11.11.2016 09:07

M. b. Hafalda NK 56.

Hafalda NK 56 var smíðuð í Korsör í Danmörku árið 1932. Eik, beiki og fura. 29 brl. 80 ha. June Munktell vél. Eigandi var Útgerðarfélagið Hafalda í Neskaupstað ( Ingvar Pálmason skipstjóri og fl.) frá 6 maí sama ár. 14 maí 1937 var Útvegsbanki Íslands skráður eigandi bátsins. Seldur 28 mars 1938, Hannesi Hanssyni í Vestmannaeyjum, hét Hafalda VE 7. Seldur 8 júní 1948, Guðna Sumarliðasyni og Sumarliða Sumarliðasyni í Ólafsvík, Jóni Jörundssyni Vaðstakksheiði, Snæfellssýslu, Soffaníasi Guðmundssyni og Lúðvík Kristjánssyni í Reykjavík, báturinn hét Hafalda SH 79. Seldur árið 1953, Víglundi Jónssyni í Ólafsvík, hét Orri SH. Slitnaði frá bryggju í ofsaveðri og rak upp í klappir við brimbrjótinn í Ólafsvík 30 janúar 1954. Einn maður var um borð, Þórður Halldórsson frá Dagverðará. Fróði SH 5 var mannaður til leitar og björguðu Fróðamenn Þórði, sem hafði klifrað upp í mastrið og bundið sig þar fastan. Báturinn eyðilagðist og brotnaði fljótlega í spón.


Hafalda NK 56 nýsmíðuð í Korsör í Danmörku 1932.                                (C) Svanbjörn Stefánsson.


Hafalda NK 56 bíður löndunar á Siglufirði.            Ljósmyndari óþekktur.

       Skipverja af m.b. Orra SH bjargað

30 janúar árið 1954 skall á suðaustan aftakaveður við landið sunnan og vestanvert. Allir bátar, sem verið höfðu í róðri, náðu þó heilir til hafnar, en í Ólafsvík varð það óhapp að vélbáturinn Orri SH , sem lá þar við bryggju, slitnaði frá. Einn maður, Þórður Halldórsson að nafni, var um borð í bátnum. M.b Orra rak upp í klappirnar vestan við brimbrjótinn í Ólafsvík og sökk þar samstundis. Stóð framsiglutréð eitt upp úr og gat þórður bundið sig við það.
Sökum mikils dimmviðris vissu menn í fyrstu ekki hvert bátinn hafði rekið, en vélbáturinn Fróði SH 5 var þegar mannaður til leitar. Stjórnuðu bræðurnir Tryggvi og Víglundur Jónssynir leitinni, en Víglundur átti Orra. Þegar þeir fundu bátinn og sáu manninn í siglutrénu, lögðu þeir Fróða þegar að honum og tókst að bjarga honum. Mátti ekkert út af bera til þess að ekki færi illa, þar sem fróði tók niðri er honum var siglt að Orra. Þórður Halldórsson þótti sýna mikið þrek í hrakningum þessum og jafnaði hann sig brátt eftir volkið.

Þrautgóðir á raunastund. V bindi.


.

Flettingar í dag: 7676
Gestir í dag: 243
Flettingar í gær: 723
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 1548463
Samtals gestir: 416216
Tölur uppfærðar: 22.9.2019 20:22:31