17.04.2017 11:19

Þórður Sveinsson GK 373. TFIL.

Vélskipið Þórður Sveinsson GK 373 var smíðaður í Sunde í Noregi árið 1938. Eik og fura. 111 brl. 220 ha. Union vél. Eigandi var Sameignarfélagið Jarlinn ( Óskar Halldórsson og fl.) Kothúsum í Garði, Gullbringusýslu frá 30 maí 1941. Skipið strandaði við Arnarstapa á Snæfellsnesi 25 nóvember árið 1942. Áhöfnin, 7 menn og einn farþegi bjargaðist í land á skipsbátnum. Skipið eyðilagðist á strandstað. Þórður var þá í leigu hjá Bandaríkjaher.


Þórður Sveinsson GK 373.                                                                         (C) Sigurjón Vigfússon.

Þórður Sveinsson GK strandar við Snæfellsnes
              Ólíklegt þykir að skipinu verði bjargað

Í gærkveldi strandaði Þórður Sveinsson við Snæfellsnes. Mannbjörg varð en einn maður fótbrotnaði og annar meiddist eitthvað minna. Vísir leitaði upplýsinga um þetta hjá Óskari Halldórssyni í morgun.
Óskar Halldórsson útgerðarmaður skipsins átti símtal við símstöðvarstjórann á Arnarstapa í morgun og sagðist honum svo frá:
Í gærkveldi kl. 10 varð vart við það á bæ talsvert vestan við Arnarstapa, að skip var strandað á svokölluðu Hellnaplássi. Þarna eru há klettabjörg og ekki hægt að komast að strandstaðnum úr landi, en undir björgunum er stórgrýtisurð, þar sem skipið liggur. Logn var á, en mikið dimmviðri og myrkur, og haugasjór, og vissu menn ekki hvaða skip þetta var, þar sem ekki var unnt að komast nærri því á landi. Frá bænum var strax tilkynnt til símstöðvarinnar á Arnarstapa um strandið, og náðist samband um Stykkishólm við Slysavarnafélagið og var því tilkynnt strandið, en því tókst ekki í nótt að ná sambandi við Ægi eða Óðin til þess að fá þau til að fara á strandstaðinn. Frá Arnarstapa var skotið út smábáti til þess að fara út í skipið, en vegna brims komst hann ekki að skipinu, sem sjórinn gekk yfir. Og sást ekki, hvort skipsmenn voru enn á skipsfjöl eða ekki. Fór báturinn við svo búið í land aftur, en síðar um nóttina fór hann aðra ferð og hafði þá með sér ljós, til þess að skipsmenn gæti séð til þeirra, en þeir héldu þá enn vera í skipinu.
Þegar báturinn kom að strandstaðnum, kom skipshöfn Þórðar Sveinssonar, 8 menn, til þeirra í björgunarbát skipsins, en þeir höfðu séð Ijósið í litla bátnum. Hafði skipshöfnin við illan leik komizt í björgunarbátinn skömmu eftir strandið og haldið sig rétt utan við strandstaðinn, til að bíða birtingar, þar sem þeir vissu ekki hvernig staðhættir voru þarna og mikið brim var á. Í morgun um klukkan 6 kom skipshöfnin til Arnarstapa á skipsbátnum og hafði umsjónarmaður farmsins, sem er útlendingur, fótbrotnað, og var von á lækni frá Stykkishólmi kl. 1-2 í dag til þess að gera við sár hans. Skipshöfnin var orðin þjökuð af volkinu og svaf í morgun í húsi skammt frá stöðinni, þegar símstjórinn átti tal við Óskar Halldórsson. Skýrði hann svo frá, að enn væri svartaþoka, svo ekki sæist milli húsa, en logn og talsvert mikið brim, og væri ekki hægt að sjá hvað skipinu liði. Taldi hann óliklegt, þótti,hann vildi ekki fullyrða það, að skipinu yrði bjargað, þar sem strandstaðurinn væri slæmur og brim mikið, svo að skipið mundi brotna.
M/s. Þórður Sveinsson er 111 smálestir að stærð, tæplega 4 ára gamall, gott og fallegt skip, útbúið með miðunarstöð og dýptarmæli. Skipið er eign Óskars Halldórssonar h/f. o.fl. 

Vísir 26 nóvember 1942.

Flettingar í dag: 1677
Gestir í dag: 321
Flettingar í gær: 687
Gestir í gær: 260
Samtals flettingar: 1861756
Samtals gestir: 478893
Tölur uppfærðar: 27.5.2020 20:55:05