17.02.2017 12:47

70 ár frá því fyrsti Nýsköpunartogarinn kom til landsins.

Togarinn  Ingólfur Arnarson, er stærsti og glæsilegasti togarinn, sem Íslendingar hafa enn eignast. Hann er fyrsta skipið af þrjátíu, sem samið var um smíði á í Bretlandi, í október 1945, fyrir milligöngu Nýbyggingarráðs og íslensku ríkisstjórnarinnar. Skipið ef smíðað hjá skipasmíðastöð Mrss Cochrane & Sons, Ltd. Í Selby. Er það fyrsta skipið af átta, sem samið var um í þeirri smíðastöð. Það er smíðað samkvæmt ströngustu reglum flokkunarfjelagsins Lloyds í Bretlandi (+ 100 A L) og þó nokkuð styrkara, þar sem það þótti nauðsynlegt, vegna íslenskrar vetrarverðráttu. Lengd þess er 175 fet, breidd 30 fet og dýpt 16 fet. Það er 642 br rúmlestir og 216 nettó rúmlestir. Burðarmagn þess er 500 smálestir með 81 cm borð fyrir báru. Bolurinn er hólfaður í sundur með 7 vatnsþjettum skiljum, en alls eru í skipinu 20 vatnsheld hólf.


Ingólfur Arnarson RE 201 á ytrihöfninni.                                                Mynd úr Morgunblaðinu.  

Botn þess er tvöfaldur frá vjelarúmi og fram úr, og skiptist í geyma fyrir olíur, vatn og lýsi, þannig, að vatnsgeymar eru fyrir 60 smál. olíugeymar fyrir 245 smál. og lýsisgeymar fyrir 20 smál. Slík skipting bolsins í vatnsheld hólf, skapar margfalt öryggi fyrir skipið, ef það mætir áföllum af völdum veðurs, árekstra eða strands. Framrúmi er skipt í tvö fiski rúm, en þeim aftur skipt í 12 stíur, sem hver er útbúin með 4 hillum. Rúmar skipið þannig 300 smál. af ísfiski. Stærð þeirra er alls 45 þús. teningsfet. Eru þau öll þiljuð vatnsþjettri viðarsúð. Fyrir framan fiskirúmin er stór veiðafærageymsla, með hillum og skápum. Aðgangur er í hana frá þilfari.
íbúðir skipverja eru sem hjer segir: í stafni skipsins eru íbúðir og hvílur á tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Á neðri hæðinni er klefi fyrir 16 menn, og er það rúm mun stærra en áður var í eldri skipum, ætlað 24 mönnum. Á efri hæð er klefi fyrir 8 menn. En þess utan er þar setustofa sameiginleg fyrir hásetana, útbúin með borðum og bekkjum.


Ingólfur Arnarson RE 201 að koma til hafnar.                                           Mynd úr Morgunblaðinu.  

Á þennan hátt geta þeir, sem frí eiga frá störfum, hvílt sig í næði, án þess að vera truflaðir af umgangi þeirra, sem við störf eru. Hverri hvílu fylgir sjerstakur geymsluskápur fyrir föt o. fl. og setubekkir eru meðfram öllum hvílum. Aðeins tvær hvíluraðir eru í hæðinni, í stað þriggja í gömlu skipunum, og því bæði loftrými og gólfflötur meiri fyrir hvern mann en áður þekktist. Út frá setustofunni og innan gengt úr henni, er baðherbergi og hreinlætisklefi fyrir skipverja, svo er sjerstakur klefi til að þurka og geyma í yfirhafnir og hlífar skipverja. Þar eru og tvö vatnssalerni. Í skut skipsins eru einnig íbúðir á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er sameiginlegt anddyri fyrir íbúðirnar á þessari hæð, með stiga á milli hæðanna. Fyrir aftan það er salur með 6 hvílum, borðum og legubekkjum. "Fyrir framan anddyrið er herbergi tveggja kyndara, með hvílum og bekkjum. Sitt til hvorrar hliðar eru tvö herbergi, annars vegar fyrir yfir og undirvjelstjóra, hins vegar fyrir yfir og undirstýrimann. Öll herbergi á þessari hæð eru útbúin með hvílum, stoppuðum og klæddum legubekkjum, borðum og skápum, en þiljur allar af gljáðum harð- viði. Á efri hæð er matsalur með borðum og bekkjum, nægilega stór fyrir alla skipshöfnina, með búri, skápum og matvælageymslum.


