12.04.2017 12:32

2 m. Kt. Skarphéðinn GK 11. LBTF.

Kútter Skarphéðinn var smíðaður hjá George & Thomas Smith í Rye á Englandi árið 1885 fyrir H. Berkeman í Grimsby, hét fyrst James Spurgeon GY 1017. Eik. 82 brl. Seldur W. Empson í Grimsby, sama nafn og númer. Seldur 1894, W.M. & Staples í Grimsby, sama nafn áfram. Seldur í júlí 1897, Jóni Jónssyni útvegsbónda í Melshúsum á Seltjarnarnesi, fékk nafnið Skarphéðinn. Fékk svo skráninguna GK 11 um árið 1905. Seldur árið 1916, Hans Pauli Mortensen í Trangisvaag í Færeyjum, hét þar Skarpheðin TG 594. Seldur 1931, N. Niclasen í Saurvogi í Færeyjum, hét Skarpheðin VA 1. Árið 1931 var sett 61 ha. vél í skipið. Seldur árið 1947, Júst í Túni, (J. Hansen), Tóftum í Færeyjum, hét Höganes FD 5. Skipið var endurbyggt árið 1950, mældist þá 91 brl. Ný vél (1950) 119 ha. Seldur 1953, D.P. Höjgaard í Tóftum. Ný vél (1966) 200 ha, 147 Kw. Seldur 1969, J.J. Johannessen í Lamba, Færeyjum. Höganes kemst í eigu Áhugafélags um varðveislu gamalla skipa í Rúnavík um 1985-90. Höganes sökk við bryggju í Rúnavík (held ég) árið 2010 eða 2011. Hef ekki upplýsingar um hvort skipið hafi verið gert upp eða það rifið.

Skarpheðin TG 594, ex Skarphéðinn GK 11 á Trangisvogi í Færeyjum.                   (C) Vagaskip.dk.


Skarpheðin VA 1 í Saurvogi í Færeyjum.                                                           (C) Vagaskip.dk.


Höganes FD 5. Búið að byggja yfir skipið.                                                     (C) Svein Thomsen.


Höganes FD 5 komið á land.                                                                            (C) Svein Thomsen.


Höganes FD 5 eins og hann leit út árið 2009.                                                    (C) Regin Torkilsson.


                "Skarphéðinn"

