04.12.2016 12:35

Drífa SU 392. TFDL.

Drífa SU 392 var smíðuð í Kongshavn í Þórshöfn í Færeyjum árið 1917. 29 brl. 36 ha. Alpha vél. Fyrstu eigendur voru Magnús Hávarðsson, Jón Sveinsson og Sigurður Jónsson á Nesi í Norðfirði. Báturinn var seldur árið 1919, Konráð Hjálmarssyni kaupmanni og útgerðarmanni á Nesi. Seldur 1927-28, Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar. Var báturinn hafður í förum á milli fjarða eystra til að safna saman beinum til vinnslu í verksmiðjunni. Fyrir kom að Drífa væri send til hafna á Norðurlandi eftir hráefni. Árið 1929 fær Drífa skráningarnúmerið NK 13. Ný vél (1929-30) 40 ha. Wichmann vél. Seldur 20 september 1936, Magnúsi Pálssyni og Anton Lundberg í Neskaupstað. Drífa var endurbyggð og lengd í Neskaupstað árið 1938, mældist þá 38 brl. Einnig var sett í bátinn ný vél, 50 ha. Wichmann vél. Seldur 26 janúar 1940, Faxa h/f í Reykjavík, hét Drífa RE 42. Seldur 18 september 1950, Jóni Þórarinssyni í Reykjavík. Ný vél (1950) 132 ha. Kelvin vél. Báturinn strandaði við Hafnir á Reykjanesi 6 febrúar 1953. Slysavarnadeildin Eldey í Höfnum bjargaði áhöfninni, 6 mönnum á land en Drífa eyðilagðist á strandstað.

Drífa SU 392 nýsmíðuð í Kongshavn í Þórshöfn í Færeyjum 1917.             Ljósmyndari óþekktur. 


Drífa RE 42.                                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

      Vb. Drífa strandaði í nótt, mannbjörg varð

     Bátnum hvoldi á skerinu með flóðinu, rétt eftir að björgun var lokið

Vélbáturinn Drífa, RE-42, strandaði í nótt skammt fyrir sunnan Kalmanstjörn á Reykjanesi, en skipverjum var bjargað á land heilum á húfi. Samkvæmt upplýsingum, er Vísir fékk hjá skrifstofu SVFÍ,strandaði báturinn kl. 2.50 í nótt á skeri skammt sunnan Kalmanstjarnar. Veður var þá gott, vestanátt, en talsvert brim við ströndina. Það var vb. Svanur, RE 88 sem tilkynnti um strandið, en í fyrstu var óljóst, hvar það hefði orðið, og voru slysavarnasveitir víða á Reykjanesi til taks, en um 20 mínútum síðar fékkst örugg vitneskja um strandstaðinn, og brá slysavarnadeildin Eldey í Höfnum þegar við og kom á strandstaðinn undir stjórn formanns síns, Vilhjálms Magnússonar. Var þegar hafizt handa um björgun, og tókst hún mjög greiðlega, en skipverjum, 6 að tölu, var bjargað í land á björgunarstól. Sýndi deildin mikið snarræði við þetta tækifæri, Segja sjónarvottar, að ekki hafi mátt tæpara standa. Báturinn strandaði á fjöru, en brátt tók að falla að, og hvoldi honum á skerinu skömmu eftir að síðasti skipverjinn komst í land. V.b. Drífa, RE-42, er 38 brúttólestir að stærð, smíðaður í Kongshavn 1917, en endursmíðaður árið 1938. Eigandi hans er Jón Þórarinsson hér í bæ. Skipstjóri á Drífu er Kristinn Maríasson. Talið er sennilegt, að báturinn sé ónýtur með öllu, en ókunnugt er um orsakir strandsins.

Vísir. 6 febrúar 1953.

Flettingar í dag: 602
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720499
Samtals gestir: 53512
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 08:29:53