Ingólfur Arnarson RE 201 leggst við Miðbakkann.                                        Ljósmyndari óþekktur.  

Þar er og baðherbergi, hreinlætisklefi, tvö vatnssalerni og þurkklefi fyrir yfirhafnir. Er þessu komið fyrir til hliðar við borðsalinn og innangengt úr honum í alla þessa klefa. Fyrir framan borðsalinn er rúmgott eldhús, með borðum, hillum og skápum og olíukynntri eldavjel. Samgangur er á milli borðstofu og eldhúss, Þar er og kæliklefi fyrir vistir, svo skipverjar geti jafnan haft nýmeti á borðum. Inngangur á þessa hæð er frá báðum hliðum og frá bátaþilfari, en samgangur til vjelarúms. Fremst í reisn er herbergi skipstjóra, með hvílu, legubekkjum, borði, stólum og fatask. allt af gljáðum harðviði. Þar fyrir aftan er baðherbergi, hreinlætisklefi og vatnssalerni. Samgangur er milli herbergis skipstjóra og stýrishúss, sem komið er fyrir á næstu hæð ásamt loftskeytaklefa og kortahúsi. Íbúðir allar eru hitaðar upp með olíukynntum miðstöðvarvjelum. Er dælt um þær allar tæru lofti eftir vild. Er það hvorttveggja nýjung frá því  sem áður hefur verið. Alls eru í skipinu íbúðir og hvílur fyrir 38 menn. Á bátapalli að aftan er komið fyrir við "patent" uglur tveim bjargbátum, útbúnum að öllu leyti  eftir ströngustu reglura um öryggi. Í reisn skipsins, yfir vjelarúmi, er komið fyrir lifrarbræðsluklefa. Verður þar komið fyrir bræðslutækjum af nýrri gerð, sem smíðuð eru hjerlendis að fyrirsögn Ásgeirs Þorsteinssonar, verkfræðings.


Gunnar Thoroddsen borgarstjóri heldur ræðu af brúarvæng togarans.               Ljósmyndari óþekktur.

Skipið er útbúið með 1300 hestafla eimknúinni aðalvjel, er knýr það rúmar 13 mílur á klst. Er hún af hinni venjulegu þríþenslu tegund, gerð fyrir að nota yfirhitaðan eim, en þó endurbætt á margvíslegan hátt frá því sem áður hefur þekkst í togurum. M.a. er loftdæla vjelarinnar ekki sambyggð með henni, eins og venja er til, heldur er hún sjerstæð og rafknúin. Á þann hátt er ávalt hægt að halda uppi fullu sogafli, bæði fyrir aðalvjel og togvindu, hvort sem aðalvjelin er í hægum eða fullum gangi eða alveg stöðvuð. Er þetta mjög mikill eldsneytissparnaður og Ijettir mikið gang bæði aðalvjelar og togvindu, og fer miklu betur með þær vjelar báðar, í meðferð. Er hjer að ræða um algjörlega nýjung í togurum. Eimketill skipsins er smíðaður fyrir 225 lbs. þrýsting. Hitaflötur hans er 2800 ferfeta. Hann er kyntur með olíu í stað kola, og sparast því alt það erfiði og óþrifnaður, sem áður fylgdi kyndingu, kolamokstri, eldhreinsun og öskuburði. Mun margur gleðjast yfir þeim umbótum. Aðalvjel og ketill er smíðað hjá Mrss Amos & Smith. Ltd., Hull. Settu þeir einnig niður allar vjelar í skipið. Ketillinn er útbúinn með yfirhitunarkerfi, frá Superheater Co., og loftþrýstivjelum frá Howdensverksmiðjum, sem dæla upphituðu lofti inn í eldkolin. Olíukyndingarvjelarnar eru smíðaðar hjá Walsend Shipway & Engineering Co., sem smíðuðu allar vjelarnar í herskipið Hood.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201.       (C) Snorri Snorrason. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.   

