06.10.2016 11:27

E. s. Jörundur. LBMF.

Norðurlandsbáturinn Jörundur var smíðaður í Fairley í Skotlandi árið 1875. Eik 75 brl. 100 ha. Compound gufuvél. Eigandi var Gufubátsfélag Norðlendinga á Akureyri frá mars árið 1909. Var áður í eigu, Det Östsjællandske Dampskibselskab og hét þá Köge. Jörundur var í áætlunarferðum á hafnir við Norðurland en þegar mest var, sigldi hann með farþega og póst, allt frá Lambhúsvík á austanverðu Vatnsnesi í vestri og austur um til Seyðisfjarðar. Síðasta ár Jörundar í rekstri var árið 1915, en þá var skipið selt og félagið Gufubátsfélag Norðlendinga lagt niður. Ekki hef ég upplýsingar hvert Jörundur var seldur eða hvað um hann varð.

Norðurlandsbáturinn Jörundur.                                                                      Ljósmyndari óþekktur. 

      Gufubátsfélagið og Jörundur

Seint um vorið 1909 lagðist Jörundur að bryggju á Akureyri eftir að hafa verið veðurteftur í Færeyjum í nokkra daga. Bryggjulegan á Pollinum varð þó ekki löng því að fáeinum dögum síðar lagði hann af stað til Sauðárkróks í sína fyrstu áætlunarsiglingu. Við stýrið var Oddur Sigurðsson skipstjóri af Látraströnd en hann hafði áður staðið við stjórnvölinn á ýmsum fiskiskipum.
Ástæða þess að Oddur átti þess kost að gerast skipstjóri á strandferðaskipi fyrir norðan var vafalaust hagnaðarvon nokkurra frammámanna á Akureyri. Menn eins og Snorri Jónsson kaupmaður og timburmeistari á Oddeyri, Sigvaldi Þorsteinsson kaupmaður í Aðalstræti, Ragnar Ólafsson, sem var ört vaxandi athafnamaður í kaupstaðnum, Ottó Tulinius, kaupmaður og útgerðarmaður, Friðrik Kristjánsson, bankastjóri í Íslandsbanka, voru fljótir að eygja hagnaðarvon. Allir keyptu þeir hlutabréf í Gufubátsfélaginu fyrir 500 krónur hver. Enginn var stórtækari, en allnokkrir aðrir keyptu hlut fyrir eitt eða tvö hundruð krónur.
Hitt er víst að enginn þeirra hefði sett eyrisvirði í félagið ef ekki hefði komið til stuðningur stjórnvalda, bæði á Alþingi og heima í héraði. Stjórnvöld, og þar er bæjarstjórnin á Akureyri ekki undanskilin, voru hins vegar ekki á þeim buxunum að veita þessu verkefni forstöðu. Þannig fóru saman hagsmunir einstaklinganna sem settu á oddinn að ávaxta sitt pund, og hins opinbera.

Heimild: Saga Akureyrar. 1906-1918. Jón Hjaltason. 2000.
Flettingar í dag: 314
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722500
Samtals gestir: 53631
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 17:53:05