14.10.2016 10:12

2038. Haukafell SF 111. TFEV.

Haukafell SF 111 var smíðað hjá Carnave S.A. í Aveiro í Portúgal árið 1990 fyrir Haukafell h/f á Höfn í Hornafirði. Smíðanúmer 133. Stál. 150 brl. 993 ha. Stork vél, 730 Kw. Skipið var selt 13 janúar árið 1995, Brumark hvalfiske á eyjunni Fjörtoft í Romsdal í Noregi, hét þar Brodd M-80-H. Skipið var svo selt til Færeyja og var m.a. í eigu P/F Hvannadalur í Vági og bar nöfnin Nesborg l TG 697 og Nesborg l TG 7.

Haukafell SF 111.                                                        (C) Snorri Snorrason. Mynd á gömlu dagatali. 

          Haukafell SF selt til Noregs

HAUKAFELL SF 111 hefur nú verið selt til Noregs fyrir um 99 milljónir króna. Skipið var keypt nýtt hingað frá Portúgal og kostaði við komuna 171 milljón króna um mitt ár 1990. Auk söluverðs fá eigendur Haukafellsins 90 milljónir króna í úreldingarstyrk. Útgerðin heldur kvótanum eftir, um 755 þorskígildistonnum, sem er um 100 milljóna virði.

Haukafellið verður afhent nýjum eigendum Brumark hvalfiske í Fjortoft í Reykjavík þann 16. þessa mánaðar. Nýtt nafn Haukafellsins verrður Brodd og mun það stunda veiðar á ufsa við Noreg.
Haukafellið kom til landsins um mitt ár 1990 og hafa þeir Guðmundur Eiríksson og Axel Jónsson gert skipið út í félagi síðan og hefur Axel verið skipstjóri á skipinu. Haukafellið er 162 tonn að stærð og hefur verið gert út á humar og fiskitroll með þeim árangri sem knappur kvóti leyfir að sögn Axels.
Axel segir að óvíst sé hver framvindan verði. Kvótinn verði leigður fyrst í stað, ekki sé ákveðið hvort annað skip verði keypt. Eitt að því, sem auki óvissuna sé, að ekki sé leyfilegt að frysta humar um borð. "Með því gætum við tvöfaldað aflaverðmætið, en fáum það ekki. Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að sjávarútvegsráðherra geti ákveðið hvað megi gera í þeim efnum. Hann má sem sagt banna humarfrystingu úti á sjó en leyfa að frysta allar aðrar tegundir. Eins og staðan er í dag, hef ég mestan áhuga á því að kaupa mér hrefnuveiðibát," segir Axel Jónsson.
Þess má geta að útgerðarfélagi Axels, Guðmundur Eiríksson, hefur selt annan bát, Ásgeir Guðmundsson SF 112, til Raufarhafnar. Báturinn er búinn til línuveiða og er beitingarvél um borð. Hann er 214 tonn að stærð og um borð er lausfrystir, lóðrétt frystitæki og rækjuvinnslulína.

Morgunblaðið 7 janúar 1995.


Flettingar í dag: 356
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723021
Samtals gestir: 53659
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 10:44:39