Eru þær allar rafknúnar. Loftdælan og eimvatnsdælurnar eru rafknúðar sjerdælur, smíðaðar af Weirs-verksmíðjunum, en kælidælur, þilfarsdælur, austurdælur og aðrar sjerdælur, af Qroysdale-verksmiðjunum, og eru þær einnig allar rafknúðar. Er dælukerfið þannig útbúið, að þótt bæði kælidæla, aðalvjelar og loftdæla bili, má nota aðalvjel með 80% afli, sem er afarmikið öryggi fyrir skipið og algert nýmæli. Ný tegund vökvastýrisvjela, smíðuð hjá Donkin & Co. er tengd beint við stýrið, en virkt frá stýrishúsi. Öllum stýristaumum er því sleppt, og er það bæði til öryggis og þæginda. Ganga vökvadælurnar fyrir raf orku. Er þetta einnig nýmæli. Akkersvinda, tvöföld, smiðuð af Clark Chopman, og alveg sjerstaklega gerð fyrir íslenska togara, er rafknúin. Getur hún lyft báðum akkerum í einu á 15 faðma dýpi. Togvinda skipsins er eimdrifin. Er það eina aukavjelin, sem drifin er þannig'. Hún er 300 hestöfl að stærð, gerð fyrir 1200 faðma á hvert kefli. Er hún smíðuð af C. D. Holmes & Co., Hull, og margvíslega endurbætt frá fyrri tegundum. Þá eru í skipinu 2 dieselvjelar, hvor 120 hesta, með átengdum 80 kw rafal, sem framleiða raforku fyrir allar aukavjelar og til Ijósa. Eru vjelar þessar smíðaðar hjá Ruston Hornsby & Co. En auk þess er ein 5. kw samstæða frá sömu verksmiðju, sem nota má til ljósa í höfnum. Skipið er útbúið með talstöð, loftskeytastöð og miðunarstöð frá M. P. Pedersen, Kbh., tveimur dýptarmælum Fathometer & Huges, sem bæði sjálfrita og senda neista, eftir vild, einnig með rafmagnshraðamæli, rafmagnsvjelsíma, " sjerstakri gerð áttavita, Radartækjum og öðrum nýtísku áhöldum. Þegar hinn valinkunni skipstjóri, Jóhann Pjetursson, var að lýsa fyrir blaðamönnum hinu glæsilega skipi sínu "Gylfa", fyrir nokkrum dögum, fjellu honum af munni þessi orð: "Ingólfur Arnarson er listasmíð. Þar er saman"komið allt, sem íslenskir og breskir útgerðarmenn og sjómenn geta óskað sjer". Betur verður þessu skipi ekki lýst. Hið glæsilega skip er árangur af samstiltum vilja þeirra manna allra, sem metið hafa verk ykkar sjómannanna undan farin mörg og erfið ár, til þess að mæta óskum ykkar og vonum um betra og öruggara far. Velkominn býð jeg Ingólf Arnarson að landi. Enn mun hjer með honum hefjast nýtt landnám, nýir möguleikar, nýir og betri tímar fyrir land og lýð, Þjer allir, sem mál mitt megið heyra, gefið honum blessun ykkar. Felið hann Guði og góðum vindum í bænum ykkar fyrr og síðar.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947.

Flettingar í dag: 360
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 681
Gestir í gær: 32
Samtals flettingar: 723706
Samtals gestir: 53706
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 11:45:26