26.09.2016 11:08

Helga RE 49. TFSN.

Helga RE 49 var smíðuð í Svíþjóð árið 1947. Eik 110 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Eigandi skipsins var Ríkissjóður Íslands frá 21 mars 1947. Skipið var selt 10 mars árið 1949, Ingimundi h/f í Reykjavík. Ný vél (1956) 330 ha. Alpha díesel vél. Skipið sökk út af Reykjanesi 25 nóvember árið 1960. Áhöfnin, 10 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát. Þeim var síðan bjargað um borð í þýska togarann Weser frá Bremerhaven sem kom skipbrotsmönnunum síðan til Reykjavíkur.


Helga RE 49.                                                                                        (C) Sigurgeir B Halldórsson.

       Helga sökk á 10 mín. út af Grindavík

Mikið afla og happaskip sökk í fyrrinótt út af Grindavík, en mannbjörg varð . Var það vélskipið Helga RE 49, eign Ármann s Friðrikssonar, sem var skipstjóri á því. Var hann á leiðinni til Reykjavíkur með skip sitt. Skipsmenn voru fyrir skömmu búnir að háfa í það 600-700 tunnum síldar, er það sökk á mjög skömmum tíma . Þýzkur togari bjargaði áhöfninni. Þetta gerðist kl. að verða 2 í fyrrinótt. Helga var í þriðja róðri sínum á yfirstandandi síldarvertíð. Hafði skipið landað hér í Reykjavík á fimmtudagsmorguninn dágóðum afla. Þann morgun var Ármann sjálfur niðri á bryggju við skip sitt og var bjartsýnn á að nú myndi síldveiðin fara að glæðast. Hann var búinn að kosta miklu til við ýmiskonar endurbætur og til viðhalds skipinu. Í fyrrinótt hafði verið mesti aflinn hingað til í róðri og síldin stærri og fallegri en í hinum fyrri róðrum. Voru skipsmenn á Helgu glaðir og reifir, er þeir höfðu komið aflanum niður í lest, en einnig var nokkuð af síld á þilfarinu. Helga sigldi af stað áleiðis til Reykjavíkur um klukkan 2 um nóttina. Voru allir skipsmenn í matsal nema matsveinninn, sem genginn var til hvílu. Allt í einu tók skipið að hallast á stjórnborða, og hinir þaulvönu sjómenn, voru fljótir að átta sig á því að skipið ætti í erfiðleikum með að rétta sig aftur. Skipsmenn voru allir í stakk og stígvélum, snöruðu sér strax fram á til þess að reyna að opna lensportin og rétta skipið með þvi, en það tókst ekki. Skipið hélt áfram að síga og að 3-4 mín. liðnum lá Helga alveg á hliðinni. Var sýnt að skipið myndi sökkva.
Matsveinninn var kominn upp fáklæddur úr koju. Það var kuldanepja og dálítil ylgja, en allsstaðar mátti sjá ljós á nærstöddum skipum. Þegar gúmmíbjörgunarbáturinn kom í sjóinn sprengdi hann af sér öll bönd og blés sig sjálfur upp. Skipsmenn ösluðu að björgunarbátnum. Tókst öllum 10 talsins að komast í hann ómeiddir, en matsveinninn féll í sjóinn við björgunarbátinn. Þegar skipbrotsmenn voru komnir í bátinn lónaði hann hægt frá hinu 13 ára gamla happaskipi, sem seig dýpra og dýpra. Vart munu hafa liðið nema 10 mínútur frá því skipið tók að hallast fyrst, unz það hvarf skipbrotsmönnum í djúpið út af Grindavík.
Það var kalt í björgunarbátnum, en verst var biðin eftir björgun fyrir hinn fáklædda matsvein. Það leið nokkuð á aðra klukkustund unz skipbrotsmenn sáu að skipsljós nálguðust þá í myrkrinu. Brátt var ljóst að hér var um að ræða skip, sem séð hafði neyðarljósin og komið var til að bjarga. Þetta var togarinn Weser frá Bremerhaven, sem renndi að báti skipbrotsmanna. Gekk björgunin greiðlega um borð í togarann, var skipbrotsmönnum frábærlega vel tekið, þeim færð hlý föt, gefin hressing og að þeim hlúð á hinn bestan hátt.
Sigldi síðan togarinn á fullri ferð til Reykjavíkur og var kominn á ytri höfnina klukkan rúmlega 7 í gærmorgun. Þar tók tollbátur við mönnunum. Á heimilum skipsmanna vissi enginn hvernig komið var fyrr en þeir komu heim snemma í gærmorgun. Var heimkoman tregablandin, er skipsmenn, sem margir hverjir hafa verið með "Armanni á Helgu", eins og skipstjórinn er í daglegu tali nefndur, skýrðu ástvinum sínum frá því að nú væri þetta happaskip ekki lengur í tölu hins íslenzka vélskipaflota.
Skipsmenn eru sammála um, að ástæðan til þess að skipið fórst með svo snöggum hætti, sé sú, að síldarfarmurinn hafi kastazt til. Eitthvað hafi bilað niðri í lestinni, þar sem. síldin var í stíum, sem orsakað hafi að hún seig öll yfir í stjórnborðshliðina.
Skipsmenn eru einnig sammála um að þeir myndu vart vera til frásagnar af því sem gerðist, ef gúmmíbjörgunarbáturinn hefði ekki verið á skipinu, og hann verið að öllu leyti í fullkomnasta lagi. Eru skipsmenn á Helgu, þriðja skipshöfnin héðan frá Rerkjavík a. m. k., sem bjargast hefur á þessu ári vegna þess að gúmmíbjörgunarbátar voru á skipunum. Skemmst er að minnast þess er Straumey fórst og 7 menn komust af í gúmmíbáti skipsins, er Drangajökli hvolfdi skyndilega í sumar björguðust 19 menn í gúmmíbát skipsins.
Ármann Friðriksson, skipstjóri, hefur fullan hug á að eignast annað skip við fyrsta tækifæri. Þeir, sem þekkja hann vel, segja að það geti heldur ekki öðru vísi farið en að hann verði bráðlega kominn aftur á 
sjóinn á eigin skipi. Með honum voru í þessari hinztu ferð skipsins: Indriði Sigurðsson, stýrimaður, Melabraut 16, Hermann Helgason, 1. vélstjóri, Sólheimum 32, Axel Sveinsson, 2. vélstjóri, Sólvallagötu 66, Vilhjálmur Oddsson, matsveinn, Knoxbúðum R-5, og hásetarnir eru þeir: Haraldur Magnússon, Hofsvallagötu 23, Jón Erlendsson, Seljavegi 3A, Theodór Kristjánsson, Blómvallagötu 13, Hörður Valdimarsson, Ljósheimum 8 Lúkas Kárason, Langagerði 86.
Vélskipið Helga var 110 lestir, byggt 1947. Var skipið vátryggt hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands.

Morgunblaðið 26 nóvember 1960.

Flettingar í dag: 908
Gestir í dag: 371
Flettingar í gær: 1213
Gestir í gær: 485
Samtals flettingar: 2398673
Samtals gestir: 624729
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 14:19:31