26.02.2017 18:08

Magni NK 68.

Magni NK 68 var smíðaður í Molde í Noregi árið 1935. Eik og fura. 19 brl. 25 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Guðjón Eiríksson, Bergur Eiríksson, Ásgeir Bergsson og Tómas Jóhannesson í Neskaupstað frá 14 mars 1935. Ný vél (1944) 108 ha. Buda díesel vél. Báturinn fórst í róðri út af Garðskaga 9 febrúar árið 1946 í miklu óveðri. 4 skipverjar fórust en einum var bjargað um borð í Barða frá Húsavík. Einnig fórust í þessu óveðri 3 aðrir bátar með samtals 18 mönnum. 


Magni NK 68 við bryggju í Neskaupstað.                                                         (C) Björn Björnsson.

      Mannskaðaveðrið 9 febrúar 1946

    Fjögurra báta er saknað, en flestir aðrir urðu fyrir                               miklum áföllum og tjóni

Síðastliðinn laugardag gerði aftaka veður á Suður og Vesturlandi. Flestir bátar voru þá á sjó og hrepptu hið versta sjóveður og komust margir við illan leik í land, eftir að hafa orðið fyrir línutapi og fengið áföll, Fjögurra báta er saknað. Af þeim er vitað með vissu um afdrif eins, m.b. Magna frá Norðfirði, en hann sást farast út af Garðskaga og líkur benda til um sömu afdrif annars, m.b. Geirs frá Sandgerði, þvi farið er að reka lóðabelgir og brak úr stýrishúsi hans á fjörunum skammt frá Sandgerði. Um afdrif hinna bátanna tveggja, sem saknað er, er ekki vitað, en þeirra hefir verið leitað af bátum og flugvélum árangurslaust. Þeir heita Max, frá Bolungarvík, og Alda, frá Seyðisfirði.
Þá tók út tvo menn af vélbátnum Hákon Eyjólfsson, frá Garði. Alls er óttast um, að rúmlega tuttugu menn hafi farizt í ofviðri þessu.
Vélbáturinn Magni frá Norðfirði var gerður út frá Sandgerði. Hann fór í róður eins og allir hinir bátarnir, á föstudagskvöld. Var hann seint búinn að draga línuna, eins og fleiri bátar, og var á leiðinni til lands, er honum hvolfdi undan Garðskaga. Nærstaddur var þar báturinn Barði frá Húsavík og sá til afdrifa Magna og fór á Vettvang. Þegar þangað kom flaut brak á sjónum og hélt einn mannanna sér uppi á því og varð honum bjargað. Til annarra af skipshöfninni sást ekki. Sá, sem komst af, var vélamaðurinn. Áhöfnin var alls fimm menn. Frá hinum bátunum þremur, sem saknað er, hefir ekkert frétzt, þrátt fyrir mikla eftirgrennslan, en vegna veðurofsans síðari hluta laugardagsins, er talið ólíklegt, að nokkur þeirra sé ofansjávar, fyrst þeir eru ekki enn búnir að ná landi.
Áhöfn hvers báts hefir verið fimm menn og hafa því farizt 21 maður i óveðrinu, svo vitað er um, 19 af bátunum fjórum, en auk þessa tók tvo menn út af vélbátnum Hákoni Eyjólfssyni frá Garði, sem ekki náðust aftur. Vélbáturinn Geir frá KeflavíK réri þaðan á föstudagskvöldið og vissu menn það síðast til hans á laugardag, að hann var að draga lóðir sínar. Síðan hefir ekkert til hans spurzt, nema hvað farið er að reka úr honum skammt frá Sandgerði. Hefir rekið bjóð og lóðabelgi og einnig brak úr stýrishúsi og aftursigla. Líkur benda því til, að báturinn sé ekki lengur ofansjávar. Til vélbátsins Max frá Bolungarvík hefir ekkert spurzt síðan hann fór í róður á föstudagskvöld. Lóðir bátsins fundust á sunnudaginn um 10 sjómílur undan Deild. Þann dag leituðu sex bátar að Max í allgóðu veðri og góðu skyggni, en sú leit bar engin árangur. Fjórði báturinn, sem saknað er, er vélbáturinn Aldan frá Seyðisfirði, sem rær frá Hafnarfirði. Til hans hafði ekkert spurzt í gærdag.
Margir bátar frá verstöðvum við Faxaflóa og vestanlandi komust við illan leik til hafnar og voru sumir hætt komnir. Allt lauslegt tók fyrir borð á mörgum bátum, rúður brotnuðu og einnig urðu nokkrar aðrar skemmdir á bátum vegna sjógangs. Lóðatap er mikið, fæstlr bátar gátu dregið allar lóðir sínar og nokkrir sáralítið af þeim. Vera má þó, að nokkuð af bátum finni lóðir sínar aftur, enda reru flestir bátar við Faxaflóa aftur á sunnudagskvöldið. Vélbáturinn Freyja hélt uppi björgunarstarfsemi á Faxaflóa ofviðrisdaginn í stað Sæbjargar og hjálpaði þremur bátum til hafnar, Bjarna Ólafssyni, Eini og Faxa. Þá fór linuveiðarinn Ólafur Bjarnason, sem var á Akranesi, er ofviðrið skall á, bát til hjálpar, sem var með bilaða vél og virtist mundi reka upp á Mýrar. Var það vélbáturinn Særún frá Siglufirði, en skipverjum tókst að koma vélinni í lag og náði báturinn þvi heilu og höldnu til lands hjálparlaust. Þrjá menn tók út af vélbátnum Ófeigi frá Vestmannaeyjum og náðust þeir allir inn aftur og má það teljast hraustlega gert í slíkum veðurofsa og sjógangi. Skipstjóri á Ófeigi er Angantýr Elíasson. Báturinn Hermóður af Akranesi varð fyrir vélbilun, er hann var að fara frá bryggju til legufæra sinna á laugardagskvöldið, og rak hann á land upp í kletta hjá Sólmundarhöfða við Langasand. Mannbjörg varð, en líklegt er talið, að báturinn hafi orðið fyrir verulegum skemmdum og muni ekki nást út, nema sjór kyrrist fljótlega.
Þeir sem fórust með Magna NK 68 voru:

Sigurður Samsonarson skipstjóri Neskaupstað.
Steingrímur Jónsson háseti Neskaupstað.
Halldór Sigurðsson háseti Neskaupstað.
Erlingur Þorgrímsson háseti Selnesi við Breiðdalsvík.

Skipverjinn sem bjargaðist hét Ríkharður Magnússon (Gæi í Baldurshaga) vélamaður Neskaupstað.

Tíminn. 12 febrúar 1946.
Flettingar í dag: 72
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 767
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 717893
Samtals gestir: 53362
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 02:54:02