17.10.2016 12:16

B. v. Egill rauði NK 104. TFKC.

Egill rauði NK 104 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Neskaupstaðar í Neskaupstað. Smíðanúmer 716. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var sjósettur 24 janúar árið 1947 og kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar 12 júlí sama ár. Í fyrstu veiðiferð skipsins var haldið á fjarlæg mið, þ.e. í Hvítahaf. Á árunum 1948-50, stunduðu togararnir talsvert veiðar á norðlægum slóðum, við Bjarnarey, í Barentshafi og í Hvítahafi eins og komið hefur fram hér að ofan. Oft á tíðum með misjöfnum árangri, eins og kemur fram í greininni hér að neðan í viðtali við Stefán Ágústsson, sem var loftskeytamaður á Agli á þessum árum. Á myndinni, sem tekin er á árinu 1948, er Egill rauði við innri bæjarbryggjuna á Norðfirði ásamt Draupni NK 21, sem smíðaður var í Svíþjóð árið 1942.

Egill rauði NK 104 við bryggju á Norðfirði ásamt Draupni NK 21.                     (C) Björn Björnsson. 

 Egill rauði NK að veiðum við Bjarnarey og í Barentshafi

í ágúst árið 1948 hélt Egill rauði NK, fyrsti togari Bæjarútgerðar Neskaupstaðar, til veiða í Barentshafi en snéri heim með öngulinn í rassinum. Um borð var Stefán Ágústsson loftskeytamaður. "Við vorum að veiðum þar sem nú er kallað "Smugan" en áttum í byrjunarörðugleikum með spilið og þegar það bilaði í miðjum túr neyddumst við til að snúa heim." Hann kveðst ekki vita til þess að skip sem stunduðu veiðar á þessum slóðum hafi orðið fyrir miklum óþægindum sakir þess. Að vísu rekur hann minni til þess að heimamenn í Honningsvág í Noregi hafi verið afundnir mjög þegar Egill hugðist taka þar kost og ekki afgreitt olíu nema gegn því skilyrði að togarinn héldi rakleiðis heim. Stefán telur þetta hafa stafað af því að togarinn var við veiðar á viðkvæmum slóðum, nánar tiltekið í "Smugunni".
Að sögn Stefáns var togaraflotinn í Barentshafi fjölþjóðlegur á þessum árum. "Við áttum góð samskipti við færeysku togarana á miðunum en náðum litlu sambandi við þá bresku og rússnesku. Bretar höfðu leyfi til að veiða mun nær rússneskri lögsögu en aðrir og því voru þeir á öðrum slóðum. Rússarnir voru hins vegar á kafí í kalda stríðinu og sýndu okkur bara fyrirlitningu þegar þeir sigldu framhjá. Ég gerði tilraun til að ná sambandi við þá á morsinu en þeir sögðu mér bara að þegja!" Árið 1950 veiddu íslensk skip yfir 6.500 tonn af þorski við Bjarnarey, Svalbarða og Norður Noreg. Á þessum tíma reis þorskveiði Íslendinga á þessum norðlægu slóðum hæst. Árið eftir komu tæp 2.400 tonn upp úr sjó og tæp 3.300 árið 1952.
Egill rauði fór í annan túr árið 1950 og þá var stefnan sett á Bjarnarey. Stefán segir að ógrynni skipa hafi stundað veiðar við eyna á þessum tíma, þar á meðal um tíu íslensk, sem öll fiskuðu í salt. "Ég man ekki til þess að gerðar hafi verið athugasemdir við þessar veiðar." Þrátt fyrir að miðin hafi reynst gjöful þetta árið voru aflabrögð Norðfjarðartogarans ekki sem skyldi. "Fiskurinn var afskaplega smár við Bjarnarey á þessum tíma. Þar að auki var hann fullur af þara og lyktaði svoleiðis að maður náði varla andanum." Stefán segir að þetta hafi leitt til þess að haldið var lengra austur á bóginn í átt að Novaya Zemlya.
Þótt lítið fískirí hafí verið leiddist skipverjum á Agli ekki þófið, þökk sé "Bjarnareyjarútgáfunni". Stefán loftskeytamaður notaði morstækið, sem var lykillinn að sambandi skipsins við umheiminn, til að þiggja upplýsingar frá starfsbróður sínum í Reykjavík um málefni líðandi stundar. Hann vélritaði síðan fréttirnar upp og leyfði skipverjum að njóta. "Þetta var eins og vatn í þurra jörð," segir Stefán og fullyrðir að ekki hafi vinsældir fréttablaðsins dvínað eftir að hann fór að lauma ýmsum staðbundnum fréttum inn á milli. Stefán telur framkomu Norðmanna vegna veiða íslendinga á þessum sömu slóðum í dag furðulega. "Ég skil svo sem ákaflega vel það viðhorf Norðmanna að vilja búa að þessu einir. Þeir eiga hins vegar engan lagalegan rétt á því.

Morgunblaðið 4 september 1994. /
viðtal við Stefán Ágústsson loftskeytamann á Agli rauða NK.


Flettingar í dag: 560
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 767
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 718381
Samtals gestir: 53387
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 15:10:54