11.03.2017 17:06

V. s. Ægir. LBCF / TFEA.

Varðskipið Ægir var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929. 497 brl. 1.300 ha. B&W díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 24 júní 1929. Skipið var endurbætt og breytt árið 1954. Skipið var selt í brotajárn til Englands og tekið af skrá í júlí árið 1968.


Varðskipið Ægir við komuna til landsins 14 júlí 1929.                                Ljósmyndari óþekktur.


Varðskipið Ægir.                                                              Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.


Ægir í smíðum hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929. Myndin er tekin þegar skipinu var gefið nafn við hátíðlega athöfn.                                                        (C) LHG.


Ægir við bryggju á Norðfirði árið 1958. Það er breski togarinn Cape Cleveland H 61 sem varðskipið tók í landhelgi út af Austfjörðum. Það má geta þess að sá togari fékk árið 1966 nafnið Ross Cleveland H 61. Togarinn fórst á Ísafjarðardjúpi 4 febrúar árið 1968.


Forsetaheimsókn Sveins Björnssonar til Norðfjarðar á Ægi sumarið 1944.   (C) Árni E Valdimarsson.


Varðskipið Ægir.                                                                     Ljósmyndari óþekktur.


Varðskipið Ægir. Líkan Sigurðar Jónssonar.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                Varðskipið Ægir

Skipið kom hingið úr smiðum sunnudaginn 14. júlí 1929 og færði með sjer þýskan togara ("Tyr"), er hann hafði tekið fyrir sunnan land. Skipherra er Einar Einarsson áður fyrsti stýrimaður á "Óðni". Mjög hefir verið vandað til skipsins og er það búið ýmsum björgunaráhöldum og knúð með Dieselvjel (mótor) hinni fyrstu í Íslensku skipi. Hinn 16. júli fór "Ægir" inn í Hvalfjarðarbotn með margt manna, sem dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hafði boðið í ferðina, sem var til þess farin að minnast heimkomu "Ægis" og kynnast honum. Á meðal gesta voru margir þingmenn, starfsmenn í Stjórnarráðinu, blaðamenn o. fl. Lúðraflokkur Reykjavíkur var með í förinni og skemti gestunum. Varðskipið leysti festar kl. 4,20 og var komið á ákvörðunarstað eftir réttar tvær stundir. Veður var hið fegursta, sól og heiður himinn, en siglingin inn Hvalfjörð er svo alkunn fyrir fegurð, að ekki þarf orðum að að eyða. Þegar "Ægir" var lagstur, skammt frá Geirshólma, voru veitingar fram bornar.
Undir borðum var sungið hið snjalla kvæði Þorsteins Gíslasonar, sem birt er hjer í blaðinu, en því næst bauð dómsmálaráðherra gestina velkomna, lýsti í fáum, ljósum dráttum baráttu Íslendinga fyrir því, að taka landhelgisgæsluna í sínar hendur, og mintist þeirrar miklu þýðingar, sem það hefði út á við, fyrir sjálfstæðsbaráttu þjóðarinnar, að Íslendingar ættu sjálfir og rækju strandgæsluskipin, sem sigldu undir Íslenskum fána, mönnuð Íslendingum.
Ráðherrann fór síðan nokkrum orðum um varðskipið nýja, hve á allan hátt var til þess vandað, svo að það uppfyllir allar þær kröfur, sem hægt er að gera til slíkra skipa nú á dögum. Skipið kvað hann hafa orðið dýrt, upp undir eina milljón króna; að vísu myndi skipið hafa orðið um 100 þús. kr. ódýrara, ef það hefði ekki verið smíðað sem mótorskip, en einmitt fyrir það mundi sparast mörg þúsund krónur á ári á rekstri þess. Ráðherrann þakkaði loks öllum þeim, sem lagt höfðu hönd að því að Ísland hefir eignast þetta vandaða varðskip. Var síðan drukkin skál "Ægis". Undir borðum mæltu og nokkur orð Magnús Torfason sýslum., forseti Sameinaðs Alþingis, og Karl Einarsson fyrv. sýslumaður.
Að snæðingi loknum hleypti skipstjóri af tveimur línubyssum, sem "Ægir" er útbúinn með, ef á hann er kallað til björgunarstarfsemi. Gestirnir skoðuðu skipið hátt og lágt, og Iuku menn lofsorði á það einum rómi, hve útbúnaður allur virtist fullkominn og skipið fagurt og vistlegt, ekki sist vistarverur skipshafnar, sem eru óvenjulega bjartar og rúmgóðar. Allmargir gestanna voru fluttir út í Geirshólma, og klifu upp á Hólmann. Að því loknu var haldið til Reykjavíkur aftur og komið þangað um miðnætti. Var förin að öllu leyti hin ánægjulegasta. "Ægir" er fallegt skip; er hann 170 feta langur, 29% fet á breidd, dýptin 17,5 og vjelin hefur 1300 hestaöfl. Skipið er hitað með rafmagni, hefur fullkomna miðunarstöð og hraðamæli af nýjustu gerð, sem er hið mesta þing. Auk þessa eru á skipnu tvær 75 cm. fallbyssur, tveir öflugir ljóskastarar, dráttaráhöld og dælur. Ættu þau björgunaráhöld að koma að góðum notum, þar sem staðhættir leyfa, að varðskipið geti nálgast svo strandað skip, að þeim verði komið við.

