01.04.2017 10:54

B. v. Askur RE 33. TFND.

Askur RE 33 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Ask h/f í Reykjavík. 657 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 718. Skipið var selt 24 febrúar 1961, Síldar og fiskimjölsverksmiðjunni h/f í Reykjavík, sama nafn og númer. Togarinn var seldur í brotajárn til Belgíu og tekinn af skrá 2 júlí árið 1969.


19. Askur RE 33 með trollið á síðunni.                                              (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Askur RE 33.                                                             (C) Úr safni Hafliða Óskarssonar á Húsavík.


Askur RE 33 á leið í slipp í Reykjavík.                                                     (C) Ingi Rúnar Árnason.


Askur eftir ásiglingu Víkings í september 1964.                                       (C) Ingi Rúnar Árnason.


Í brúnni á Ask eftir áreksturinn.                                                                (C) Ingi Rúnar Árnason.


Togararnir Askur RE 33 og Geir RE 241 dregnir utan í brotajárn 1969.            Ljósmyndari óþekktur.

   Nýsköpunartogarinn Askur kom í gær

Þrettándi nýsköpunartogarinn kom til Reykjavíkur í gærmorgun. Togari þessi heitir Askur, eign samnefnds hlutafjelags hjer í bænum. Askur er byggður í Aberdeen og er hann af sömu gerð og Egill rauði. Skipstjóri á Ask er Karl Jónsson, fyrsti stýrimaður Helgi Ársælsson og fyrsti vjelstjóri S. Andersen. Askur fer væntanlega á veiðar n.k. þriðjudag. Eins og fyrr segir, þá eru nú komnir til landsins 13 nýsköpunartogarar. Von er á þeim fjórtánda innan skamms. Er það Júlí eign Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Togarinn fór í reynsluför þann 4. nóv. s.l. og gekk sú ferð að óskum.
Í næsta mánuði er von á Ísólfi, togara Seyðisfjarðar, Goðanesi eign Neskaupstaðar og Neptúnus hlutafjelagsins Júpíter í Hafnarfirði, Neptúnus verður stærstur nýsköpunartogaranna, sem koma á þessu ári. Um næstkomandi áramót verða því nýsköpunartogarar landsmanna orðnir 17 að tölu.

Morgunblaðið. 8 nóvember 1947.

      Togararnir Askur og Víkingur í árekstri                á Jónsmiðum

         Sólin var aðalástæðan fyrir árekstrinum

Sólin var aðalástæðan fyrir árekstrinum, og b/v Askur kom beint úr sólarátt, sagði Hans Ragnar Sigurjónsson, skipstjóri á b/v Víking Ak 100, sem lenti í árekstri við b/v Ask RE 33, á Jónsmiðum við Austur-Grænland. Togararnir komu inn til Reykjavíkur um miðnætti í gær og sjóréttarpróf hófust á skrifstofu Borgardómara í morgun. Dómforseti var Valgarður Kristjásson, en meðdómendur Eiríkur Kristófersson og Sigmundur Sigmundsson.
Sjóréttarprófin hófust klukkan 10 í morgun. Fyrst komu fyrir réttinn Hans Ragnar Sigurjónsson, skipstjóri á b/v Víking. Hans skýrði m. a. svo frá: "Ég tel sólskin vera aðalástæðuna fyrir árekstrinum. Askur kom úr sólarátt frá Víking og sá ég ekki togarann fyrr en mjög lítið bil var á milli skipanna". Aðspurður um það, hvort hægt hefði verið að forða árekstri, svaraði Hans: "Ég tel miklar líkur til, að hægt hefði verið að komast hjá árekstri, ef b/v Askur hefði haldið ferð sinni áfram, í stað þess að stöðva". Hans Ragnar sagði, að Askur hefði verið á veiðum á svipuðum slóðum og hann, Askur hefði togað í suður en Víkingur í norður. Þegar Víkingur hefði hætt að toga, hefði hann og stýrimaðurinn gætt að Aski, en hvergi séð hann og sagðist Hans hafa álitið að Askur hefði farið af miðunum. Sagði Hans að þeir hefðu verið búnir að "kippa" í ca. 10 min., þegar þeir urðu varir við Ask. Hans Ragnar var sjálfur allan tímann í brúnni og háseti með honum, sem var við stýrið. Sagði skipstjórinn að hann hefði heyrt flaut frá Ask, en þá hefði mest verið um tvö hundruð metra bil á milli togaranna. Þegar fréttamaður Vísis yfirgaf sjóréttinn í morgun, var Hans Ragnar enn fyrir rétti. Næstur átti að koma fyrir sjóréttinn skipstjórinn á Aski, Arinbjörn Sigurðsson. Skemmdir á togurunum hafa ekki verið kannaðar að fullu, en mjög litlar skemmdir urðu á Víkingi, en hann heldur á veiðar í kvöld. B.v. Askur skemmdist töluvert á bakborðshlið og brú.

Vísir. 18 september 1964.

Flettingar í dag: 667
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723332
Samtals gestir: 53672
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 23:28:56