12.12.2016 11:55

B. v. Apríl RE 151. LCHN.

Apríl RE 151 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920. 339 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var Fiskveiðahlutafélagið Ísland í Reykjavík frá 21 apríl árið 1920. Skipið fórst á leið til Íslands frá Englandi 1 desember 1930. Togarinn var þá að koma úr söluferð og átti eftir um 80 sjómílna siglingu til Vestmannaeyja þegar síðast heyrðist til hans. Áhöfnin, 18 manns, þar af 2 farþegar fórust með skipinu.


Apríl RE 151.                                                                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Apríl RE 151 á toginu.                                                Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

                  Íslandsfélagið 

         Samið um smíði tveggja togara í Beverley


Íslandsfélagið ákvað að láta smíða tvo togara í Bretlandi, og fóru þeir Þorsteinn Þorsteinsson og Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) til að semja um smíði skipanna. Þeir snéru sér fyrst til skipasmíðastöðvar þeirrar í Southbank, sem áður hafði smíðað skip fyrir Íslandsfélagið. En hún hafði þá tekið að sér smíði svo margra stórskipa, að hún gat ekki annað meiru fyrst um sinn.
Þeir Hjalti og Þorsteinn fóru svo til Beverley og sömdu þar um smíði skipanna. Ekki voru bæði skipin smíðuð í einu. Öðru var lokið á árinu 1919, og var það skírt Apríl. Hitt var smíðað 1920, og var það nefnt Maí. Skipasmíði var afardýrt á þessum árum, því nú var einmitt sem óðast verið að koma upp skipum í stað þeirra sem sökkt hafði verið í stríðinu. Svo var og það, að mjög var óséð um allt verðlag og öll viðskipti. Hjalti beitti sér því ákveðið á móti því, að Íslandsfélagið réðist í skipakaup að svo komnu máli, en hann varð að algerum minnihluta í félaginu.

Saga Eldeyjar-Hjalta ll. Guðmundur G Hagalín. 1974.

