30.05.2016 09:10

B.v. Skallagrímur RE 145 sekkur...

Sumarið 1916 stundaði Kveldúlfstogarinn Skallagrímur RE 145 síldveiðar við Norðurland. Kom togarinn til Reykjavíkur á haustmánuðum og var þá þegar hafist handa við að búa það undir þorskveiðar. Vélin var yfirfarin og skipið þrifið hátt og lágt. Þann 6 október var þetta verk svo langt komið að flutt voru kol um borð í skipið. Lauk þeirri vinnu undir myrkur og fóru síðan allir í land utan tveggja manna sem áttu að vera verðir um borð í því um nóttina.
Undir miðnætti varð maðurinn sem vakti, þess var að skipið var tekið að hallast. Fór hann þá og athugaði með lestar skipsins og sá að mikill sjór var kominn í þær. Vakti hann þá félaga sinn og settu þeir skipsbátinn á flot og réru til lands. Þegar þeir yfirgáfu Skallagrím var auðséð að skipið var komið af því að sökkva.

Skallagrímur sokkinn við Reykjavíkurhöfn. Björgunarskipið Geir til vinstri og togarinn Snorri goði RE 141 vinna við að ná togaranum upp.                                         (C) Mynd: Handels & Söfartsmuseets.dk.

Vaktmennirnir hröðuðu sér heim til Guðmundar Jónssonar skipstjóra á Skallagrími, vöktu hann og sögðu hvernig komið væri. Lét Guðmundur þegar kalla út menn og var síðan róið út til togarans. En þegar komið var á staðinn var Skallagrímur sokkinn. Svo grunnt var þar sem skipið sökk að siglur þess og reykháfur stóðu að mestu upp úr.
Björgunarskipið Geir lá á Reykjavíkurhöfn er þetta gerðist og var þegar haft samband við forráðamenn þess og óskað eftir því að reynt yrði að ná Skallagrími upp. Þegar var hafist handa. Kafari frá Geir var látinn kanna skipið og kom þá strax í ljós ástæðan fyrir því að það sökk. Þegar kolin voru sett í skipið hafði gleymst að loka fyrir eimþéttiventlana á hliðum skipsins, en þeir voru upp úr sjó áður en kolafarmurinn var settur um borð. Þétti kafari öll göt á skipinu og síðan hófust tilraunir til þess að dæla sjónum úr því. Lyftist stefni Skallagríms fljótt úr sjó, en afturhluti skipsins haggaðist hins vegar ekki.


Kveldúlfstogararnir Skallagrímur RE 145 og Snorri goði RE 141 á ytri höfninni í Reykjavík.
                                                                                                          Ljósm: Magnús Ólafsson.

Voru menn orðnir vondaufir um að Skallagrímur næðist á flot, er Jessen, sem þá var skólastjóri Vélskólans, benti Ungerskov, skipstjóra á Geir, á leið til þess að ná skipinu upp. Lagt var fleka við hlið Skallagríms og dælum björgunarskipsins komið fyrir á honum. Geir var síðan lagt við skutinn á Skallagrími og vírum smeygt gegnum skrúfugatið á honum og brugðið á vindur björgunarskipsins. Jafnframt var svo togarinn Snorri goði RE 141 fenginn til þess að draga Skallagrím upp á grynnra vatn.
Heppnaðist þessi aðgerð vel og náðist Skallagrímur von bráðar upp, en töluverðar skemmdir urðu á skipinu og þá sérstaklega á vélum þess. 


B.v. Skallagrímur RE 145 var smíðaður hjá Dundee Shipbuilders & Co Ltd í Dundee í Skotlandi árið 1905. 258 brl. gufuvél, stærð ókunn. Hét áður Gloria. h/f Kveldúlfur í Reykjavík kaupir togarann árið 1912 og gerir hann út til ársins 1920 að hann var seldur til Grimsby.           Ljósm: Magnús Ólafsson, mynd á póstkorti.

Heimild: Þrautgóðir á raunastund. lX. bindi bls. 34-35.


Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722493
Samtals gestir: 53631
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 17:24:35