29.08.2016 09:59

Óðinn. LBQT / TFOA.

Strandvarnaskipið Óðinn var smíðaður í Kaupmannahöfn árið 1926 fyrir Ríkissjóð Íslands. 512 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. Óðinn var fyrsta varðskip sem smíðað var fyrir Íslendinga og kom hann til landsins 23 júní árið 1926 með viðkomu í Vestmannaeyjum. Óðinn var seldur til Svíþjóðar árið 1936.


Óðinn á Reykjavíkurhöfn.            Ljósmyndari óþekktur. Íslenzkar eimskipamyndir. Mynd í minni eigu.

Þegar á árinu 1925 þótti þingmönnum Landhelgissjóður Íslendinga orðinn svo stór að hann nægði til að smíða eigið varðskip. Einkum var talið nauðsynlegt að halda úti skipi úti fyrir Austurlandi því þar þótti ágangur botnvörpuskipa óvenju mikill. Átti þetta við um seinni hluta vetrarvertíðar þegar fiskur gekk upp á grynningar úti fyrir söndum Skaftafellssýslu.
Nýsmíði fyrsta skipsins, sem Landhelgissjóðurinn fjármagnaði, hvíldi á herðum yfirmanns landhelgisgæslunnar, Jóns Magnússonar forsætis og dómsmálaráðherra, en Jón hafði um árabil beitt sér fyrir aukinni landhelgisgæslu hér við land. Varðskipið var smíðað í Kaupmannahöfn árið 1925 og gaf jón fyrirmæli um að það yrði skírt Óðinn. Var Jóhann P Jónsson ráðinn skipherra þess. Óðinn kom til landsins 23 júní árið 1926.

                            Óðinn kominn
Í gærkvöldi, klukkan rúmlega 10, kom hið nýja strandvarnaskip okkar hingað. Hafði það komið til Vestmannaeyja kl. 11,15 í gærmorgun, stóð þar við til kl 1.40 e. h., en kom þó hingað ekki síðar en þetta, og má af því sjá. hve hraðskreitt það er. Það lagðist að austur-uppfyllingunni, og dreif þangað margt fólk þó áliðið væri, til þess að sjá skipið, sem svo margar góðar vonir eru bundnar við.  Þegar skipið var lagst að hafnarbakkanum fór fjármálaráðherra Jón Þorláksson út í skipið og bauð það í nafni íslensku þjóðarinnar hjartanlega velkomið. Mun Morgunblaðið flytja tölu hans á morgun. Óðinn er hið fríðasta skip á sjó að sjá, vel og vandlega útbúið. Hefir því verið lýst allítarlega  áður hjer í blaðinu. En enginn efi er á því, að mörgum verður reikað niður að höfninni næstu daga til þess að sjá þetta nýja strandvarnaskip Íslendinga. Meðal farþega á Óðni frá Vestmannaeyjum var Sigurður Sigurðsson lyfsali,formaður Björgunarfjelags Vestmannaeyinga. Er hann gestur ríkisstjórnarinnar og verður við afhendingu Þórs. sem mun fara fram 1. n. m.

Morgunblaðið. 24 júní 1926.

Flettingar í dag: 82
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 689028
Samtals gestir: 51455
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 04:00:08