05.12.2016 10:13

Kolbeinn ungi EA 450. TFEI.

Kolbeinn ungi EA 450 var smíðaður í Harstad í Noregi árið 1920. Fura. 58 brl. 60 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Jón Jónsson á Akureyri (sennilega frá 1920-21). Skipið var selt 20 júní 1928, Sigurði Bjarnasyni á Akureyri. Ný vél (1930) 130 ha. Völund vél. Árið 1939 er dánarbú Sigurðar Bjarnasonar eigandi skipsins. Selt sama ár til Ísafjarðar, kaupandi óþekktur en skipið lá þar við bryggju í einhvern tíma. Skipið var selt 1 maí 1943, h/f Hólmsbergi í Keflavík (Stefán Franklín). Skipið var endurbyggt sama ár og ný vél, 136 ha. Ruston díesel vél sett í það hjá Dráttarbraut Akureyrar h/f, mældist þá 63 brl. Hét Hólmsberg GK 395 eftir endurbæturnar. Skipið brann og sökk 23 ágúst 1947 þegar það var á síldveiðum skammt frá Grímsey. Áhöfnin komst í nótabátanna og var bjargað þaðan um borð í Sjöstjörnuna VE 92 frá Vestmannaeyjum.

Kolbeinn ungi EA 450 á leið inn Siglufjörð með síldarfarm.                 (C) Minjasafnið á Akureyri. 


Hólmsberg GK 395 eftir endurbygginguna á Akureyri 1943.                   (C) Minjasafnið á Akureyri.

                        "Eyjafjarðarlík"

í Skutli 10. júní s. l. var grein um Sjómannadaginn. Hún byrjar svo; Hátíðáhöld sjómanna settu alveg sinn svip á bæinn á sunnudaginn var. Snemma morguns var hvert skip í höfninni fánum skreytt, nema hið brezka herskip Leda, sem lá hér við bryggju, og svo Kolbeinn ungi, Eyjafjarðarlík, sem Eyfirðingum tókst að selja hingað til greftrunar.

Skutull. 24 júní 1939.

        Hólmsberg brann og sökk við Grímsey                       5 eða 6 síldveiðiskip hafa farist í sumar

Enn eitt síldveiðiskipið fórst við Norðurland í gærmorgun. Það var m.s. Hólmsberg frá Keflavík. Eldur kom upp í skipinu og mátti ekki tæpara standa, en að áhöfn skipsins yrði bjargað yfir í annað skip. Þetta gerðist um kl. 8,30 í gærmorgun norður við Grímsey, Þar var Hólmsberg að veiðum, ásamt fleiri skipum er eldurinn braust út.
Eldurinn kom upp í vjelarúmi og varð þar allt því nær alelda í einni svipan Einn maður mun hafa verið þar niðri á vakt og komst hann upp án þess að hann sakaði. Skipshöfnin gerði nú tilraun til þess að kæfa eldinn í vjelarúmi skipsins, en hann magnaðist svo á skömmum tíma, að ekki var við neitt ráðið og varð skipshöfnin að yfirgefa skipið í snatri. Báðum nótabátunum var bjargað, svo og nótinni, en skipverjar munu hafa misst fatnað og annað sem þeim tilheyrði.
Það var m.s. Sjöstjarnan frá Vestmannaeyjum, er kom mönnunum til hjálpar. Munu þeir verða fluttir til Siglufjarðar og var búist við þeim í gærkvöldi, Engin síld mun hafa verið í skipinu er þetta gerðist.
Hólmsberg var eign hlutafjelagsins Hólmberg í Keflavík, Það var rúmar 62 lestir brúttó, Byggt 1920, en endurbyggt 1943, Um nokkurn tíma var það í ferðum milli Akraness og Reykjavíkur.

Morgunblaðið. 24 ágúst 1947.

Flettingar í dag: 690
Gestir í dag: 141
Flettingar í gær: 988
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1540754
Samtals gestir: 415969
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 21:46:49