29.12.2016 13:44

166. Guðmundur Þorlákur RE 45. TFLP.

Guðmundur Þorlákur RE 45 var smíðaður í Oskarshamn í Svíþjóð árið 1946. Eik. 89 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Mar í Reykjavík frá 12 mars árið 1947. Ný vél (1954) 330 ha. Alpha díesel vél. Skipið var endurmælt árið 1949, mældist þá 100 brl. Selt 25 júní 1957, Ásgeiri Bergssyni og Sverri G Ásgeirssyni í Neskaupstað, skipið hét Bergur NK 46. Selt 10 nóvember 1961, Ingjaldi h/f í Reykjavík, hét Pétur Ingjaldsson RE 378. Selt 10 febrúar 1965, Sigurði Pétri Oddssyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Guðjón Sigurðsson VE 120. Ný vél (1968) 450 ha. Wichmann díesel vél. Selt 20 febrúar 1970, Sigurgeir Ólafssyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Lundi VE 110. Skipið rak upp í suður hafnargarðinn í Vestmannaeyjum 10 apríl árið 1972. Skipið náðist á land en var það illa farið eftir barninginn við garðinn að það var talið ónýtt.


Guðmundur Þorlákur RE 45.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.


166. Pétur Ingjaldsson RE 378.                                                            (C) Hafsteinn Jóhannsson.

        Trolldræsur stöðvuðu vélina í brimrótinu
                                  90 tonna bátur ónýtur
                   Skall hvað eftir annað á hafnargarðinn

Netadræsur úr togaratrolli urðu þess valdandi í fyrrinótt að 90 tonna bátur, Lundi VE 110, varð stjórnlaus í brimgarðinum í Vestmannaeyjahöfn þegar stór trolldræsa fór í skrúfu skipsins, en þá var hið versta veður, 10 vinstig á austan. Bátinn rak upp í hafnargarðinn og er talin mikil mildi að enginn af áhöfninni fórst, en einn maður sem féll fyrir borð, náðist aftur. Talið er mögulegt að áhöfn brezks togara, sem sigldi frá Eyjum í fyrrakvöld, hafi hent trolldræsum í sjóinn þarna. Lundi er talinn ónýtur. Skipstjóri á Lunda er Sigurgeir Ólafsson og var 8 manna áhöfn á bátnum. Um kl. 3.30 í fyrrinótt var Lundi að sigla út úr höfninni í Vestmannaeyjum í róður, en vindur var þá 10 vindstig af austri og allimikill sjór. Siglingin út úr höfninni í Eyjum er beint í austur.
Skipti engum togum þegar báturinn var kominn skammt út fyrir hafnargarðinn að vél skipsins stöðvaðist, þegar togaratrolldræsurnar fóru í skrúfu skipsins. Rak bátinn þá stjórnlaust upp í suðurhafnargarðinn, sem er fjær Heimakletti. Þrisvar sinnum skellti brimið Lunda upp á garðinn miðjan og í einu slíku broti tók einn skipverja út, Anton Einar Óskarsson, en það varð honum til bjargar, að hann náði taki á netadruslum sem flutu upp fastar í skrúfu skipsins og tókst skipsfélögum hans að ná honum um borð án þess honum yrði meint af. Brimið bar bátinn með hafnargarðinum að innsiglingunni og skrallaði hann eftir garðinum og síðan inn fyrir í höfnina undan veðrinu. Var hann þá kominn að því að sökkva.
Allir skipverjar fóru strax í björgunarvesti þegar netin fóru í skrúfuna, en ekki var viðlit að fara í björgunarbát eða komast í land eins og sjólagið var þarna við hafnargarðinn, enda svartamyrkur og úthafsaldan ekki létt þegar hún skellur þarna í 10 vindstigum. Eins og fyrr segir er báturinn talinn ónýtur. Lóðsinn í Eyjum var strax kallaður út og kom hann Lunda að bryggju áður en hann sökk. Var strax hafizt handa við að dæla úr bátnum og í gær var hann tekinn í slipp. Kjölur skipsins er allur undan, þilfarið gengið upp og báturinn er allur skakkur og skældur, svo að hann er að öllum líkindum ónýtur. Í gærmorgun fóru hafnsögubátarnir í Eyjum út fyrir hafnargarðana að leita að frekari netadruslum og fundu þeir fleiri dræsur af sömu gerð.
 Veður var farið að stillast og náðu þeir netadræsunum. Bátar sem sigldu úr höfninni í gær þorðu ekki annað en að hafa mann frammi í stafni á útstíminu og kom það sér vel a.m.k. hjá einum bátnum, því að hann fékk dræsu í sinni stefnu, en skipverjinn, sem stóð í pusinu frammi á gat sagt til um hana. Menn velta þvi fyrir sér hvernig standi á því að svo margar togaranetadræsur reki þarna á sama tíma, en talið er mögulegt að brezkur togari, sem sigldi út frá Eyjum í fyrrakvöld, hafi hent trolldræsunum fyrir borð. Þegar brezki togarinn lá í Vestmannaeyjahöfn voru skipverjar að slá upp fyrir nýju trolli og var mikið af netadræsum á dekkinu. Troll togara er gert úr miklu grófara garni en bátatroll og allar dræsurnar sem fundust við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn voru úr togaratrolli. Skipstjórinn á Lunda, Sigurgeir Ólafsson, og bankastjóri Útvegsbankans í Eyjum, Ólafur Helgason hófust handa um það strax í gær að reyna að fá leigðan netabát í stað Lunda, en það hafði ekki tekizt í gærkvöldi.

Morgunblaðið. 11 apríl 1972.

Flettingar í dag: 1430
Gestir í dag: 476
Flettingar í gær: 1092
Gestir í gær: 456
Samtals flettingar: 2034264
Samtals gestir: 520415
Tölur uppfærðar: 29.9.2020 11:16:12