29.03.2017 13:55

Hamóna ÍS 29. TFHL.

Hamóna ÍS 29 var smíðuð í Nova Scotia í Kanada árið 1922. Eik og fura. 173 brl. 60 ha. hjálparvél. Hún var smíðuð sem tveggja mastra skonnorta. Hamóna var lúðuveiðari með amerísku bermudastórsegli og mikill siglari áður en hún var keypt til landsins. Eigandi var Anton Proppé útgerðar og kaupmaður á Þingeyri frá aprílmánuði árið 1941. Kom til landsins í maí sama ár. Nýjar vélar (1941) 2 x 120 ha. Atlantic díesel vélar. 7 nóvember 1942 er h/f Gláma á Þingeyri eigandi skipsins. Hamóna rak á land rétt innan við Þingeyri í óveðri, 17 desember 1945 og eyðilagðist. Skipið var svo rifið þar í fjörunni, en stýrishúsið sem var sett á skipið í mikilli viðgerð og endurbótum í Reykjavík árið 1941 var svo notað lengi sem flugskýli á flugvellinum á Þingeyri.


Hamóna ÍS 29 eftir breytingarnar í Reykjavík 1941.                                     Ljósmyndari óþekktur.


Hamóna eins og hún leit út í upphafi.                                                  (C) Jón Rafn Jóhannsson.

                Hamóna ÍS 29  

Anton Proppé var athafnasamur maður á stríðsárunum. Árið 1941 skellti hann sér til Kanada og festi þar kaup á gamalli seglskútu, 170 brúttótonn að stærð. Fékk hún nafnið Hamóna ÍS 29. Hamóna var rennileg tvímastra skonnorta, smíðuð árið 1922, með 60 hestafla hjálparvél. Skipstjóri var Kristján Ebenesarson frá Flateyri, seglaskipstjóri á heimferðinni frá Kanada var Jón Guðmundur Ólafsson frá Patreksfirði og vélstjóri var Þórður J Magnússon frá Flateyri.
Mamóna kom til landsins í maí 1941 og var næstu mánuði í siglingum með ísaðan fisk til Englands og vöruflutningum innanlands fyrir ameríska herinn sem þá var nýkominn til landsins. Um haustið var hún tekin í slipp í Reykjavík til viðgerðar og breytinga. Settar voru í skipið tvær nýjar 120 hestafla vélar og stýrishús byggt. Þótti mörgum að virðuleiki skipsins færi þar með. Breytingarnar tóku heilt ár. Hamóna var eftir það í flutningum til stríðsloka. Þá reyndi hún fyrir sér á síldveiðum sumarið 1945. Endalok Hamónu urðu þau að skipið rak á land innan við Þingeyri í stórviðri 17 desember 1945 og var rifin þar í fjörunni. Í sama veðri enduðu líka daga sína vélbátarnir Glaður og Venus frá Þingeyri. Stýrishúsið á Hamónu átti sér þó annað líf. Það þjónaði lengi sem flugskýli á Þingeyrarflugvelli, þar sem séra Stefán Eggertsson sá um stjórnina. Flugskýlið er nú komið á Samgöngusafnið á Hnjóti í Örlygshöfn í Patreksfirði og sómir sér þar vel.

Saga verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum.

                 Dýrafjörður

Einn vélbátur stundar handfæraveiðar þaðan og hefir aflað vel, en smábátaaflinn á þær 12 trillur, er þaðan stunda veiðar, flestar með handfæri, hefir verið í tæpu meðallagi. Tvö skip frá Þingeyri hafa lengstum verið við ísfiskflutninga í vetur og vor, en stunda nú síldveiði. Nýlega hefir eitt 160 rúml. skip bætzt við flotann á Þingeyri, en það er skonnortan "Hamóna", sem Anton Proppé keypti í vetur frá Ameríku. Hefir skip þetta farið eina ferð með ísfisk til Englands.

Ægir. 1 júlí 1941.


Flettingar í dag: 440
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 455
Gestir í gær: 139
Samtals flettingar: 1868022
Samtals gestir: 480278
Tölur uppfærðar: 4.6.2020 10:54:17