08.10.2016 13:30

Talisman EA 23. LBHQ.

Talisman EA 23 var smíðaður í Brixham á Englandi árið 1876. Eik og fura 46 brl. Eigandi frá 1 janúar árið 1880 var Hannah T. Tyler í Brixham. Frá 1 janúar árið 1883 var skipið í eigu Joseph Perrett í Brixham. 1 október árið 1910 var skipið í eigu Walter Moody Kelly í Fleetwood, hét Talisman FD 76. Skipið var selt 6 maí árið 1898, Jóni Jörgen Christian Havsteen á Akureyri, hélt sínu fyrra nafni en fékk árið 1903, skráningarnúmerið EA 23. Selt árið 1917, Ásgeiri Péturssyni útgerðar og kaupmanni á Akureyri. 40 ha. Hein vél var sett í skipið sama ár. Skipið strandaði 24 mars árið 1922 í Kleifavík milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. 8 menn af áhöfninni fórust, en 8 menn náðu landi. 4 af þeim urðu úti á leið til bæja en 4 björguðust til bæja í Önundarfirði.


Talisman á Pollinum á Akureyri árið 1898.                                      Throup / Þjóðminjasafn Íslands.


Talisman undir fullum seglum.                                                   Ljósmyndari óþekktur.  

Talisman FD 76 frá Fleetwood annar frá vinstri á myndinni.                                       (C) Alan Hirst.  

Talisman EA 23. Líkan.                                                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson. 

       Talisman strandar í Kleifavík

24. marz strandaði þilskipið Talisman frá Akureyri, sem var á leið hingað suður, utarlega við Súgandafjörð að vestanverðu, í svonefndri Kleifavík. Var þá afspyrnu norðanveður. 7 af skipshöfninni komust í land á öðru siglutrénu undir morgun. Skiftu þeir sér þegar og fóru að leita bæja. Fjórir þeirra fundust af mönnum frá Flateyri, er voru á leið til Súgandafjarðar. Voru þeir allir lifandi, en tveir mjög illa haldnir. Súgfirðingar leituðu einnig að hinum þremur, og fundust þeir nálægt Stað, tveir látnir en hinn þriðji með lífsmarki, og lést hann stuttu síðar. Skipið hafði allt liðast í sundur, og hafa 8 lík fundist af þeim 9 sem drukknuðu. Áður hafði skipið fengið mikið áfall á Húnaflóa, hafði káetukappinn losnað og skipið fyllst af sjó. Mennirnir sem fórust hétu: Mikael Guðmundsson skipstjórinn, Stefán Ásgrímsson vjelamaður, Stefán Jóhannsson, Ásgeir Sigurðsson og Benedikt Jónsson, allir af Akureyri. Af Siglufirði voru 2: Bjarni Emilsson og Gunnar Sigfússon. Úr Eyjafirði voru Tryggvi Kristjánsson frá Skeiði í Svarfaðardal, Þorsteinn Jónsson frá Grímsnesi, Sæmundur Friðriksson úr Glerárhverfi, Jóhannes Jóhannesson frá Kúgili og Sigurður Þorkelsson. Skipstjórinn, Mikael Guðmundsson, var ættaður úr Hrísey á Eyjafirði, en var nú búsettur á Akureyri, mun hafa verið maður tæplega fertugur. Hann byrjaði kornungur sjómensku og hafði stundað hana að mestu alla æfi. Var hann hinn duglegasti og bezti sjómaður, gætinn og aflasæll. Hann lætur eftir sig unga konu og 3 börn, öll mjög ung.

Ægir. 1 apríl 1922.

                            
Flettingar í dag: 198
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722384
Samtals gestir: 53629
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 12:40:03