           Togarinn Apríl talinn af

                                    Átján menn farast

Enn blakta sorgarfánar yfir sjómannabænum Reykjavík. Enn eigum við á bak að sjá hóp vaskra mannvænlegra manna, er samferða hafa orðið einum togaranum í öldudjúp úthafsins. Ættingjar og vinir, ekkjur og börn gráta þá, sem eigi komu heim. Þannig er saga sjómannabæjarins. saga um baráttu og strit, saga um lífsháska og slys, sjóslysin stórfeldu. Fjórir togarar íslenska flotans hafa farist með áhöfn á 6 árum. Tvennt rennur upp fyrir bæjarbúum þegar slík stórslys, sem þessi bera að höndum. Er gert allt sem gert verður til að öryggi sjómannanna sjé sem mest?
Við verðum að vona að svo sjé, að skipaskoðunin og eftirlitið sjé örugt og tryggt, En fyrst svo er, þá er það líka segin saga, að samskonar sorgaratburðir sem hjer endurtakast. Hve oft? Hvenær næst? Það veit enginn.  Vonandi verður nú stundarbið uns næsta stórslys ber að höndum.
Reykvíkingar hafa orð á sjer fyrir hjálpfýsi. Mörg heimili standa nú á flæðiskeri. Jólin fara í hönd. Hjer þarf skjóta hjálp og mikla. Reykvíkingar! Minnist þeirra, sem mist hafa ástvini sína. Rjettið hjálparhönd. Munið, að enginn veit hver verður hjálparþurfi næst.
Vikuna sem leið, fjaraði út öll von um það, að togarinn ,.Aprí!" væri ofan sjávar. þá daga lifði fjöldi manns í þessum bæ milli vonar og ótta, lifði angistar og kvíðafulla daga, er enduðu í sárum söknuði, þegar síðasti vonarneistinn dó út um það að, að nokkrir þeirra átján, sem voru með Apríl væri á lífi. Þann 1. desember síðastliðinn hefir togarinn "Apríl" farist fyrir sunnan land. Með skipinu voru 18 manns, 16 manna skipshöfn og 2 farþegar. Skipið var á leið hingað frá Englandi og vissu menn það seinast til þess að það var komið upp undir Ísland, átti um 80 sjómílur ófarnar til Vestmannaeyja að kvöldi sunnudags 30. nóvember. Þá brast á veðrið mikla, og í því hefir skipið sennilega farist, sokkið niður þar sem það var komið.
Þeir sem fórust með togaranum voru;
Jón Sigurðsson, skipstjóri. Hann átti heima á Holtsgötu 13 hjá foreldrum sínum, 29 ára að aldri, fæddur 13. júlí 1901 á Bug í Fróðárhreppi. Hann var ókvæntur, en trúlofaður Siglin Grímsdóttur, Sigurðssonar frá Nikhól í Mýrdal. Hann tók við skipstjórn "Apríls" í ágústmánuði síðastliðnum.
Jörgen Pjetur Hafstein. Fæddur 15. nóvember 1905, að Óspakseyri. Foreldrar Marino sýslumaður Hafstein og Þórunn Eyjólfsdóttir; bæði á lífi. 5 systur og 2 bræður. Tók stúdentspróf vorið 1925 og embættispróf í lögum vorið 1929, með 1. einkunn. Fékk utanfararstyrk úr Sáttmálasjóði til framhaldsnáms vorið 1930. Fór utan í maí s.l. og hafði lokið námi í Lundúnum. Kosinn í bæjarstjórn Reykjavíkur í janúar 1930. Hann var farþegi með skipinu.
Ólafur Helgi Guðmundsson, 1. stýrimaður. Hann var sonur Guð- mundar Guðnasonar skipstjóra, Bergstaðastræti 26 og konu hans Mattínu Helgadóttur. Hann var fæddur 3. ágúst 1903, ókvæntur og átti heima hjá foreldrum sínum.
Magnús Brynjólfsson, 2. stýrimaður, átti heima á Óðinsgötu 6. Hann var elsti maður á skipinu, 55 ára að aldri, sonur Brynjólfs Bjarnasonar í Engey. Magnús lætur eftir sig konu, Helgu Stefánsdóttur og tvö börn. Einar Eiríksson, 1. vjelstjóri, átti keima á Bragagötu 21. Hann var fæddur 10. nóv. 1898 í Selkoti í Reykjavík. Hann lætur eftir sig konu, Svanhildi Sigurðardóttur, 3 böm og eitt fósturbarn.
Jón Ó. Jónsson, 2. vjelstjóri. átti heima á Njálsgötu 23. Hann var fæddur 7. maí 1892 að Hróaldstöðum í Vopnafirði. Hann lætur eftir sig konu, Margrjeti Ketilbjarnardóttur og 4 börn öll ung. Margrjet er systir Eggerts Ketilbjarnarsonar sem einnig fórst með Apríl.
Friðrik Theodór Theodórsson, loftskeytamaður, átti heima á Marargötu 7, hjá foreldrum sínum Ólafi Theodórs snikkara og konu hans Sigríði Bergþórsdóttur, sem er systir Hafsteins Bergþórssonar skipstjóra. Theodór var 27 ára og ókvæntur. Frá honum komu seinustu kveðjurnar frá "Apríl" er hann hafði loftskeytasambandi við "Otur " á sunnudadagskvöldið 30. nóvember.
Þórður Guðjónsson, bryti, til heimilis á  Lokastíg 28 A. Hann var fæddur 12. desember 1903. Faðir hans heitir Guðjón Egilsson og á heima á Bjargarstíg 3, og eru þar tvær systur Þórðar. Hann var ókvæntur. Mun hafa verið ólögskráður á skipið.
Einar Sigurbergur Hannesson, aðstoðarmatsveinn, var fæddur 17. september 1913. Hann átti heima hjá foreldrum sínum, Hannesi Stígssyni og Olafíu Einarsdóttur á Laugaveg 11. Þau hjón eru Skaftfellingar og eiga nú 6 syni á lífi, flesta yngri en Einar.
Kjartan Reynir Pjetursson, háseti, átti heima á Ásvallagötu 13. Hann var fæddur 11. janúar 1907 í Reykjavík. Foreldrar hans eru Pjetur Sigurðsson og Gróa Jónsdóttir og eiga þau hjón heima á Vesturgötu 51. Kjartan lætur eftir sig konu, Valgerði Kr. Sigurgeirsdóttur og barn á fyrsta ári.  
Pjetur Ásbjörnsson, háseti, var eini maður á skipinu, sem ekki átti lögheimili í Reykjavík. Hann átti heima í Ólafsvík. var 26 ára að aldri, Iætur eftir sig konu, Ingibjörgu Olafsdóttur frá Sandi og þrjú börn kornung. Foreldrar hans eru Ásbjörn Eggertsson og Ragnheiður Eyjólfsdóttir, bæði um sjötugt.
Einar Axel Guðmundsson, háseti. Hann var fæddur 25. júlí 1910 í Reykjavík og átti heima hjá foreldrum sínum á Framnesvegi 1 A. var ókvæntur.
Páll Kristjánsson, háseti, var fæddur 4. október 1906 að Fossi í Staðarsveit í Snæfellsnessýslu. hann var ókvæntur og átti heima á Frakkastíg 24.
Sigurgísli Jónsson, háseti, var fæddur 11. desember 1892 að Skagnesi í Mýrdal. Hann átti heima á Ljósvallagötu 10 og lætur eftir sig konu, Hólmfríði Jónsdóttur, 4 börn og fósturbarn, hvert öðru yngra, hið elsta. á 12. ári og hið yngsta á 1. ári.
Kristján Jónsson kyndari, var fæddur 20. apríl 1887 á Ísafirði. Átti hann nú heima á Bergstaðastræti 1 hjer í bænum, var ókvæntur, en hafði fyrir þungu heimili að sjá.
Magnús Andrjesson, háseti, var fæddur 18. apríl 1896 á Dagverðarnesi á Skarðsströnd. Átti nú heima á Marargötu 3, hjer í bænum, hann var ókvæntur.
Eggert Snorri Ketilbjarnarson, kyndari, var fæddur 5. september 1909 að Sauðhól í Dalasýslu. Hann var ókvæntur og átti nú heima hjá móður sinni, Halldóru Snorradóttur, á Kárastíg 8. Misti hún þarna í sjóinn samtímis efnilegan son sinn og tengdason, Jón O. Jónsson, 2. vjelstjóra.
Ragnar Júlíus Kristjánsson, fæddur 16. ágúst 1905, átti heima á Holtsgötu 10. Faðir hans er Kristján Sæmundsson, salernahreinsari. Ragnar var kyndari á ,,GuIItoppi", en varð eftir af skipinu í Englandi í seinustu ferð þess og tók sjer þess vegna far með "Apríl".

Morgunblaðið. 13 desember 1930.

Flettingar í dag: 397
Gestir í dag: 94
Flettingar í gær: 841
Gestir í gær: 220
Samtals flettingar: 1536829
Samtals gestir: 415056
Tölur uppfærðar: 17.9.2019 08:42:47