10.09.2016 10:53

Straumey RE 81. TFMK.

Straumey RE 81 var smíðuð í Skotlandi árið 1943 og var upphaflega smíðuð og notuð sem tundurduflaslæðari og gegndi því hlutverki til stríðsloka. Hét þá Admiral Fisher. Eik og fura, 311 brl. 500 ha. Mirrlees díesel vél. Bræðurnir Bjarni og Hreinn Pálssynir frá Hrísey kaupa skipið árið 1947, fær nafnið Straumey EA 381. Straumey sigldi með vörur milli landa og með ströndum fram hér við land, auk þess að stunda síldveiðar. 5 apríl árið 1950 var skráður eigandi h/f Straumey í Reykjavík, sömu eigendur,en skipið hét þá Straumey RE 81. Selt 23 júlí 1955, Gísla Þorsteinssyni í Reykjavík. Skipið sökk við Vestmannaeyjar, um 4 sjómílur austur af Elliðaey, 17 október árið 1960. Áhöfnin, 7 menn, bjargaðist um borð í Sigurfara VE 138.


Straumey RE 81.                                                                                       (C) Snorri Snorrason.

         Straumey sökk við Eyjar í fyrrinótt.
                      Skipverjar björguðust í gúmmíbát.

Vélskipið Straumey RE 81 sökk 5 sjómílur austur af Vestmannaeyjum aðfaranótt sunnudags. Áhöfnin 7 manns komst í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað um borð í leitarskip um það bil tveimur tímum eftir að skipið sökk, Straumey var á leið til Austfjarða með sementsfarm. Um kl. hálf eitt um nóttina sendi skipstjórinn, Magnús Einarsson út neyðarkall og sagði að leki væri kominn að skipinu. 20 mínútum eftir að neyðarkallið var sent voru tveir bátar frá Vestmannaeyjum farnir af stað til að veita Straumey aðstoð, en þá barzt annað kall frá Straumey og sagði skipstjórinn að skipið væri að sökkva og áhöfnin myndi yfirgefa skipið og fara í gúmmíbjörgunarbátinn. Var nú þriðji vélbáturinn frá Eyjum sendur af stað til að aðstoða við leitina. Einnig var Akraborg, sem var á þeim slóðum kvödd til að taka þátt í leitinni að björgunarbátnum með mönnunum sjö. Klukkan þrjú um nóttina fannst svo báturinn og var mönnunum bjargað heilum á húfi. Fóru þeir með Dettifossi til Akraness í gær. Straumey var tréskip 318 brúttórúmlestir byggt í Englandi 1943 til hernaðarþarfa, sem eftirlitsskip. Þrjú skip af sömu gerð og Straumey voru keypt til Íslands eftir stríðið. Eigandi Straumeyjar er Gísli Þorsteinsson Reykjavík. Skipverjar á Straumey komu með Akraborginni í morgun til Reykjavíkur. Þeir eru, Magnús Einarsson skipstjóri, Sigursveinn Ingibergsson 1. stýrimaður, Pétur Pétursson 2. stýrimaður, Guðmann Sveinsson 1. vélstjóri, Alfreð Lárusson 2. vélstjóri. Hallgrímur Hallgrímsson matsveinn og Páll Gunnarsson háseti.

Vísir 17 október 1960.

Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 698575
Samtals gestir: 52768
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 03:19:43