Hinn 9. dag júnímánaðar 1898 var jeg staddur niður í svonefndu Bryggjuhúsi í Reykjavík. Kallaði þá til mín Jón Jónsson bóndi og útgerðarmaður í Melshúsum á Seltjarnarnesi og spyr, hvort jeg ekki vilji koma með sjer út í Flóann og vera túlkur sinn, þar sem hið nýkeypta skip sitt "Skarphéðinn" hefði komið svo seint, að engin tök væru að gera það út, en nú væri tækifæri að fá fisk hjá togurum, sem hirtu ekki annað en kola og smáfisk , en fleygðu þorski og öðrum verðmætum fiski til enn meiri eyðileggingar á fiskimiðum, en vörpudráttur þeirra gerði. Eg var til í þetta og sama kvöld steig ég á skip. Að mig minnir vorum við 9 á skipinu, Jón í Melshúsum skipstjórinn, Björn Ólafsson skipstjóri, þá sprækur unglingur, Þórður gamli í Gróttu, Sigurður Jón Jónsson bróðir Jóns í Melshúsunm, ungur sonur hans Jón, 3 menn að austan og ég. Sigurður var sjógarpur mikill og lagði hann til sexmannafar sitt í ferðina og var það haft í eftirdragi.
Átti að hafa það til að flytja fisk, sem við kynnum að fá úr þeim togurum, sem vildu skifta við okkur. Verslunarvara þennan "túr" var 2 kassar af whisky, 50 bjórar og tvö hvít gæruskinn og salt var í framrúmi . Við sigldum svo sem leið lá út að togaraflotanum og kölluðum við til sumra og rerum sexmannafarinu til annara, en áragnurslaust; allir höfðu viðskifti við vissa menn og vildu ekki sinna okkur. Þetta var á "Sviðinu". Nú leist okkur ekki á og héldum suður á bóginn, Þar hittum við togara og var ég sendur út í hann, hitti þar ruddastýrimann, sem vart ætlaði að hleypa mjer upp í skipið. Eg spurði eftir skipstjóranum og tjáði stýrimaður mjer, að hann væri á útreiðatúr í Keflavík. í þessum svifum kom íslendingur, sem ég þekti, upp úr káetu og sagði mjer, að þýðingarlaust væri fyrir okkur að reyna að fá viðskiftamenn, því öll skipin væru lofuð.
Hann bauð mér niður og þar hitti ég fleiri landa, sem allir voru í verslunarviðskiftum, en munu hafa haldið heilagt þennan dag. Þeir fullyrtu allir, að engin tök mundu vera fyrir okkur að ná viðskiftum. Aðfaranótt 12. júní kvesti og héldum við skipinu norður eftir. Höfðu þá margir togarar haldið í skjól upp að landi. Á "Sviðinu" hittum við enskan togara, sem hét "Alice", en gátum ekki komist svo nærri, að við gætum haft tal af skipverjum. Þótti Jóni skipstjóra þetta leitt og varð það úr, að sexmannafarið var mannað og er sá enski sá það, stöðvaði hann skip sitt, en er við komum á hléborða við hann, var svo illt í sjóinn, að skipið saup á. Einhvern veginn komst ég upp í það og bað Sigurð formann að skilja mig eftir þar til lygndi og fór hann aftur út í "Skarphéðinn". Í brjóstvasanum hafði ég eina flösku af whisky og með hana óbrotna komst ég upp á stjórnpall, heilsaði upp á skipstjóra og spurði hann hvort ekki væru tök á, að fá hjá honum fisk. Hann spurði mig þá hvort ég hefði nokkuð meðferðis. Dró ég þá upp flöskuna og varð hann feginn að fá í staupinu.
Þessi skipstjóri lofaði að hafa aðeins viðskifti við okkur og stóð við það. Þegar lygndi fór hann að toga og tvær ferðir var farið að sækja fisk á sexmannafarinu og síðan farið að gera að og salta. Við vorum ávalt í námunda við skipið í rúma viku og var farið að ganga á forðann, bjórinn búinn, lítið eftir af whisky og gæruskinnin farin, en fallegur stafli var kominn í lestina. Jón í Melshúsum ákvað þá að sigla heim og afla meiri gjaldeyris, en sökum þess að allt varð að varast og búast mátti við að einhver kæmi og tæki frá okkur skipið, þá fór ég út í það með það whisky, sem eftir var og sagði skipstjóra að ég ætlaði að verða hjá honum á meðan skip okkar færi inn. Lét hann sér það vel líka og fékk ég þar bæði rúm og mat. Fyrstu nóttina, sem ég var þar, rifu þeir vörpuna í grjóti, svo lítið var um afla, síðan tók að hvessa ,og í tvo daga sáum við ekkert til "Skarphéðins".
Þegar loks við sáum hann, var farið að lygna og brátt fórum við að fá fisk. Á þriðju viku vorum við með togara þessum, en þá þótti Jóni skipstjóra orðið það áliðið vegna sláttar, að hann hætti, en síðasta daginn talaðist svo til, að skipstjóri lánaði Jóni togarann, en hélt til seinni part dags og nóttina hjá okkur á "Skarphéðni". Sagði hann mér, að hann hefði verið stýrimaður á honum í 2 ár, meðan hann var bresk eign og hét "James Spurgeon". Jón í Melshúsum hvarf okkur brátt sýn, en enski skipstjórinn vildi sigla "Skarphéðni" og vorum við að sigla fram og aftur alla nóttina. Undir morgun kom "Alice" með mikinn fisk á þilfari; fluttum við hann í "Skarphéðinn", kvöddum skipshöfnina ensku og þökkuðum fyrir samvinnuna. Afli okkar varð alls um 11 þús. fiskar, sem öllu hefði verið fleygt, hefðum við ekki hirt. Nokkru eftir þetta voru Íslendingar sektaðir fyrir að fara út í togara og meðal þeirra ríkur bóndi suður með sjó. Nágrannar hans, sem til hans komu, vottuðu honum samhryggð sína út af þessu óhappi, en þá sýndi hann þeim inn í fiskhús sín, sem voru full af togarafiski, og sagði: "Sektin var 40 krónur; þykir ykkur ekki fiskurinn slaga nokkuð upp í það?" Sigurður Jónsson, bróðir Jóns í Melshúsum, hafði aldrei verið á þilskipi er hann fór þessa ferð með "Skarphéðni". Skömmu síðar réðist hann á fiskiskipið "Komet" ásamt Jóni syni sínum. Það skip fórst í ofsaveðri og drukknuðu þar báðir. "Skarphéðinn" var hér á veiðum í fjölda mörg ár og þótti ávalt gæða skip. Hann var seldur til Færeyja á stríðsárunum. í vor, er hann var hér, skrapp ég út að honum, virti hann fyrir mér og mintist þeirra daga, er ég var með Jóni sáluga í Melshúsum. Allt virtist í sömu skorðum og var þá. Eg spurði Færeying, hvernig þeim líkaði við skipið. Hann svaraði: " Það er bezta skipið, sem haldið er úti frá Færeyjum". "Skarphéðinn" er nú 41 árs gamall, smíðaður í Rye 1885.

Ægir. 8 tbl. 1926.
Sveinbjörn Egilsson.
14 ágúst 1926.

Flettingar í dag: 188
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 988
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1540252
Samtals gestir: 415876
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 04:31:41