mesti athafnamaður landsins og er það hinn þjóðkunni útgerðarmaður Haraldur Böðvarsson á Akranesi. En það er af kútter Haraldi að segja að hann var síðar seldur til Reykjavíkur, en meðan hann var á Akranesi var hann hið mesta happaskip, eins Og vísan sem Geir skipstjóri gerði sjálfur um hina kátu kalla á kútter Haraldi. Eftir að hann kom til Reykjavíkur var hann skírður upp á ný og hlaut nafnið Hákon og hann strandaði 1926 í Grindavík. Bar kútterinn beinin þar.

Morgunblaðið 3 maí 1961.

Flettingar í dag: 647
Gestir í dag: 255
Flettingar í gær: 666
Gestir í gær: 196
Samtals flettingar: 1962301
Samtals gestir: 496948
Tölur uppfærðar: 11.8.2020 16:21:45