14.05.2017 10:13

Hólmsteinn ÍS 155.

Hólmsteinn ÍS 155 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Brenharðssonar á Ísafirði árið 1940. Eik og fura. 15 brl. 44 ha. Kelvin díesel vél. Eigandi bátsins var h/f Kaldbakur á Þingeyri frá 16 nóvember sama ár. Hólmsteinn var skotinn niður af þýska kafbátnum U-204 um 30 sjómílur út af Deild 31 maí árið 1941. Áhöfnin, 4 menn fórust í þessari fólskulegu árás. Kafbátsmönnum hefndist stuttu síðar fyrir þetta níðingsverk.


Hólmsteinn ÍS 155.                                                               (C) Jón Bjarnason. Mynd úr safni mínu.

                    Nýr vélbátur

Í þessari viku hljóp af stokkunum í skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar hér á Ísaflrði nýr vélbátur, Hólmsteinn að nafni, 14,03 smálestir. Báturinn er úr eik og með sama lagi og Ðísirnar og Páll Pálsson frá Hnífsdal. Í bátnum er ensk vélartegund, og heitir hún Kelvin. Eigandi þessa báts er nýtt hlutafélag á Þingeyri í Dýraflrði. Það heitir Kaldbakur. Í stjórn þess eru Edvard Proppé, Matthías Guðmundsson vélaverkfræðingur og Óskar Jóhannesson hreppstjóri, sem gekkst fyrir stofnun félagsins og er formaður stjórnarinnar. Skipstjóri á bátnum verður Björn Jónsson frá Þingeyri, Jóhannssonar.
Báturinn er heitinn eftir Jóni Hólmsteini Guðmundssyni, lengi bónda á Granda í Brekkudal, föður Guðmundar, sem nú er skipstjóri á e. s. Eddu. Jón Hólmsteinn var lengi skipstjóri á seglskipum frá Þingeyri, aflamaður í bezta lagi og stjórnandi ágætur. Hann var. lengst skipstjóri á skonnortunni Phönix, sem áður hét Rósamunda, en það skip hafði einkennisbókstafína ÍS 155, og
hefir Hólmsteinn hlotið þá í arf. Hólmsteinn er hin fríðasta og vandaðasta fleyta, og er þess að vænta, að honum fylgi gæfa og gengi svo sem nafna hans Jóni Hólmsteini. Færi betur, að Dýrflrðingar gætu sem fyrst bætt við sig svo sem tveimur, þremur bátum af svipaðri stærð og þessi er og ekki síður vönduðum að allri gerð.

Skutull. 16 nóvember 1940.

       Óttast um bát með 4 mönnum

"Vjelbáturinn "Hólmsteinn", 14 smálestir að stærð, réri frá Þingeyri s.l. föstudag, en hefir ekki komið fram síðan, og er farið að óttast um afdrif bátsins og fjögra manna, sem á honum voru. Veður var hið besta fyrir Vesturlandi þangað til í gær, að nokkuð hvesti og komst vindurinn upp í 6-7 vindstig, og er því næsta óskiljanlegt, hvað orðið hefir að hjá bátnum. Vjelbátur frá Þingeyri fór að leita ,,Hólmsteins" á hvítasunnudag. Fundu bátverjar 6 bjóð af lóð ,,Hólmsteins", en hann var alls með 14 bjóð. Slysavarnafjelagið hefir beðið skip að svipast um eftir bátnum, en hann hefir ekki fundist. Flugvjelin Haförnin ætlaði kl. 3 í nótt til að leita bátsins.

Morgunblaðið. 4 júní 1941.

     Hólmsteinn ÍS 155 skotinn niður

Föstudaginn 30.maí 1941 fór Hólmsteinn í hefðbundinn róður út af Vestfjörðum. Um borð voru fjórir þaulvanir sjómenn og veður hið ákjósanlegasta til fiskveiða á miðunum vestur af Dýrafirði. Síðan spurðist ekkert til Hólmsteins né áhafnarinnar og í landi var fólk farið að óttast um hann. Bátur var þá sendur frá Þingeyri til leitar ásamt varðskipinu Óðni. Einnig leitaði flugvél (Haförninn) á stóru svæði, en ekkert fannst nema 6 bjóð. Þann 5 júní fann síðan vélbáturinn Kveldúlfur frá Hnífsdal tvo tóma lóðastampa (hálftunnur) um 28 sjómílur NV af Deild.(beint út af Dýrafirði) og talið var víst að lóðastamparnir væru frá Hólmsteini komnir.
Það vakti athygli manna að lóðastamparnir frá Hólmsteini vor með kúlnagötum, auk þess sem í þeim fannst sprengjubrot sem benti til þess að skipverjar á Hólmsteini hefðu lent í skothríð. Það var hald manna að Hólmsteinn hafi óvart lent á átakasvæði Þýskra og Breskra herskipa sem börðust nú um yfirráðin yfir Atlantshafi.
Hólmsteinn hafði verið við fiskveiðar út af Dýrafirði í sæmilegu veðri þegar Walter Kell foringi á kafbátnum U-204 varð var við Vb.Hólmstein. Um kl 5:15 um morguninn (31.maí) kom kafbáturinn úr kafi og réðst á fiskibátinn fyrirvaralaust með vélbyssu og sökkti honum. Stóð árásin í um klukkustund. Í árásinni fórust einnig skipverjarnir fjórir.
Hólmsteinn var fyrsta fórnarlamb Walter Kell á kafbátnum U-204. Erfitt er að glöggva sig á hvað Walter gekk til með að ráðast á svo lítilfjörlega bráð sem augljóslega hafði engan tilgang og hafði í raun ekkert með gang styrjaldarinnar að gera. Hinsvegar höfðu þjóðverjar lýst því yfir að N-Atlantshafið væri ófriðarsvæði og að öll skip og bátar sem þar færu um væru lögmæt skotmörk.
Skipverjar á Hólmsteini voru:
Ásgeir Sigurðsson formaður frá Bolungarvík, Níels Guðmundsson, Helgi Jóhannsson og Guðmundur Kristjánsson, allir frá Þingeyri.
Vélbáturinn Hólmsteinn ÍS 155 var 14 tonna eikarbátur, gerður út frá Þingeyri vorið 1941. Eigandi var Kaldbakur hf.
Walter Kell var fæddur 14.desember 1913. Hann fórst með kafbátnum U-204 þann 19 oktober 1941 þegar honum var sökkt af korvettunni  HMS Mallow.

Sagnabrunnurinn. 10 júlí 2010.


Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392289
Samtals gestir: 622010
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 14:04:29