21.12.2016 00:36

2413. Guðrún Gísladóttir KE 15. TFGL.

Guðrún Gísladóttir KE 15 var smíðuð hjá Huangpu Shipyard í Guangzhou í Suður Kína árið 2001 fyrir útgerðarfélagið Festi h/f í Grindavík. 1.301 brl. 7.200 ha. Bergen diesel vél, 5.290 Kw. Skipið strandaði á skeri í Nappstraumensundi við Lófoten í Norður Noregi, 18 júní 2002 og sökk þar nokkru síðar. Guðrún var á leið til löndunar í Leksnes með um 900 tonn af frystum síldarflökum. Áhöfnin, 20 menn komust í björgunarbáta og var bjargað þaðan um borð í Norskt björgunarskip. Margar tilraunir voru gerðar til þess að ná skipinu af hafsbotni, en þær báru engann árangur.


Guðrún Gísladóttir KE 15.                                                                             (C) Sverrir Jónsson.


Guðrún Gísladóttir KE 15 að sökkva.                     Ljósmyndari óþekktur.


Guðrún Gísladóttir KE 15. Líkan.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8 febrúar 2014.

    Guðrún Gísladóttir KE 15 sökk við           strendur Noregs  

Eitt stærsta skip íslenska fiskiflotans, Guðrún Gísladóttir KE 15, sökk skammt frá Lofoten í Noregi aðfaranótt miðvikudags eftir að hafa strandað á skeri morguninn á undan. Við sjópróf kom fram að skerið sem togarinn strandaði á var ekki merkt inn á sjókort. Skipið var á leið til löndunar í Leknesi á Lofoten með tæplega 900 tonn af frystri síld og átti um þrjár sjómílur ófarnar þegar það steytti á skeri með fyrrgreindum afleiðingum. Tuttugu manna áhöfn togarans sakaði ekki.
Gerð var tilraun til að koma skipinu á flot á þriðjudagskvöld sem ekki tókst og sökk það í morgunsárið næsta dag.Fyrir utan síldina hafði togarinn um 300 tonn af hráolíu og 2 tonn af smurolíu innanborðs og óttast norsk yfirvöld mjög mengun af þessum sökum. Hefur útgerðin lofað að hreinsa olíu úr flakinu sem fyrst.

Morgunblaðið. 23 júní 2002. 


