08.03.2017 13:42

860. Trausti ÍS 54. TFMW.

Trausti ÍS 54 var smíðaður hjá Landsmiðjunni í Reykjavík árið 1956. Eik. 40 brl. 240 ha. GM díesel vél. Eigandi var Þorgrímur h/f í Súðavík frá 15 mars 1956. Báturinn fórst í róðri 13 febrúar árið 1968 með allri áhöfn, 4 mönnum.


Trausti ÍS 54 í Reykjavíkurhöfn.              Ljósmyndari óþekktur, mynd úr þrautgóðum á raunastund.


Trausti ÍS 54.                                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Þeir sem fórust með Trausta ÍS 54.                                                 Morgunblaðið 20 febrúar 1968.

         Lýst eftir Trausta frá Súðavík
               með 4 manna áhöfn

                Fór í róður á mánudagskvöld
            Ekki heyrzt í honum frá kl. 17.00 í gær

Í kvöld var lýst eftir V.b. Trausta frá Súðavík, sem fór í róður í gærkvöldi og síðast heyrðist til kl. 16.30 til 17.00 í dag. Með bátnum er fjögurra manna áhöfn.
Klukkan 21.00 í kvöld kallaði loftskeytastöðin á Ísafirði bæði á íslenzku og ensku: "Lýst er eftir m/b Trausta Í.S. 54, er síðast heyrðist til milli kl. 16.30 og 17.00 í dag. Báturinn var þá lagður af stað í land frá stað 27 sjómílur í Gölt og 30,5 sjómílur í Rit, en þar hætti báturinn að draga línuna. Skip og bátar á þessum slóðum eru beðin að svipast um eftir bátnun.
M/b Trausti, sem er 40 lesta trébátur, fór í róður frá Súðavík á mánudagskvöld og mun hafa verið með 32 bala af línu. M/b Guðný frá Ísafirði hafði seinast samband við bátinn milli kl. 16.30 og 17.00 í dag og var hann þá hættur að draga og var á leið í land. Að öllu eðlilegu hefði báturinn átt að koma að landi um kl. 23.00 á þriðgudagskvöld. Í kvöld var margsinnis reynt að kalla upp bátinn og var talið hugsanlegt að loftnet hefði slitnað niður.
Var því Trausti beðinn að svara um neyðartalstöð, en ekkert hefir til hans heyrzt. Veður fór versnandi á miðunum fram eftir kvöldi og frost var mikið og Hilmir II, sem gerður er út frá Súðavík, leitaði vars um kl. 21.00 undir Deild til þess að berja af sér klaka og sagði þá, að veður væri sæmilegt þar og sjólítið, en bræla vestur með. Fór Hilmir II siðan út aftur til að svipast um eftir bátnum. Nokkrir aðrir bátar voru á þessum slóðum og margir voru á heimleið úr róðri til verstöðvanna hér á norðanverðum Vestfjörðum, og svipuðust þeir allir um eftir bátnum. Klukkan 21.15 fór varðskipið María Júlía frá Ísafirði til þess að leita að Trausta.
Bátarnir, sem voru út af Vestfjörðum, allt vestur að Blakk staðfestu, að þeir hefðu heyrt tilkynningu Slysavarnafélagsins Nokkrir bátar voru enn úti laust fyrir miðnætti að leita að Trausta, en Guðmundur Guðmundsson, formaður Slysavarnadeildarinnar á Ísafirði, tjáði Mbl, að hann hefði í kvöld talað við marga skipstjóra hér við Djúp, sem komnir voru að landi, og teldu þeir tilgangslítið að hefja almenna leit fyrr en með birtingu vegna þess hve aðstæður væru erfiðar, hvasst og mjög kalt. Var t.d. 12 stiga frost í Bolungarvík um kl. 23.00 í kvöld og spáð slæmu veðri í nótt. Um kl. 22.30 sagði Hilmir II, að veður væri eitthvað að skána, en 6-7 vindstig og sjór
Engar fregnir höfðu borizt af Trausta þegar bátarnir sem enn eru á sjó töluðu saman um klukkan hálfeitt í nótt. Þingeyrarradío heyrði til Trausta kl. 16,30 og sagðist hann þá vera búinn að draga 5 bala en þá slitið línuna og myndi láta vita kl. 19,30. Ólafur Friðbertsson frá Suðureyri var staddur um mílu, fyrr utan Trausta um þetta leyti og sagði að Guðný hefði fundið belg númer 5 frá Trausta og hefði þá Trausti farið að belgnum og dregið 4-5 bala en síðan ekki meir, því þá slitnaði línan. Um miðnætti voru nokkrir bátar enn að huga að Trausta og voru sex til sjö vindstig ANA og sögðu skipstjórar að frostið væri mjög mikið. Hilmir II frá Súðavík var kominn undir Barða til að berja af sér ís. Allir bátar frá Djúpi og Þingeyri, sem komnir voru að landi, hefja umfangsmikla leit að Trausta strax í nótt og voru sumir þegar farnir af stað um kl. eitt í nótt og aðrir voru að búa sig til brottfarar hið skjótasta. Er veður eitthvað að skána og skipstjórar segja að sæmilega bjart sé, 3-4 sjómílna skyggni allt út á 17 mílur.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1968.

         V.b. Trausti frá Súðavík talinn af

            Með honum fórust 4 menn

Vélbáturinn Trausti Í. S. 54 frá Súðavík er nú talinn af og leit hætt. Með m.b. Trausta fórust fjórir menn:
Jón Magnússon, skipstjóri, frá Ísafirði, 36 ára, ókvæntur, en lætur eftir sig eitt barn.
Jón Ólafsson, stýrimaður, frá Garðstöðum í Ögurhreppi, 33 ára, ókvæntur og barnlaus.
Halldór Rúnar Júlíusson, vélstjóri frá Súðavík 30 ára, lætur eftir sig konu og sex börn.
Eðvarð Guðleifsson, matsveinn, frá Súðavík, 45 ára, ókvæntur og barnlaus.
V/b. Trausti, sem var 40 lesta trébátur, fór í róður frá Súðavík á mánudagskvöld. Milli klukkan 16:30 og 17:00 á þriðjudag hafði m/ b Guðný frá Ísafirði samband við bátinn og var hann þá hættur að draga og á leið í land. Að öllu eðlilegu hefði báturinn átt að koma að landi um klukkan 23:00 á þriðju dagskvöld. Veður fór versnandi á miðunum fram eftir kvöldi og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist  ekkert samband við v/b Trausta. Leit að bátnum var hafin þegar um klukkan 21:00 á þriðjudagskvöld og var leitað bæði úr lofti og á sjó og landi þar til í gær. Um fimmtíu bátar og skip tóku þátt í leitinni, einnig tvær flugvélar, SIF, flugvél Landhelgisgæzlunnar, og flugvél Björns Pálssonar. Þá tóku hundruð manna þátt í leitinni á landi. Þessi umfangsmikla leit bar engan árangur og í gær var v/b Trausti talinn af.

Morgunblaðið. 17 febrúar 1968.

Flettingar í dag: 958
Gestir í dag: 50
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720855
Samtals gestir: 53526
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 14:05:20