21.09.2016 10:35

Narfi EA 671. TFJL.

Narfi EA 671 var smíðaður í Danmörku árið 1911. Eik 83 brl. 232 ha. Allen díesel vél (1941). Eigendur voru Guðmundur Jörundsson í Hrísey og Áki Jakobsson á Siglufirði frá 6 mars árið 1941. Seldur 31 janúar 1951, Sigurði Sigurjónssyni og Ágústi Matthíassyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Þráinn VE 7. Selt 2 september 1952, Guðvarði Vilmundarsyni í Vestmannaeyjum, hét Vaðgeir VE 7. Selt 5 maí 1955, Útnesi h/f í Reykjavík, skipið hét Vaðgeir RE 345. Selt 7 júní 1956, Jóni Magnússyni í Reykjavík. Skipið rak á land við Kirkjusand í ofsaveðri, 24 nóvember 1956 og eyðilagðist.


Narfi EA 671 á siglingu á Eyjafirði.                                                                   (C) Snorri Snorrason.

Narfi EA 671. Líkan.                                                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                Guðmundur Jörundsson
Það var enginn venjulegur maður sem haustið 1943 fluttist utan úr Hrísey í Eiðsvallagötu 5. Teinréttur í baki og léttur á fæti stilaði yfir Eiðsvöllinn og lét hermannabraggana sér í léttu rúmi liggja. Þessi nýi Akureyringur hét Guðmundur Jörundsson. Föðurafi hans var Hákarla-Jörundur og móðuramma hans, Kristín Antonsdóttir hafði séð frelsarann. Guðmundur fetaði í slóð þeirra beggja. Hann var fiskinn og skyggn. Akureyringar vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að taka þessum aðkomumanni. Tveimur árum áður hafði Guðmundur, í félagi við Áka Jakobsson, þáverandi bæjarstjóra á Siglufirði og seinna ráðherra, keypt gamla skonnortu, sett í hana vél og búið hana til veiða. Þegar útgerðarmenn á Akureyri heyrðu tíðindin áttu þeir ekki til orð að lýsa furðu sinni.
Þetta hlaut að vera unggæðingshátturinn í Guðmundi. Ekki enn orðinn þrítugur og svo stekkur hann í að kaupa þennan "drullupramma" og borga fyrir hann 105 þúsund krónur. Nei, við hefðum aldrei borgað meira en 3 þúsund krónur fyrir þetta flak af skipi, var samdóma álit hinna gætnu Akureyringa, sem hnýttu svo við "mikill asni er hann Guðmundur Jörundsson að kaupa þennan pramma"

Heimild: Saga Akureyrar 1940-1962. Jón Hjaltason 2009.

         Fjóra báta rak út úr höfninni í fyrrinótt

 Í fyrrinótt var hvassviðri um land allt og hér í Reykjavík komst veðurhæðin upp i 10 til 11 vindstig, þegar hvassast var. í rokinu slitnuðu fimm mannlausir vélbátar frá bryggjum hér í höfninni og rak fjóra á fjöru við Kirkjusand. Hvassviðri skall á um kvöldið og um miðnætti var komið suðvestan 33 hnúta rok hér í Reykjavík. Hvassast varð um þrjúleytið um nóttina, þá mældist rokið 50-60 hnútar eða 10-11 vindstig, að sögn Veðurstofunnar. Þegar leið á nóttina, færðist áttin meira til' vesturs og með morgninum gekk veðrið niður. Spáð er þó áframhaldandi vestanátt með allhvössum éljum. Bátarnir fimm, sem slitnuðu upp, voru bundnir við eina af bryggjunum í vesturhöfninni hjá verbúðunum á Grandagarði, og var enginn maður um borð í þeim. Einn bátinn Snæfell, rak á land við Norðurgarðinn og náðist hann aftur á flot í gærmorgun. Hina bátana fjóra rak út úr höfninni og upp í fjöru skammt frá Kirkjusandi. Bátarnir voru Erna RE 15, um 100 lestir að stærð, Vaðgeir RE 344 um 60 lestir, og tveir minni bátar, Freyja RE 99 og Unnur. Erna og Freyja lentu í fjörunni beint framundan þar sem var bátasmíðastöð Landssmiðjunnar, en Unnur undan Fúlutjörn. Fjaran er á þessum slóðum slétt og sendin og munu bátarnir því .óskemmdir. Vb. Vaðgeir lenti hinsvegar vestar í fjörunni og hefur brotnað þar talsvert á klettum.

Þjóðviljinn 25 nóvember 1956.


Flettingar í dag: 862
Gestir í dag: 369
Flettingar í gær: 1213
Gestir í gær: 485
Samtals flettingar: 2398627
Samtals gestir: 624727
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 13:48:05