Ægir. Júlí 1929.

                   Sjóminjasafn

Svend Aage Malmberg haffræðingur ritar grein í Morgunblaðið í fyrri viku. Þar leggur hann til að varðskipið Ægir verði ekki selt til niðurrifs, eins og nú mun fyrirhugað, heldur varðveitt sem safngripur  á sérstöku sjóminjasafni. "Ægir yrði þannig fyrsti vísir að sérstöku sjóminjasafni á Íslandi og mundi vonandi efla áframhaldandi myndun sjóminjasafns á breiðum grundvelli. Slíkt safn gæti svo verið sem deild í Þjóðminjasafni Íslands eða sem borgarsafn í Beykjavík" segir greinarhöfundur. Hér er hreyft mjög athyglisverðu máli sem áreiðanlega er vert að gefa fyllsta gaum.
Sæferðaþjóð eins og Íslendingar þarf auðvitað að eiga sjóminjasafn, þar sem varðveittar séu minjar um Íslenzka sjómennsku frá ýmsum tímum. Auk veiðarfæra og annarra tækja er að sjómennsku lúta þyrfti að varð veita á slíku safni, skip frá ýmsum tímabilum Íslenzkrar sjóferðasögu, helzt í heilu líki, en að öðrum kosti smækkuð líkön. Slík söfn eru til í öðrum löndum, og það væri meira en æskilegt að unnt reyndist að koma slíku safni á fót hér. Hugmyndir um stofnun sérstaks sjóminjasafns hafa oft komið fram áður, þótt ekki hafi orðið af framkvæmdum.
En hinu má þó ekki gleyma að sjóminjar alls konar sem heima ættu á sjóminjasafni, eru til víðs vegar um land í góðri varðveizlu. Á Þjóðminjasafni er sjóminjadeild, og byggðasöfn víðs vegar um land eiga álitlegt safn sjóminja, sérstaklega þá byggðasöfnin á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Ýmis gömul skip og skipagerðir hafa verið tekin til varðveizlu, norður í Hrútafirði er hákarlaskipið Ófeigur geymt í sérstöku húsi, austur að Skógum er Péturseyjan varðveitt, vestur á Ísafirði er geymdur áttæringur í gömlum stíl. Í Þjóðminjasafninu er bátur með Engeyjarlagi; og fleiri skip hafa verið tekin til varðveizlu, þótt þeirra sé ekki hér getið. Talsverð uppistaða að sjóminjasafni er sem sagt til í landinu, en dreifð út um allt. Væru allar sjóminjar, bæði lausamunir og skip, komnar í einn stað væri það merkilegt safn, þótt auðivtað þyrfti miklu við það að auka til þess að það yrði fullkomið.
Af skiljanlegum ástæðum hefur einkum verið lagt kapp á að varðveita smærri skip, opna báta af ýmsuni gerðum, en minna hugsað um stærri skip frá síðari tímum, enda er varðveizla þeirra mikli meiri vandkvæðum bundin. Líkön munu þó víða vera til af slíkum skipum, og bætir það nokkuð úr skák, en auðvitað væri æskilegt að einhver slík skip væru líka varðveitt í heilu lagi. Gömlu togararnir frá því fyrir stríð munu nú allir horfnir úr sögunni, og er skaði að enginn þeirra skyldi vera varðveiltur til minja, jafnmikill þáttur Íslenzkrar útgerðarsögu og þeir voru. Við verðum að gæta þess að nýsköpunartogararnir fari ekki allir sömu leiðina, heldur taka einhvern þeirra til varðveizlu, meðan tími er enn til og auðvitað mundi varðskipið Ægir líka sóma sér vel á safni, bæði vegna sögu sinnar og gerðar.

Alþýðublaðið. 26 mars 1968.
Kjallaragrein. Svend Aage Malmberg.
                    Haffræðingur.

Flettingar í dag: 70
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 975
Gestir í gær: 205
Samtals flettingar: 1535661
Samtals gestir: 414776
Tölur uppfærðar: 16.9.2019 01:58:44