31.10.2016 09:56

1265. Vigri RE 71. TFED.

Vigri RE 71 var smíðaður hjá Stocznia Im Komuny Paryskiej í Gdynia í Póllandi árið 1972 fyrir Ögurvík h/f í Reykjavík. 726 brl. 2.169 ha. Mirrlees díesel vél, 1.596 Kw. Kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur, 24 október 1972. Skipið var lengt árið 1981 og mældist þá 860 brl. Selt 18 september 1992, Skagfirðingi h/f á Sauðárkróki, hét Skagfirðingur SK 4. Selt árið 2002, Torfnesi ehf á Ísafirði, skipið hét Haukur ÍS 847. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur og tekinn af Íslenskri skipaskrá,18 apríl árið 2007.


Vigri RE 71 í Reykjavíkurhöfn um árið 1990.                                                    (C) Gissur Snorrason.


Vigri RE 71 við komuna til landsins 24 október 1972.                              Ljósmyndari óþekktur.

   Vigri RE 71 kominn til Reykjavíkur

Vigri RE 71, fyrri af tveimur skuttogurum Ögurvíkur h.f. kom til Reykjavíkur í gær frá Póllandi, en þar var skipið smíðað. Fjöldi fólks var staddur á Ægisgarði í gær klukkan 14, er skipið lagðist að bryggju, en það hafði komið á ytri höfnina rétt fyrir hádegi. Kom skipið síðan inn í höfnina, þegar er tollskoðun var lokið. Hans Sigurjónsson, skipstjóri á Vigra sagði í viðtali við Mbl. við komuna í gær að skipið hefði reynzt ágætlega á heimsiglingu og hann hlakkaði til þess að fara í fyrstu veiðiferðina. Samningar um smíði skuttogara fyrir Ögurvík h.f. í Póllandi voru undirritaðir vorið 1970 eða í maímánuði. Togarinn er 801 brúttórúmlest samkvæmnt nýju mælingunni, en samkvæmt hinni gömlu yrði hann sjálfsagt um 1.000 til 1.100 rúmlestir. Kaupverð skipsins er um 130 milljónir króna. Síðari Ögurvikurtogarinn, Ögri er væntanlegur til landsins upp úr miðjum nóvember.
"Við vorum 5 sólarhringa og 6 klukkustundir á leiðinni heim," sagði Hans Sigurjónsson, skipstjóri, sem áður var skipstjóri á Vikingi frá Akranesi. Við hrepptum heldur leiðinlegt veður á heimleið og það sem ég hef reynt skipið í, þá verð ég að segja að það hefur reynzt í alla staði vel. Gerum við ráð fyrir að fara í fyrstu veiðiferðina öðru hvorum megin við helgina. Verðum við líklegast á heimamiðum fyrst í stað. Tólf skipverjar sóttu skipið til Póllands, en enn er ekki fastákveðið hve margir menn verða í áhöfn skipsins, en líkur benda til þess að þeir verði 24 eða 25. Næstu 6 mánuði verður um borð sérstakur "garantimeistari" og 2 aðrir verða með í fyrstu veiðiferð frá skipasmíðastöðinni. Hans sagðist vona að þessi togari gæfi meiri möguleika en gömlu síðutogararnir, en togarinn gekk 14 til 14,5 sjómílur á heimferð. Gísli Hermannsson einn af eigendum togarans sagði að óhemju mikið eftirlit hefði farið fram á meðan á smíði togarans stóð. "Við höfum haft marga góða menn í eftirlitinu, svo sem eins og Pétur Gunnarsson, Sigurjón Þórðarson og Hans Sigurjónsson. Samstarfið við Pólverjana hefur gengið vel, þótt ýmsir agnúar hafi að vísu oft komið upp, en þeir hafa jafnan verið leystir." Togkraftur skipsins er 25 tonn, ganghraði er allt að 14,9 sjómílur, en í reynd 13 til 14 mílur. Togkrafturinn er mjög góður sagði Gísli Hermannsson og gert er ráð fyrir að skipið taki um 300 tonn af afla í lest. "Eftir því sem afli er i dag, virðist lestin ekki of lítil," sagði Gísli Hermannsson.
Aðspurður um afkomumöguleika togarans, sagði Gísli Hermannsson: "Til þess að þetta skip beri sig, verða sjálfsagt að veiðast árlega um 8.000 tonn af ufsa og karfa. Þegar við undirrituðum samninga um smíði togarans fyrir hálfu þriðja ári, var reiknað með að við slyppum með 55 til 60 milljón króna aflaverðmæti, en síðan hefur ástandið hríðversnað, útgerðarkostnaður hefur aukizt um 45% og afli minnkað. Afkomumöguleikar fyrir skip sem þetta eru nú sáralitlir sem engir. Það er því dökkt, þarf raunar ekki mig til þess að segja frá því, þar eð opinber skýrsla ber ástandinu vitni." Engir samninigar eru um kaup og kjör togarasjómanna á skuttogurum og eru þeir skuttogarar sem fyrir eru í landinu reknir með bráðabirgðasamningum. Í gær hafði sáttasemjari ríkisins boðað til samningafundar vegna þessarar samningagerðar og var Gisli Hermannsson að fara i gær um klukkan 16 til þessa fundar. Sjö hluthafar eru í Ögurvík h.f. Þeir eru: Halldór Þorbjörnsson, Pétur Gunnarsson, Hans Sigurjónsson, Björn Þórhallsson, Sverrir Hermannsson, Þórður Hermannsson og Gisli Jón Hermannsson. Eins og áður sagði er Hans Sigurjónsson skipstjóri á Vigra. Fyrsti stýrimaður er Eðvald Eyjólfsson og annar stýrimaður Gunnar Hallgrímsson. Fyrsti vélstjóri er Sigurjón Þórðarson. Sigurjón hefur verið undanfarna 5 mánuði ytna vegna skipasmíðarinnar og Pétur Gunnarsson síðastliðna 7 mánuði.

Morgunblaðið 25 október 1972.

Flettingar í dag: 587
Gestir í dag: 190
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956395
Samtals gestir: 495303
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 03:51:25