21.01.2017 11:24

E. s. Katla. TFKB.

Flutningaskipið Katla var smíðuð hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1911. 1.656 brl. 1.400 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Eimskipafélag Reykjavíkur h/f í Reykjavík og kom til landsins 21 maí árið 1934. Skipið var keypt frá Noregi og hét áður Manchioneal. Katla var í ferðum milli Íslands og Evrópulanda og flutti bæði heila farma og stykkjavörur. Sigldi oft með saltfisk til Miðjarðarhafslanda. Á stríðsárunum sigldi Katla til Norður Ameríku og var um tíma í ferðum milli hafna þar. Katla kom víða við á höfnum innanlands utan Reykjavíkur. Skipið var selt 31 júlí árið 1945, Eimskipafélagi Íslands h/f, skipið hét Reykjafoss. Skipið var selt til Tyrklands í júní árið 1949. Hét þar nöfnunum Nazar og Cerrahazade. Selt í brotajárn til Istanbul og rifið þar árið 1967.

E.s. Katla.                                                                                               Ljósmyndari óþekktur.

Reykjafoss l.                                                                                          Ljósmyndari óþekktur.


          Eimskipafélag Reykjavíkur hf

Eimskipafélag Reykjavíkur var stofnað árið 1932 og keypti frá Noregi gufuskip, sem hlaut nafnið "Hekla" 1215 br. lestir og árið 1934 eignaðist félagið annað skip, sem hlaut nafnið "Katla", 1656 br. lestir. Í ófriðarbyrjun keypti h. f. Kveldúlfur "Heklu", en hún var skotin í kaf í júlí árið 1941 á leið til Kanada. Katla var seld Eimskipafélaginu, sem þá hlaut nafnið "Reykjafoss" 1948 lét félagið smíða nýtt flutningaskip í Svíþjóð, sem hlaut nafnið "Katla" 1331 br. lest og 1957 lætur félagið smíða 500 lesta flutningaskip, "Askja". Þetta félag, sem var stofnað á krepputíma, hefur blómgast og dafnað, og mun það ekki sízt að þakka Rafni skipstjóra Sigurðssyni, sem stýrt hefur "Kötlunum" báðum, en áður var hann skipstjóri á "Vestra".

Ægir. 15 desember 1959.


                       E.s. Katla

Stálskip með 1400 ha. gufuvél. Stærð: 1656 brúttórúml., 1004 nettórúml. 2010 DW lestir. Aðalmál: Lengd: 77,93 m. Breidd: 10,86 m. Dýpt: 4,78 m. Ganghraði 10-11 sjómílur. Smíðað hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1911. Eimskipafélag Reykjavíkur keypti skip þetta í Noregi árið 1934. Hét það áður Manchioneal, en við eigendaskiptin hlaut það nafnið Katla og kom hingað til landsins 21. maí 1934 undir stjórn Rafns Sigurðssonar skipstjóra. Katla var eins og Hekla máluð Ijósgráum lit með brún-hvíta yfirbyggingu og íslenzku fánalitina á reykháf. Vistarverur skipverja voru miðskips og ofan þilja. Skipið hafði fjögur lestarop og tvennar milliþiljur í lestum, og var Katla annað stærsta íslenzka flutningaskipið um langan tíma. Katla var að mestu í Evrópuferðum fyrstu árin og fór þá oft til Miðjarðarhafslandanna með saltfisk. Á styrjaldarárunum 1939-45 var skipið í leigu hjá Eimskipafélagi Íslands og sigldi þá yfir 20 Ameríkuferðir, aðallega til Kanada. Eimskipafélag Íslands keypti svo Kötlu árið 1945 fyrir 2.350.000 kr. Hlaut það þá nafnið Reykjafoss. Reykjafoss var svo ýmist í Ameríku og Evrópuferðum þangað til Eimskipafélag Íslands seldi þetta giftusama skip árið 1949. Voru það Tyrkir, sem keyptu skipið fyrir um hálfa milljón króna, og var Reykjafoss afhentur í Hull í júnímánuði árið 1949. Flestar sjómílur sigldi skipið á árinu 1948 eða 34.291. Þá má geta þess, að Reykjafoss var fyrsta íslenzka flutningaskipið, sem kom til Þýzkalands að ófriðnum loknum, var það til Hamborgar árið 1946. Á meðan skipið var í eigu Norðmanna var það notað til ávaxtaflutninga í Ameríku.

Æskan. 1 september 1971.
Guðmundur Sæmundsson.

           Útskipun í Porto Alegre í Brasilíu

Það er óvíst hvor Katlan þetta hefur verið, en ég læt þessa grein fylgja með;

 M.s. Katla var vandað skip í eigu Eimskipafélags Reykjavíkur hf. Forstjóri þess var Harald Fáberg skipamiðlari. Nú leigja timburkaupmenn í Reykjavík og Hafnarfirði skipið til þess að sækja timbur til Brasilíu. Katlan kemur til Porto Alegra á tilsettum tíma, en umboðsmenn telja öll tormerki á því að hefja útskipun, því nú fari í hönd vikulöng kjötkveðjuhátíð og ekki verði snert á verki á meðan, en áhöfnin sé velkomin að taka þátt í karnevalnum. Að lokinni hátíð er tekið til við útskipun, en lestunarmenn vildu ekki taka neinum ábendingum stýrimanna um stöflun viðarins í lestirnar, þannig að af 750 standördum komust aðeins 590 fyrir í lestunum. Varð að senda 160 standarda um Rotterdam til Reykjavíkur við gífurlegan kostnað fyrir útgerðina. Að þesum ósköpum loknum varð Fáberg að orði: "Jeg sender aldri skip til helvíta-djöfula Brasil meir."

Úr sagnabanka Leifs Sveinssonar.

Flettingar í dag: 155
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 998
Gestir í gær: 308
Samtals flettingar: 1921206
Samtals gestir: 487194
Tölur uppfærðar: 11.7.2020 03:42:51