15.05.2017 06:27

745. Gunnbjörn ÍS 18. TFGH.

Gunnbjörn ÍS 18 var smíðaður í Gautaborg í Svíþjóð árið 1929. Eik og fura. 46 brl. 90 ha. Ellwe vél. Eigendur voru Guðmundur Kr Guðmundsson og fl. á Ísafirði frá 21 desember árið 1929. 3 nóvember 1943 var Samvinnufélag Ísfirðinga Ísafirði skráður eigandi skipsins. Ný vél (1945) 120 ha. Ruston díesel vél. Báturinn var seldur haustið 1955, Karli Stefánssyni og Hjálmari Gunnarssyni á Grundarfirði, hét Sigurfari SH 105. Ný vél (1958) 200 ha. Lister díesel vél,(árgerð 1949). Árið 1961 mældist báturinn 45 brl. ný vél (1963) 220 ha. Caterpillar díesel vél. 2 desember voru Hjálmar Gunnarsson og Jenný Ásmundsdóttir í Grundarfirði skráðir eigendur. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 ágúst árið 1981. Var þá búinn að liggja í reyðileysi í um 4 ár.


Gunnbjörn ÍS 18.                                                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.

             Gunnbjörn ÍS kominn

M.b. Gunnbjörn kom hingað á miðvikudagsmorgun eftir fjögurra sólarhringa ferð frá Færeyjum. Þangað var hann þrjá sólarhringa frá Svíþjóð. Í Norðursjónum hreppti hann fárviðri, en allt gekk slysalaust. Eru nú bátar samvinnufelagsmanna orðnir 7.

Skutull. 16 desember 1929.

     Samvinnufélag Ísfirðinga Ísafirði

Samvinnufélag Ísfirðinga tók til starfa nú um áramótin. Félagið var formlega stofnað og lög þess samþykt i árslok 1927. Var síðan sótt til Alþingis um að ríkisstjórninni heimilaðist, að ábyrgjast allt að 4/5 kaupverðs báts hvers, er félagið hafði sett sér að markmiði að útvega félagsmönnum. Ábyrgðarheimild sú, er Alþingi samþykti í þessu skyni, nam allt að 320 þús. kr. Jafnfram var áskilið, að Ísafjarðarkaupstaður væri á undan ríkissjóði í nefndri ábyrgð, svo og að sjálfsögðu eigendur hvers skips, og að lokum skipin sjálf með 1. veðrétti. Eigendur hafa lagt til 1/5 hluta kaupverðs, svo ábyrgðin er ekki nema fyrir 4/5 verðsins, eins og áður segir. Bátarnir, sem keyptir hafa verið eru 5, smíðaðir í Risör í Noregi, með Elve vélum. Bátarnir komu hingað um og eftir áramótin. Þeir eru rúmlega 40 smálestir með 90 hesta vélum, lagleg skip og rúmgóð.
Þeir heita Ásbjörn, Ísbjörn, Sæbjörn, Valbjörn og Vébjörn. Eigendur bátanna eru fyrst og fremst skipstjórar þeirra, hvors um sig, og fleiri og færri menn í félagi með þeim. Hvert bátsfélag er sérstök og sjálfstæð deild innan Samvinnufélagsins, þannig að hvert bátsfélag ábyrgist einungis skuldbindingar sínar, nema að því leyti sem viðskiftin við Samvinnufélagið snertir. Bátarnir hafa reynst nokkuð dýrari en áætlað var í fyrstu, en ekki svo að ábyrgðarheimild Alþingis sé tæmd með þessum 5 bátum. Býst ég ekki við að aukið verði við fleiri bátum fyrst um sinn. Aðallánin til bátskaupanna eru fengin erlendis með góðum lánskjörum. Því hefir verið fleygt, að Alþingi hafi sýnt gáleysi með nefndri ábyrgð. En þegar þess er gætt að Ísafjarðarkaupstaður, eigendur skipanna, auk 1. veðréttar í skipunum, ganga á undan ábyrgð ríkissjóðs, þá verður ekki með sanngirni sagt, að Alþingi hafi sýnt óvarkárni í þessu efni. Að öðru leyti verður reynslan og framtíðin að sýna hvernig þessu reiðir af. Kreppur og erfið ár geta öllu grandað, þótt í aðalatriðum sé stefnt í rétta átt.

Ísafirði, 19. janúar 1929. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum.

Ægir. 19 janúar 1929.

Flettingar í dag: 788
Gestir í dag: 364
Flettingar í gær: 1213
Gestir í gær: 485
Samtals flettingar: 2398553
Samtals gestir: 624722
Tölur uppfærðar: 28.9.2021 12:53:40