26.10.2016 11:00

45. Esja ll. TFSA.

Strandferðaskipið Esja var smíðuð í Álaborg í Danmörku árið 1939 fyrir Skipaútgerð ríkisins. 1.347 brl. 2 x 1.250 ha. Atlas díesel vélar. Esja var í strandferðum við Ísland og flutti póst, vörur og farþega milli hafna. Í september árið 1940 fór Esja eina ferð til Petsamo í Finnlandi og sótti þangað 258 Íslendinga sem teppst höfðu á Norðurlöndum vegna heimstyrjaldarinnar. Eftir styrjaldarlok, á árunum 1945-46, fór Esja nokkrar ferðir til Kaupmannahafnar og Gautaborgar til að sækja þangað Íslendinga sem vildu komast heim. Yfir sumartímann árið 1948 var Esja í farþegaflutningum milli Reykjavíkur og Glasgow í Skotlandi. Esja var seld til Bahamaeyja 17 september 1969 og hét þar Lucaya.


Strandferðaskipið Esja á Norðfirði á styrjaldarárunum.                                  (C) Björn Björnsson.

          Esja komin heim frá Petsamo

Þann 15. október árið 1940 kom strandferðaskipið Esja til Reykjavíkur með 258 Íslendinga innan borðs sem höfðu flúið stríðsátökin í Evrópu. Sigurður Haraldsson var með um borð, þá ellefu ára gamall, en hann segir að ferðin hafi í raun verið spennandi fyrir svo ungan dreng.
Sigurður segir að mikið félagslíf hafi verið í skipinu og margt reynt til að stytta fólki stundir. Esja var hins vegar ekki stórt skip og langt í frá svefnpláss fyrir alla þá rúmu viku sem ferðin frá Petsamo til Íslands tók. Þótt leyfi hafi fengist fyrir ferðinni frá bæði Bretum og Þjóðverjum var auðvitað ótti í fólki enda herskip, kafbátar og tundurdufl á leiðinni.
Þór Whitehead sagnfræðingur er í Freiburg í Þýskalandi þar sem hann rannsakar stríðsárin en þar er eitt stærsta stríðsskjalasafn Þjóðverja. Hann hefur meðal annars komist að því að flugumaður Þjóðverja var með um borð sem þó slapp í gegnum nálarauga bresu leyniþjónustunnar. Þór mun segja sögu þessa manns í nýrri bók um stríðsárin þar sem hann fjallar ítarlega um Petsamo förina.
Í raun var ótrúlegt að ferðin skyldi farin því ýmiss atvik komu upp sem stefndu henni í voða. Þjóðverjar tóku skipið til hafnar í Þrándheimi þar sem því var haldið í nokkra daga áður en hópurinn var sóttur til Petsamo. Bretar höfðu áður krafist þess að fá að skoða skipið á Orkneyjum, en þeirri kröfu var haldið leyndri fyrir áhöfninni og kom það henni því mjög á óvart þegar sveigja þurfti af leið og fara suður til Bretlands. Þór segir að breska leyniþjónustan hafi verið of sein og skipið því farið frá Orkneyjum áður en hægt var að skoða farþegana um borð. Breskt herskip var því sent á eftir Esju en af einhverjum ástæðum fann það ekki íslenska skipið við Færeyjar.
Vel var fylgst með ferð Esju á sínum tíma og ítarlega fjallað um ferðina enda má segja að þarna hafi Íslendingar svo sannarlega fundið fyrir áhrifum stríðsins.

Rúv.is 15 október 2010

        ESJA STRANDAÐI Á GÆSAFJÖRUM

Strandferðaskipið Esja leysti landfestar á Akureyri seint að kveldi sl. laugardags og ætlaði til Siglufjarðar. Veður var stillt, fjörðurinn bárulaus og strendurnar beggja vegna fjarðarins hvítar af nýfallinni mjöll. Skipið setti á fulla ferð þegar komið var út fyrir Oddeyrartanga og hélt venjulega skipaleið norður fjörðinn, með Svalbarðseyrarvita á hægri hönd og öflugan Hjalteyrarvitann á vesturstöndinni að leiðarljósi og sáust báðir mjög vel. En skammt var stórra tíðinda að bíða, því að skipið breytti um stefnu og renndi upp í fjöru skammt norðan við Dagverðareyri, í lítilli vík, sem Ytrivík er kölluð og er rétt norðan við merki þau, er skilja lönd jarðanna Dagverðareyrar og Gæsa. Þetta gerðist um klukkan hálf eitt á sunnudagsnóttina. Á sunnudaginn var fjölmennt á slysstaðnum og furðaði alla á hinum gífurlegu mistökum á stjórn skipsins, sem hafði beina stefnu á bæinn Gæsa og sú stefna var óralangt frá réttri leið. Það lóaði ekki á steini og því var hinni 38 manna áhöfn og 10 farþegum engin hætta búin. Skipið hafði, við strandið, skafið botninn nokkurn spöl og var því ekki um harðan árekstur að ræða. Góð kastlengd var úr fjörunni fram í skipið. Hið nýja olíuflutningaskip SÍS, Stapafell, dró Esju út á flóðinu á mánudagsnóttina. Það verður að segjast eins og það er, að almennt mun litið svo á, að stjórnendur Esju hafi ekki verið alls gáðir, þegar þetta slys bar að höndum. Um sannindi þessa er blaðinu ekki kunnugt. En á með að ekki er upplýst önnur ástæða, eða öllu heldur, á meðan engin skynsamleg ástæða fyrir skipsstrandinu er fram borin, verður almenningsálitinu ekki breytt. Skipstjóri á Esju er Tryggvi Blöndal, en þriðji stýrimaður var á vakt þegar skipið strandaði, ásamt tveimur hásetum í brúnni. Botn skipsins er mikið laskaður, en það fór þó suður. Sjóréttur verður í Reykjavík.

Dagur 5 desember 1962.


Flettingar í dag: 643
Gestir í dag: 193
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956451
Samtals gestir: 495306
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 04:22:16