 Héldu að skipinu myndi hvolfa af skerinu

Áhöfn Guðrúnar Gísladóttur KE 15 átti erfitt með að trúa þeim tíðindum að skipið hafi sokkið á strandstað tæpum sólarhring eftir að skipið sigldi á óþekkt sker í Lófóteyjaklasanum þriðjudaginn 18. júní sl. Þegar skipið sigldi á skerið kom rétt rúmlega eins metra löng rifa á skrokk þess og fljótlega kom á það um 45 gráðu halli. Neyðaráætlun var þegar sett í gang og skipið hafði verið yfirgefið eftir 7-8 mínútur. Kristinn Pálsson var kokkurinn um borð og hafði fylgt skipinu allt frá því Guðrún Gísladóttir KE 15 var sjósett í Kína fyrir tæpu ári. Hilmar Bragi Bárðarson blaðamaður ræddi við Kristinn í vikunni.
Guðrún Gísladóttir KE 15 var dýrasta og fullkomnasta fiskiskip íslenska fiskiskipaflotans. Skipið var smíðað til veiða og vinnslu á uppsjávarfiski og frystingar um borð. Í skipinu var 7200 hestafla aðalvél. Guðrún Gísladóttir KE er hönnuð af Skipatækni ehf. Skipið var rétt rúmlega 70 metra langt skip og 14 metra breitt. Fjórar Baader vélar voru á millidekki. Þá var búnaður til að slógdraga og hausa, sannkallaðar fjölnota vélar eins og margt annað í skipinu. Einnig voru tveir sjálfvirkir frystar sem gátu fryst allt að 180 tonnum á sólarhring. Frystilestar voru 1300 rúmmetrar og fjórir RSW kælitankar samtals 800 rúmmetrar að ógleymdri ísvél sem getur útbúið 30 tonn á sólarhring. Vinnslulína skipsins var sú fullkomnasta sem völ var á og í raun einsdæmi. Sjálfvirknin var mikil og eingöngu fjórir menn unnu við framleiðslulínuna sem var stjórnað af iðntölvu. Guðrún Gísladóttir KE var tryggð fyrir rúma tvo milljarða íslenskra króna og skipsskaðinn er stærsta einstaka tjón sem íslenskt tryggingafélag þarf að bæta. Þá eru ekki taldar með tryggingar á veiðarfærum og afla en skipið var á leið í land með síldarflök að verðmæti um 100 milljónir króna.
Guðrún Gísladóttir KE var á landleið til Leknes í Norður Noregi með 870 tonn af frystum síldarflökum þennan örlagaríka morgun um miðjan júní. Kristinn segir í samtali við Víkurfréttir að skipið var að vera komið í gegnum sund syðst í Lófóteyjaklasanum þegar það steytti á óþekktu skeri og strandar undan bænum Ballstad. Guðrún Gísladóttir var að koma af síldveiðum úr lögsögu Jan Mayen með 870 tonn af frystum síldarflökum. Vinnslu afurða um borð hafði lokið kl. 03 um nóttina og mannskapurinn var að þrífa skipið þegar ósköpin gengu yfir.
Hvernig gerðist þetta?
Þetta var ekki mikið högg, eins og keyrt væri á vegg. Skipið vípraði hins vegar stafnana á milli og tilfinningin var óþægileg. Mönnum var strax ljóst hvað væri að gerast og neyðaráætlun var þegar sett í gang um borð í skipinu".
Kristinn sagði að skipið þegar hafa hallað mikið. Þeir sem voru í koju vöknuðu við lætin þegar skipið strandaði og mannskapurinn var kominn upp í brú með það sama. Skipið hallaði um 45 gráður á skerinu að sögn Kristins var mannskapurinn mjög rólegur um borð.
Við óttuðumst þó strax að skipinu gæti hvolft af skerinu miðað við hvað það hallaði mikið. Vegna þess var allt kapp lagt á að komast sem fyrst frá borði. Við vorum tuttugu um borð og fórum allir í flotgalla í brúnni. Fimmtán fóru í sjóinn bakborðsmegin og fimm á stjórnborða. Áður höfðu björgunarbátar verið sjósettir og allir komust mjög fljótt í bátana og enginn blotnaði alvarlega".
Kristinn sagði skipið hafa staðið á skerinu að framan og þar hafi komið rúmlega metra löng rifa á skipið og sjór flætt í astikrými og í rými hjá frystivélum fremst í skipinu. Engin sjór hafi verið aftan til í skipinu, og þar flaut skipið. Þannig voru 11,5 faðmar niður á botn við skut skipsins.
Áhöfn Guðrúnar Gísladóttur var búin að yfirgefa skipið á 7-8 mínútum. Strandið er tilkynnt til norsku strandgæzlunnar kl. 08:45 að íslenskum tíma og greint er frá því í útvarpi á Íslandi í fréttatíma kl. 09:00. Það eru áhöfn Guðrúnar Gísladóttur KE mjög ósátt við. "Sérstaklega í ljósti þess að þá erum við ennþá í björgunarbátum á sjónum við skipið og okkur var ekki bjargað fyrr en hálftíma síðar en norskt björgunarskip er að bjarga okkur á tímabilinu 09:30 til 10:00 að íslenskum tíma", segir Kristinn og segist vita til þess að nokkur dæmi séu um það að eiginkonur skipverja hafi fyrst heyrt af slysinu í útvarpi og í hafi þá ekki vitað um afdrif sinna manna.
Guðrún Gísladóttir KE var að koma úr sinni sjöundu veiðiferð þegar ósköpin gengu yfir. Eins og áður hefur komið fram hallaði skipið strax mikið og óttuðust menn í fyrstu að skipinu myndi hvolfa af skerinu. Þegar menn könnuðu aðsæður um borð í skipinu á kvöldflóðinu var enginn sjór kominn upp á millidekk þess og menn voru því vongóðir um að það tækist að bjarga því. "Skipið rétti sig alveg á flóðinu um kvöldið og menn voru mjög vongóðir. Þá voru hins vegar ekki til staðar dráttarskip sem gátu ráðið við Guðrúnu Gísladóttur KE. Skipið var um 3000 tonn og á staðinn var kominn dráttarbátur með 17 tonna dráttargetu.
