15.01.2017 11:30

2 m. kt. Stjernö. LBNW.

Kútter Stjernö var smíðaður í Lowestoft í Englandi árið 1871. Eik. 45 brl. Eigendur voru bræðurnir Björn og Þorsteinn Guðmundssynir frá Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd ásamt Jes Zimsen kaupmanni í Reykjavík sem var tengdasonur Björns. Halldór Friðriksson frá Bjarneyjum á Breiðafirði var um tíma skipstjóri á Stjernö. Árið 1900 eru eigendur þess Björn Guðmundsson og Jes Zimsen í Reykjavík.Stjernö fékk einkennisstafina RE 5 stuttu eftir aldamótin. Skipið var selt sumarið 1903, (óvíst hverjum og hvert það var selt). Stjernö mun hafa verið talin ónýt og rifin á Flateyri árið 1914.


Kútter Stjernö á ytri höfninni í Reykjavík árið 1898-99.                           (C) Sigfús Eymundsson.


Áhöfnin á kútter Stjernö. Skipstjórinn Halldór Friðriksson er annar frá hægri.  Ljósmyndari óþekktur.


           Halldór Friðriksson skipstjóri

Breiðfirðingar hafa löngum þótt dugandi sjómenn, enda er lífsskilyrðum þeirra háttað þannig, þegar í bernsku, að sjóferðir og siglingar móta öðru fremur viðhorf þeirra til verkefna fullorðinsáranna. Ber mannvalið þess vott meðal íslenzkra sjómanna, er þaðan hafa komið, að hin frumstæðu kynni þeirra af erfiðleikum sjólífsins, áhættum þess og öryggisleysis, hafa þroskað og eflt með þeim staðgóða þekkingu á dutlungum Ægis og hinum áleitnu dætrum hans.
 Halldór Friðriksson skipstjóri er einn slíkra manna, fæddur í Bjarneyjum á Breiðafirði, 14. marz 1871. Árið 1895 fór hann á Stýrimannaskólann í Reykjavík og lauk prófi þaðan vorið 1897. Árið 1899 tók Halldór við skipstjórn á þilskipinu "Stjernö" frá Reykjavík, en með það skip var hann til ársins 1901. Kom þegar í Ijós á þessum fyrstu skipstjórnarárum hans, að hann var gæddur þeim hæfileikum í ríkum mæli, sem breiðfirzkum sægörpum hafa helzt verið taldir til gildis og vænlegastir hafa þótt til brautargengis í baráttunni við Ægi. Með alúð sinni og einurð vann hann sér traust þeirra og virðingu, sem undir stjórn hans voru settir, þó að oft þætti kenna í áformum hans meira ofurkapps en forsjár, þegar færi gafst á að reyna fangbrögð við hin tröllauknu máttarvöld lofts og lagar og "láta gamminn geysa". Frá þessum byrjunarárum hans sem skipstjóra má geta eftirfarandi atviks, er gerðist um borð í "Stjernö" árið 1900. Dag nokkurn á vetrarvertíðinni var skipið statt í Eyrarbakkabugt og var þar austan rok með stórhríð og frosthörku. Laust fyrir miðnætti um nóttina rifnaði "lyið" frá stórseglinu, allt frá gaffalhnokka og niður að bómu. "Lyið" er, sem kunnugt er, einskonar jaðarband á seglin, sterkur kaðall, sem saumaður er umhverfis það til styrktar faldinum. Brugðið var við í skyndi, til þess að afstýra frekari skemmdum, seglið fellt og ráðstafanir gerðar til viðgerðar á því þegar í stað.
En viðgerðarstarfinu miðaði hægt, því að ekki var um borð í skipinu nema einn viðgerðarhanzki og varð Halldór því að annast saumaskapinn að mestu leyti einn. Kennir hugkvæmni hans og handlægni ekki sízt í því, hve vel þetta tókst, enda hlaut hann fyrir verkið lofsyrði þeirra og aðdáun, sem fullnaðarviðgerð önnuðust á seglinu, eftir heimkomuna til Reykjavíkur. Til þess að seglið yrði nothæft, varð að falda það til bráðabirgða, með einhverju móti, en auðvitað voru ekki skilyrði til þess, eins og á stóð að þessu sinni, að framkvæma slíka vinnu á venjulegan hátt. Tók Halldór það því til bragðs, að vefja segljaðrinum utan um "lyið", sem rifnað hafði frá segldúknum, eins og fyrr er getið, og sauma síðan hvort tveggja, "lyið" og segljaðarinn, rambyggilega saman. Má nærri geta, hver þrekraun hefir verið að leysa verk þetta af hendi á skjóllausu þilfarinu, í frosti og ágjöf, með ömurlegt skammdegismyrkrið, geigvænlegt og ógnandi umhverfis sig á allar hliðar. Ljóstýran, sem notuð var til að lýsa honum við vinnuna, var skipverjunum, er gættu hennar ósvikið skapraunaefni, því að vegna ofviðrisins og særoksins var alltaf öðru hvoru að slokkna á henni, og var það sízt til að bæta vinnuskilyrðin eða flýta viðgerðinni. Loks var þó þrekraunin unnin og seglinu komið fyrir aftur á venjulegan hátt. Má vafalaust gera ráð fyrir, að Halldór hafi ekki dregið lengi að taka út laun þessarar erfiðisnætur á þann hátt, sem honum var geðþekkastur og gefa höfuðskepnunum kost á að reyna árangur viðgerðarinnar til þrautar í þeirri keppni.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 júlí 1940.



Flettingar í dag: 1094
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720991
Samtals gestir: 53532
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 16:19:21