09.10.2016 08:09

Kópur BA 138. LBKM.

Selveiðiskipið Kópur BA 138 var smíðaður í Rosendal (Knut Skaaluren ?) í Harðangursfirði í Noregi árið 1913. Eik og fura. 134 brl. 120 ha. Compound gufuvél. Hét áður Axla og var gert út á selveiðar í norðurhöfum. Eigandi var Hlutafélagið Kópur h/f á Tálknafirði ( Pétur A Ólafsson) frá febrúar árið 1916. Skipið sökk út af Krísuvík, 12 október árið 1917. Áhöfnin, 9 menn bjargaðist á land í skipsbátnum eftir 10 klukkustunda hrakninga.

 
Kópur BA 138 fastur í Grænlandsísnum.                        Ljósm: Skipverji af Kóp. Mynd í minni eigu.
 
Selveiðiskipið Kópur BA 138. Líkan Gríms Karlssonar.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 

      Selveiðiskipið Kópur og endalok þess

Árið 1916 stofnaði framtakssamur útgerðarmaður á Vestfjörðum, Pétur A Ólafsson til nýs þáttar í öflun sjávarafurða, selveiði í Norðurhöfum. Norðmenn höfðu stundað þessar veiðar í áratugi og gera enn. Íslendingar þekktu hinsvegar lítt til selveiða og höfðu ekki lagt út á þessa braut fyrr en með stofnun Hlutafélagsins Kóps á Tálknafirði og kaupum á samnefndu selveiðiskipi. Kópur var smíðaður í Rosendal í Harðangursfirði í Noregi árið 1913. Skipið, sem ætlað var til selveiða í ís, var sérstaklega sterkbyggt og vandað að öllum frágangi. Það var 98 ft. Langt, 134 lestir að stærð og hafði 120 ha. Gufuvél og gekk rúmar 7 mílur. Auk þess hafði Kópur seglabúnað, klíver, fokku, stórsegl og messansegl og gat því hæglega siglt milli landa þótt vélaraflið væri ekki fyrir hendi.
Ysta klæðning í byrðingi Kóps var 2 tommu eikaríshúð. Þá 3 tommu byrðingur. Bönd skipsins voru úr 9 tommu eik og innan á böndum 2 tommu klæðning. Að utan var skipið slegið járnum til hlífðar í ísnum. Hlutafélagið Kópur keypti skipið í Noregi í febrúar 1916 fyrir 140 þús. Krónur. Meðan undirbúningur að heimferð til Íslands stóð yfir, barst útgerðinni tilboð í Kóp. Norðmenn vildu kaupa hann aftur fyrir 170 þús, en Pétur A Ólafsson neitaði og til Íslands sigldi skipið svo um vorið. Áhöfn skipsins var í upphafi 12 manns þar af 10 Norðmenn og 2 Íslendingar, skipstjóri var í upphafi norskur, Abrahamsen að nafni. En íslendingarnir voru Andrés Guðmundsson frá Hvallátrum, verðandi skipstjóri á Kóp og Jón Guðmundsson háseti bróðir Andrésar.
Eftir fyrsta úthaldið í strætisísnum milli Íslands og Grænlands kom skipið með ævintýralega mikinn afla sem vakti mikla athygli í Noregi og víðar. Reyndu Norðmenn að fá skipið keypt enn og aftur, buðu vel, en það gekk ekki. Urðu þá miklir erfiðleikar að fá riffla og skot hjá Norðmönnum, svo að kaupa varð slíkt frá Kanada. En þeir rifflar sem voru bandarískir reyndust afar ílla, voru ekki nógu kraftmiklir. Þegar Kópur var síðast í ísnum lenti hann í ísskrúfu. Ísinn þéttist kringum og að skipinu, undir bóga og skut, og lyfti skipinu hátt upp. En að lokum greiddist úr ísnum og skipið seig niður. Þótti það ganga kraftaverki næst að skipið skyldi ekki molast niður, en það skemmdist mikið og tók það áhöfnina langan tíma að gera skipið fært til heimsiglingar. Skipshöfnin á Kóp, auk Andrésar og Jóns, bróður hans voru, Einar Magnússon stýrimaður, Skúli Einarsson vélstjóri, Ólafur Jóhannesson vélstjóri, Steindór Ingimundsson matsveinn, Jakob Gíslason háseti, Árni Dagbjartsson háseti og Valdimar Kristjánsson háseti.
Kópur fórst út af Selvogi, 12 október árið 1917 í vonskuveðri. Óstöðvandi leki kom öllum að óvörum og varð ekki við neitt ráðið með þeim afleiðingum að skipið sökk. Var talið að það væri afleiðing þess að skipið lenti í ísskrúfunni. Áhöfnin komst frá borði í stærri selabátinn sem var sexæringur, og náðu þeir landi eftir miklar mannraunir við Hvalbás, rétt austan við Selatanga í Krísuvík. Settu þeir bátinn undan sjó upp á hraunsstall sem tók við af fjörunni, báru grjót í og gengu tryggilega frá öllu. Þannig endaði selveiðisaga Íslendinga, var stutt, aðeins tveir vetur. Kópur var eina selveiðiskipið sem Íslendingar hafa átt.

Heimildir: Menn í sjávarháska. Sveinn Sæmundsson 1966.
                  Egill Ólafsson á Hnjóti í Örlygshöfn.
                  Jón Þ Þór. Saga sjávarútvegs á Íslandi.

 
Flettingar í dag: 307
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 196
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 722493
Samtals gestir: 53631
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 17:24:35