Það var síðan tveimur tímum fyrir morgunflóðið sem skipið fór að sökkva að aftan og Guðrún Gísladóttir KE var sokkin á tíu mínútum," sagði Kristinn þegar hann lýsti atburðarásinni fyrir blaðamanni. Kristinn segir það ekki vitað hvers vegna skipið sökk, miðað við skemmdirnar á skrokk skipsins.
Það að skipið hafi sokkið var mikið áfall fyrir mannskapinn í landi, enda menn fullir bjartsýni á að björgun tækist vel. Sjórinn á slysstað var líka sem heiðartjörn og það var ekki í hugum manna að svona færi.
Áhöfnin tapaði miklu af persónulegum munum við skipsskaðann. Menn fóru frá borði í gallabuxum og bol og skildu allt annað eftir í vistarverum skipsins. Þannig eiga áhafnarmeðlimir sjálfir engar myndir frá vettvangi slyssins aðrar en þær sem birst hafa í norskum blöðum. Allar myndavélar áhafnarmeðlima voru um borð í hinu strandaða skipi. Þá voru einnig fjölmargir aðrir persónulegir munir um borð, enda algengt að sjómenn hafi með sér persónulega muni þegar haldið er í langan tíma frá heimahögum.
Kristinn sagði norsku björgunarskipin vel búin og aðstaða um borð verið til fyrirmyndar. Þannig hafi skipbrotsmenn fengið inniskó og þurrar peysur um borð og minnsta mál að henda blautum fötum í þvottavélar og þurrkara. Svo þegar komið var í land hafi verið látið opna verslanir fyrir þá þannig að hægt væri að kaupa skó og annan fatnað.
Mikill meirihluti áhafnar Guðrúnar Gísladóttur KE hefur farið á námskeið í Slysavarnaskóla Sjómanna og sagði Kristinn þá reynslu hafa komið sér vel þegar yfirgefa þurfti skipið. Mönnum var brugðið við þær aðstæður sem menn stóðu frammi fyrir en Kristinn sagði áfallið hafa komið eftirá og sérstaklega þegar mönnum var ljóst að skipið hafi sokkið á nokkrum mínútum.
Við sjópróf kom fram að skerið, sem Guðrún Gísladóttir KE steytti á og sökk við í Lófót, var ekki merkt inn á sjókort. Skipstjórinn sagði við sjópróf í Noregi að hann hefði verið í góðri trú um að hann væri að sigla á réttri slóð þegar skip hans strandaði. Sjóprófin voru haldin í bænum Svolvær í Lófót og hófust þau á því að Sturla Einarsson greindi frá því hvað hefði gerst. Sturla sagðist hann hafa undirbúið siglinguna eftir bestu getu innan norska skerjagarðsins til bæjarins Leknes þar sem landa átti 870 tonnum af síldarflökum. Þetta var í annað sinn á örfáum vikum sem Sturla sigldi skipinu þangað en í þetta sinn var ný leið valin. 
Sturla sagðist við sjóprófin hafa kannað sjókort gaumgæfilega og rætt við hafsögumenn á Lófótsvæðinu áður en hann ákvað leiðina sem farið skyldi. Hann sagðist hafa verið ákveðinn í að fara hvergi um svæði þar sem dýpi undir kili skipsins fullfermdu væri minna en 14 metrar og taldi skipið á slíkri siglingaleið þegar það strandaði. Þá var Guðrún Gísladóttir á um 6 sjómílna ferð. 
Sturla lagði fram sjókort máli sínu til stuðnings í sjóréttinum og kom fram í norskum fjölmiðlum að framburður hans hafi verið mjög trúverðugur og að fas hans hefði borið vitni um að þar færi rólyndur og þaulvanur skipstjórnarmaður.
Þegar þetta er skrifað er ennþá óljóst hvað tekur við hjá þeim 40 sjómönnum sem misstu vinnu sína við skipsskaðann. Það voru tvær 20 manna áhafnir á Guðrúnu Gísladóttur KE, enda skipið í raun fullkomin verksmiðja sem átti aldrei að stoppa. 

Guðrún Gísladóttir KE 15 var dýrasta og fullkomnasta fiskiskip sem smíðað hefur verið fyrir íslenska fiskiskipaflotann. Svona skip liggja ekki á lausu og eru í raun ekki til í heiminum í dag. "Guðrún Gísladóttir KE var algjör hafborg og mikill söknuðu af þessu skipi," sagði Kristinn Pálsson í samtali við Víkurfréttir. Krisinn var þess heiðurs aðnjótandi að sækja skipið nýtt til Kína á síðasta ári og sigla með því um 10.000 sjómílna leið til Íslands og þurfti meðal annars að fara um tvær hættulegustu siglingarleiðir heimsins, þar sem sjórán og jafnvel morð á sjómönnum eru algeng. Eftir að hafa sloppið áfallalaust í gegnum þær slóðir kom mönnum ekki til hugar að tæpu ári síðar ætti þetta rúmlega tveggja milljarða króna skip eftir að liggja á hafsbotni við Norður Noreg.

Viðtal við Kristinn Pálsson matsvein í Víkurfréttum frá 2002. 

Flettingar í dag: 1310
Gestir í dag: 444
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034144
Samtals gestir: 520383
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 10:14:08