06.02.2017 15:47

1326. Stálvík SI 1. TFRS.

Stálvík SI 1 var smíðaður hjá Skipasmíðastöð Stálvíkur h/f í Garðahreppi árið 1973. 314 brl. 1.750 ha. Wichmann díesel vél, 1.288 Kw. Eigandi var Þormóður rammi h/f á Siglufirði frá 15 september 1973. Skipið var lengt og endurmælt árið 1986, mældist þá 364 brl. Skipið var selt 27 desember 1997,  Þormóði ramma-Sæberg h/f á Siglufirði, sama nafn og númer. Stálvík var lagt árið 2004 og síðan tekið af skrá 26 ágúst 2005. Skipið var selt í brotajárn til Danmerkur sama ár. Stálvík var fyrsti Skuttogarinn sem smíðaður var hér á landi.

Stálvík SI 1.                                                                                                Ljósmyndari óþekktur. 


Stálvík SI 1.                                                                                                        Mynd á frímerki.


Stálvík SI 1 við komuna til Siglufjarðar.                                                          (C) Mynd úr Einherja.

                        Stálvík SI 1

Sunnudaginn 16. sept. s. l. kom B. v. Stálvík SI 1, fyrsti skuttogarinn, sem smíðaður er á Íslandi, til Siglufjarðar. Mikill mannfjöldi var á Hafnarbryggjunni til að fagna skipinu, en það er eign Þormóðs ramma h. f. á Siglufirði. Er skipið hafði lagst að bryggju flutti Ragnar Jóhannesson stjórnarformaður Þormóðs ramma h. f. stutta ræðu. Bauð hann skipshöfn og skip velkomið til heimahafnar og hvaðst vonast til að þessi glæsilegi farkostur ætti eftir að færa Siglfirðingum mikla björg í bú. Þá þakkaði Ragnar öllum þeim er stuðlað höfðu á einhvern hátt að smíði togarans, svo sem ríkisstjórn, þingmönnum kjördæmisins, peningastofnunum og mörgum öðrum.
Eininig töluðu við þetta tækifæri, þ. Ragnar Jónasson, settur bæjarstjóri og Þórður Vigfússon framkvæmdastjóri Þormóðs ramma h. f. Síðan var fólki boðið að ganga um borð og skoða skipið. Þá var og öllum Siglfirðingum boðið til kaffidrykkju að Hótel Höfn í tilefni af komu skipsins, Síðar um daginn var svo starfsfólki Þormóðs ramma h. f. og fleirum boðið í stutta siglingu með hinu nýja skipi. Stálvík SI 1, er hið glæsiegasta skip, um 450 brúttólesta skuttogari, smíðaður hjá skipasmíðistöðinni Stálvík h. f. í Garðahreppi, en forstjóri hennar er Jón Sveinsson. Að allra dómi virðist hér vera um mjög vandað skip að ræða og allur frágangur smekklegur. Öll siglinga og fiskileitartæki eru af fullkomnustu gerð og þeim vel fyrir komið. Verð skipsins frá skipasmíðastöðinni er um kr. 149 milljónir en heildarverð, sem næst 160 milljónum.
Fiskilest er búin fiskikössum að 2/3 og hægt að koma fyrir kössum í henni allri. Skipstjóri á b. v. Stálvík er Hjalti Björnsson og 1. vélstjóri Agnar Þór Haraldsson.
Félagið á í smíðum annan skuttogara á Spáni, er hlotið hefur nafnið Sigluvík SI 2, en sá togari er svipaður að stærð og Stálvík, og er væntanlegur hingað um mánaðarmótin febr-mars n. k. Einnig á Þormóður rammi h. f. 100 lesta stálskip m. s. Selvík SI 4, sem nú er á línuveiðum og hefur aflað mjög sæmilega að undanförnu. Eins og kunnugt er, er hér nú hafin bygging á stóru fiskiðjuveri fyrir Þormóð ramma h. f. Er þegar búið að steypa grunn og verið að ganga frá gólfplötu að fyrsta áfanga byggingarinnar, en það er 1000 m2 frystigeymsla, sem áætlað er að komist undir þak um n. k, áramót. Í vetur er svo meiningin að einangra klefann og ganga frá honum að öðru leyti. Frystihúsið verður byggt þannig að stækkunarmöguleikar séu auðveldir, þegar þörf krefur, en það sem byggt er nú og næsta ár, er 4.100 m2 frystihús með öllum nauðsynlegum búnaði á einni hæð og síðan á 2. hæð 650 m2 skrifstofuhúsnæði, með matsal fyrir starfsfólk frystihússins, eldhúsi og fl. Gert er ráð fyrir að hægt sé að vinna í þessu húsi um 60 tonn af hráefni á dag, án yfirvinnu, með 120- 140 starfsmönnum að jafnaði. En með fyrirhugaðri stækkun síðar verður starfsfólkið allt að 200 manns.

Einherji. 22 október 1973.

Flettingar í dag: 293
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 988
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1540357
Samtals gestir: 415884
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 05:26:33