17.05.2017 06:20

B. v. Kaldbakur EA 1. TFBC.

Í dag eru 70 ár frá komu fyrsta Nýsköpunartogara Akureyringa, Kaldbaks EA 1. Mikill fjöldi fólks safnaðist saman á ytri Torfunefsbryggjunni til af fagna komu þessa glæsilega skips. Miklar vonir um meiri atvinnu og betri kjör voru bundnar við skipið. Kaldbakur EA 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi fyrir Útgerðarfélag Akureyringa. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt til Spánar í brotajárn 18 apríl árið 1974.


Kaldbakur EA 1 á ytri höfninni í Reykjavík. Fjær má sjá í Norðfjarðartogarann Gerpi NK 106. Sannarlega glæsileg skip þarna á ferð.              (C) Snorri Snorrason. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.


Kaldbakur EA 1 við komuna til heimahafnar.                                                Ljósmyndari óþekktur.


Kaldbakur EA 1 kemur nýr til heimahafnar í fyrsta sinn 17 maí 1947. Á brúarvæng standa forseti bæjarstjórnar og stjórnarmenn í ÚA, framkvæmdastjóri og Sæmundur Auðunnsson skipstjóri.


Verið er að ísa Kaldbak EA 1 á Akureyri.                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Kaldbakur EA 1 í erlendri höfn.                                                                 Ljósmyndari óþekktur.


132. Kaldbakur EA 1. Líkan.                                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                 Kaldbakur EA 1

Laust fyrir klukkan 5 e. h. sl. laugardag sigldi hinn nýi togari Útgerðarfélags Akureyringa h.f. "Kaldbakur" hér inn á höfnina, og lagðist litlu síðar á ytri Torfunefsbryggju. Hér var skipinu fagnað hið bezta. Skip í höfninni og hús í bænum voru fánum prýdd, og mikill mannfjöldi safnaðist saman niður við höfnina til þess að sjá hið nýja skip og taka þátt í móttökuathöfninni.
Með skipinu kom frá Reykjavík framkvæmdastjóri Útgerðarfélagsins, Guðmundur Guðmundsson, en stjórnarnefndarmenn og forseti bæjarstjórnar héldu strax um borð, og þaðan ávarpaði Þorsteinn M. Jónsson mannfjöldann og skipsmenn og bauð skipið velkomið.
Guðmundur Guðmundsson lýsti skipinu. Samkvæmt frásögn hans er Kaldbakur 175 feta langur, 30 fet á breidd og 16 fet á dýpt. Hann er 642 brúttó rúmlestir og 216 nettó lestir. Burðarmagn hans er 500 smálestir, með 81 cm. borð fyrir báru. Bolurinn er hólfaður sundur með 7 vatnsþéttum skilrúmum, en alls eru í skipinu 20 vatnsþétt hólf. Botn þess er tvöfaldur frá vélarrúmi og fram úr og skiptist í geyma fyrir olíu,  vatn og lýsi. Eru vatnsgeymar fyrir 60 smálestir, olíugeymar fyrir 245 smálestir og lýsisgeymar fyrir 20 smáIestir. Framrúmi er skipt í tvö fiskirúm, en þeim aftur í 12 stíur, sem hver er útbúin með 4 hillum. Rúmar skipið þannig 300 smálestir af ísfiski. Fyrir framan fiskirúmið er stór veiðarfærageymsla með skápum og hillum. Íbúðir skipverja eru í stafni, eru íbúðir í tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Eru þar rúmgóðir svefnsalir og setustofa, snyrting o. fl. Hverri hvílu fylgir klæðaskápur og fleiri þægindi. Í skut eru einnig íbúðir á tveimur hæðum fyrir yfirmenn og vélamenn. Eru herbergi öll útbúin með hvílum, stoppuðum og klæddum legubekkjum, borðum og skápum, en þiljur allar úr gljáðum við. Þarna er einnig matsalur skipverja, rúmgóður og vistlegur, snyrtiherbergi o. fl. Fyrir framan borðsalinn er rúmgott eldhús með olíukyntri eldavél.
Undir stjórnpalli er íbúð skipstjóra, mjög rúmgóð og vel búin öllum þægindum. Skipið hefir 1390 hestafla gufuvél, sem keyrir það áfram með 13 mílna hraða á klst. Vél þessi, ásamt hjálparvélum, eru þær fullkomnustu er nú þekkjast og eru brezk framleiðsla, eins og allt annað um borð að undanteknum loftskeytatækjum, sem keypt eru hjá þekktu dönsku fyrirtæki. Ný tegund vökvastýrisvélar er tengd beint við stýrið og er virk frá stýrishúsi. Er þetta mikil endurbót. Togvinda skipsins  er eimknúin og er hún 300 hestafla og tekur 1200 faðma af 3 þumlunga vír. Þá eru í skipinu 2 diesel vélar, hvor 120 hestöfl, með átengdum rafal fyrir 80 kw, sem framleiðir alla raforku fyrir aukavélar og til Ijósa. Að loknum ræðum hyllti mannfjöldinn skipið og skipshöfnina með húrrahrópum.
Lúðrasveit Akureyrar lék nokkur lög á undan og eftir. Um kvöldið hafði Útgerðarfélagið boð inni fyrir skipshöfn, blaðamenn og fleiri. Voru þar margar ræður fluttar. Helgi Pálsson, formaður Útgerðarfélagsins, lýsti sögu togarakaupanna og þakkaði þeim, er höfðu lagt málinu lið. Aðrir ræðumenn voru: Þorsteinn Stefánsson, settur bæjarstjóri, Jakob Frímannsson, framkvæmdastjóri, Þorsteinn M. Jónsson, forseti bæjarstjórnar, Jón Ingimarsson og Friðgeir Berg, sem flutti skipinu fagra kveðju í ljóðum.  Sæmundur Auðunsson skipstjóri þakkaði allan vinarhug í garð skipshafnarinnar. Daginn eftir var blaðamönnum boðið að ganga um skipið undir leiðsögn framkvæmdastjóra félagsins og skipstjórans. Virðist vinna öll og útbúnaður vera vandaður og smekklegur og skipið allt hið glæsilegasta hvar sem á það er litið. Mikill mannfjöldi skoðaði skipið á sunnudaginn og luku alllir upp einum munni um að allt virtist þar vel úr garði gert og með miklum nýtízku brag. Skipið fer væntanlega á veiðar í þessari viku. Áhöfn er 33 menn. Skipstjóri er Sæmundur Auðunsson, ungur maður og rösklegur, 1. vélstjóri er Henry Olsen, en 1. stýrimaður Þorsteinn Auðunsson. Að undanteknum þessum yfirmönnum, bátsmanni og netamönnum, er áhöfnin héðan úr bænum.

Dagur. 21 maí 1947.

Flettingar í dag: 988
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 699385
Samtals gestir: 52780
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 15:25:14