12.08.2016 10:36

S. s. Camoens.

Camoens var smíðaður hjá Andrew Leslie & Co, Hebburn-on-Tyne í Newcastle á Englandi árið 1871 fyrir Lamport & Holt Line í Liverpool. Smíðanúmer 136. 1.093 brl. 170 ha. 2 þennslu gufuvél, smíðuð hjá R. Stephenson & Co í Newcastle. Selt árið 1879, R. D. Slimon í Leith í Skotlandi. Árið 1882 var Camoens í föstum siglingum á milli Granton í Skotlandi og Íslands. R.& D. Slimon voru jafnan nefndir "sauðakaupmennirnir" hér á landi því þeir keyptu og fluttu út til Skotlands sauðfé á fæti í miklum mæli. Eins sigldu margir Íslendingar sem fluttu til Vesturheims með því til Granton og Leith og fóru þaðan í skip til New York. Svo illa tókst til með siglingar á vegum Slimons árið 1884 að Camoens strandaði við Orkneyjar það ár. Árið áður hafði skipið siglt á ísjaka út af Hornströndum og skemmst töluvert og þá orðið að sigla upp í fjöru í Trékyllisvík á Ströndum. En saga skipsins eftir þetta er að það náðist út af strandstraðnum við Orkneyjar og virðist þá hafa verið eitthvað endurbyggt, því árið 1887 mældist það 1.265 brl. Skipið var selt 1888, Navigazione Generale Italiana Line í Palermó á Ítalíu, hét Oreto. Síðan selt árið 1914, G. Messina í Palermó, hét Logoduro. Skipið var rifið í brotajárn árið 1923.


Camoens í Trékyllisvík í júní árið 1883. Skipinu var siglt upp í fjöru meðan verið var að þétta göt eftir árekstur við ísjaka út af Hornströndum.                                       Ljósm: Sigfús Eymundsson.


Um borð í Camoens. Hópur Íslendinga á leið til Vesturheims.                (C) Þjóðminjasafn Íslands.


Camoens á strandstað við Orkneyjar sumarið 1884. (C) Orkney Image Library.

Camoens hlekktist á við Hornstrandir 23. júní. Var á leið norður fyrir land frá Rvík með 84 vesturfara, eptir 8-900 í viðbót á 6 höfnum nyrðra og eystra. Hitti fyrir hafís við Horn, komst gegnum hroða inn fyrir Reykjarfjörð, varð að snúa þar aptur, af því að þar var fyrir samföst spöng, en laskaðist af jökum fram undan Trjekyllisvík og hleypti þar á land. Höfðu höggvist tvö göt á síðuna sitt hvoru megin að framan. Náði landi í smárri möl fjórðung stundar eptir, sigið þá um 2 1 /2 fet. Fólk allt óskemmt á land. Ekki vonlaust um að bæta megi svo, að skipinu verði fleytt tómu til hafnar hingað til Rvíkur og kannske lengra. Skrifað hjeðan til Skotlands eptir öðru skipi í staðinn með franska herskipinu öðru í fyrra dag, en Coghill segir því ekki muni verða hætt norður fyrir land fyr en í ágústmánuði.

Ísafold. 30 júní 1883.


Flettingar í dag: 516
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723181
Samtals gestir: 53663
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 16:40:19