27.12.2016 09:43

1598. Örvar HU 21. TFUR.

Örvar HU 21 var smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1982 fyrir Skagstrending h/f á Skagaströnd. 499 brl. 2.400 ha. Wichmann díesel vél. Smíðanúmer 64. Örvar var fyrsti svokallaði flakafrystitogari okkar Íslendinga. Togarinn var seldur til Rússlands og tekinn af skrá 11 september árið 1997.

Örvar HU 21.                                                                                               (C) Snorri Snorrason. 


Örvar HU 21.                                                                                                (C) Snorri Snorrason.

            Nýr og glæsilegur togari

                     Hlaut nafnið Örvar HU 21

Laugardaginn 31. okt. s.l. var sjósettur nýr skuttogari hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri, fyrir Skagstrending h/f á Skagaströnd. Hlaut hann nafnið ÖRVAR HU-21. Togarinn er 50,5 metrar á lengd, með 2400 ha. Wickman aðalvél. Hann er útbúinn með flökunarvél, roðflettingarvél og frystitækjum svo hægt er að vinna allan afla um borð. Útbúnaður þessi var settur í skipið vegna þess að mjög hefur dregist að hefja framkvæmdir við nýtt frystihús á Skagaströnd, sem átti að vera tilbúið um svipað leyti og togarinn. Skipstjóri á hinu nýja skipi verður Guðjón Sigtryggsson sem verið hefur skipstjóri á skuttogara félagsins Arnari HU-1 frá upphafi. Fyrsti vélstjóri á Örvari er ráðinn Magnús Sigurðsson sem einnig hefur starfað um nokkurt skeið hjá fyrirtækinu.
Á laugardagsmorguninn snemma, flykktust Skagstrendingar til Akureyrar að vera viðstaddir sjósetningu skipsins. Mun láta nærri að um 30% hluthafa félagsins hafi mætt við þessa athöfn. Þá var og mættur Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra sem fór nokkrum orðum um endurnýjun skipastólsins um leið og hann óskaði Skagstrendingum til hamingju með þetta ágæta skip. Að skírn og sjósetningu lokinni bauð Slippstöðin h/f gestum til veglegrar veislu í Sjálfstæðishúsinu. Þar afhenti stjórnarformaður Slippstöðvarinnar h/f, Stefán Reykjalín, frú Halldóru Þorláksdóttur, sem gaf skipinu nafn, veglegt gullarmband, sem á var greipt nafn skipsins og einkennisstafir. Frú Halldóra er kona Guðjóns Sigtryggssonar skipstjóra.

Feykir. 6 nóvember 1981.

                    Örvar HU 21

7 apríl s.l. bættist nýr skuttogari við fiskiskipastól landsmanna er Örvar HU-21 kom til heimahafnar sinnar, Skagastrandar, í fyrsta sinn. Örvar er smíðaður hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri og er  smíðanúmer 64. Þetta er sjötti skuttogarinn, sem Smíðaður er hjá stöðinni, en áður hefur hún afhent; Guðmund Jónsson GK (nú Breki VE), Óskar Magnússon AK, Björgúlf EA, Sigurbjörgu ÓF og Kolbeinsey  ÞH. Tvö fyrsttöldu skipin eru jafnframt búin til nótaveiða. Skipð, sem er hannað hjá stöðinni, er ný hönnun, en byggir að verulegu leyti á síðustu nýsmíði Slippstöðvarinnar, Kolbeinsey ÞH-10. Helstu  breytingar á smíði og fyrirkomulagi eru: Smíðalengd aukin um 2.75 m; dýpt að þilförum aukin um 4 cm; Í stað þilfarshúsa meðfram síðum á efra þilfari, undir hvalbaksþilfari, og opins gangs á milli fyrir bobbingarennur, er lokað rými á fremri hluta efra þilfars, undir hvalbaksþilfari; Í stað reisnar undir brú er íbúðarhæð; og breytt fyrirkomulag á togþilfari (ekki tveggja-vörpu fyrirkomulag) og í íbúðum. Örvar HU hefur sérstöðu í íslenzka skuttogaraflotanum hvað varðar vinnsluþilfar, en í skipinu er búnaður til vinnslu og frystingar á flökum, og er hann  fyrsta fiskiskipið hérlendis þannig búið. Fiskvinnslutækin eru frá Baader og frystitækin frá Kværner Kulde A/S. Eigandi Örvars HU er Skagstrendingur h/f á Skagaströnd, en það fyrirtæki á fyrir skuttogarann Arnar HU, sem smíðaður var í Japan árið 1973. Skipstjóri á Örvari HU er Guðjón Sigtryggsson, 1 vélstjóri er Magnús Sigurðsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Sveinn Ingólfsson.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1982.

             Leist ekki á frystinguna fyrst

      Viðtal við Guðjón Ebba Sigtryggsson skipstjóra

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna einmitt frystitogara fyrir að nýta ekki aflann nógu vel og koma ekki með allan afla að landi. Hverju svarar frumkvöðull veiða á frystitogurum þeirri gagnrýni? "Það eru til nákvæmar skýrslur af Örvari og Arnari frá því veiðar á frystingu hófust. Það kom eftirlitsmaður um borð eftir hvern einasta túr og tók út það sem við höfðum fryst af undirmálsfiski. Stundum var hluti af því dæmt upp í stærra en oftast var það í lagi. Við vorum allir af vilja gerðir til að nýta allan afla sem kemur um borð." Það var í apríl 1982 sem Örvar HU, fyrsti frystitogari íslendinga, kom til heimahafnar á Skagaströnd og hélt fljótlega til veiða. Hvernig var fyrsti túrinn? "Ég var nú ekki hrifinn af þessu í fyrstu. Mér óx þetta töluvert í augum en lét slag standa. Allir útreikningar sýndu að þetta væri hægt og ég held að Örvar hafi alltaf verið hagkvæmt skip. Hitt er svo annað mál að það var upphaflega ekki gert ráð fyrir að við afköstuðum nema 8-10 tonnum af flökum á dag en þau fóru fljótlega upp í 14-15 tonn og svo upp undir 20 tonn á dag. Í fyrsta túrnum fórum við í grálúðu, lentum í mikilli veiði og lágum mestan hluta sólarhringsins í aðgerð, toguðum ekki mjög mikið. Byrjunarerfiðleikarnir voru miklir og álagið gífurlegt á áhöfnina. Ég man eftir því að bátsmaðurinn hjá mér, ákaflega samviskusamur maður og duglegur, var fjórum kílóum léttari eftir túrinn og var hann þó ekki stór fyrir. Okkur fannst mjög erfitt að liggja í aðgerð meðan aðrir togarar mokuðu fiskinum upp í flottrollinu. Fyrstu mánuðina voru menn afar óhressir og sumir hættu jafnvel. En þetta hefði aldrei tekist nema vegna þess að við vorum með þrautþjálfaða og vana áhöfn. Þorsteinn Már Baldvinsson, sem er einn eigenda Samherja, kom með okkur í fyrsta túrinn en hann var ráðgjafi útgerðarinnar við þessar breytingar. Við sáum fljótlega að sá skurður á flökunum sem frystihússérfræðingarnar vildu að við beittum tafði okkur gífurlega svo við breyttum því og ákváðum að bjóða fiskinn unninn á þennan hátt. Þetta skipti sköpum og fljótlega jukust afköstin mjög mikið. En fyrsta árið á þessum veiðum var erfitt.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1996.

            Örvar HU seldur Rússum

Skagstrendingur hf. á Skagaströnd hefur selt togarann Örvar HU-21 til rússneskra aðila og er kaupandinn Permina Shipping. Skipið hélt úr höfn á Akureyri í gær undir stjórn nýrra eigenda og fer á miðin í Barentshafi en þar hafa kaupendur drjúgan kvóta til ráðstöfunar. Örvar var eitt af þeim skipum íslenska flotans þar sem fiskur var fyrst sjófrystur um borð.

Morgunblaðið. 24 október 1997.

Flettingar í dag: 1362
Gestir í dag: 458
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034196
Samtals gestir: 520397
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 10:45:18