27.05.2017 08:44

B. v. Goðanes NK 105 í hrakningum.

23 janúar árið 1950 brotnaði stýri togarans Goðaness NK 105 frá Neskaupstað sem þá var að veiðum austur af Stokksnesi í miklu hvassviðri og þungum sjó. Togarinn náði strax sambandi við varðskipið Ægi. Fór varðskipið honum til aðstoðar og dró togarann til hafnar í Reykjavík. Ferðin þangað sóttist svo seint sökum óveðursins sem þá gekk yfir landið að varðskipið kom ekki með togarann þangað fyrr en að kvöldi hins 26 janúar.


B.v. Goðanes NK 105 að leggjast að bryggju í Neskaupstað árið 1955.            (C) Björn Björnsson.


Nýsköpunartogarinn Goðanes NK 105 á útleið frá Neskaupstað.                       (C) Björn Björnsson.

       Björgun togarans "Goðaness"

Mánudaginn 23. janúar 1950. Varðskipið Ægir var statt við Vestmannaeyjar. Kl. 04,00 var haldið vestur um fyrir Reykjanes. Veður: VSV 8 stórsjór. Kl. 12,00 var varðskipið satt 10 sjómílur SA af Reykjanesi. Veður þá: V 7 mikill sjór. Heyrðist þá, að togarinn Goðanes var að tilkynna, að hann væri með bilað stýri, ca. 10 mílur SA af Stokksnesi, og þyrfti hjálp. Mjög illt var að komast í samband við hann, vegna lofttruflana, er munu hafa stafað af éljaveðri. Fyrst var athugað, hvort nokkur skip væru nálægt Goðanesi, er gætu veitt því hjálp, en það reyndist ekki neitt. Var þá Goðanesi boðin hjálp, og kl. 12,47 var haldið með fullri ferð austur um í áttina að Goðanesi. Siglt var sem leið liggur austur með landi. Þriðjudaginn hinn 24. Kl. 08,30 var komið að Goðanesi, er var á reki 14,5 sjóm. í réttv. 105° frá Stokksnesi. Var þá strax settur í togarann vír, 4,5" sver, og honum lásað í stjórnborðskeðju togarans og gefið út 60 metrar af keðjunni og 240 metrar af vírnum, og haldið af stað kl. 09,10 með togarann í eftirdragi, var þá gott veður.
Þess skal getið, að þótt stýri togarans væri brotið, var það hart í stjórnborða og varð ekki hreyft þaðan. Þess vegna vildi togarinn rása mikið til stjórnborðshliðar, og var þar af leiðandi erfiður í drætti. Kl. 10,00 fór að vinda aftur af vestri, og á hádegi kominn V 7, sjór tilsvarandi. Stefnan var sett 12 mílur undan Ingólfshöfða. Kl. 16,40 var bætt við vírinn ca. 100 metrum og gefið út 30 metra af keðju togarans í viðbót. Um kl. 20,00 gekk vindur til SSV með éljaveðri. Ekki var hægt að hafa úti vegmæli, línan fór á vírinn, vegna þess hvað togarinn rásaði mikið. Kl. 20,35 var farið framhjá Ingólfshöfða í 10,7 sjómílna fjarlægð. Var þá vindur SSV 6, sjór tilsvarandi og éljaveður. Miðvikudaginn hinn 25. Kl. 00,17 varð að stöðva vegna smábilunar á Ægi. Vildu þá skipin dragast saman, vegna þunga vírsins er lagðist í botn, voru þá bæði skipin í nokkurri hættu. Kl. 00,40 var búið að leysa úr sambandi, einn bullustrokkinn, er bilunin var í, var þá hægt að halda áfram með minnkaðri ferð. Kl. 01,16 var viðgerð lokið. Var þá stoppað aftur meðan strokkurinn var settur í samband. Kl. 01,28 var viðgerð lokið og haldið áfram. Frá Ingólfshöfða var stefnan sett 20 mílur undan Mýrartanga, sama undan Dyrhólaey, síðan 15 mílur undan Geirfuglaskeri út af Vestmannaeyjum.
Vindur fór vaxandi af SSV, einnig sjór. Kl. 16,00 var vindur orðinn 10 vindstig, og hélst það, sem eftir var dagsins. Kl. 20,00 gekk vindur í S með sama ofsa. Fimmtudaginn hinn 26. Sama veður S 10. Kl. 05,00 gekk vindur í SA með sama veðurofsa og dimmviðri og stórsjó. Var þá ratsjá skipsins biluð, en bergmálstækið lóðaði sama og ekkert vegna sjógangs. Vegmælir var ekki í gangi, þar eð línan fór strax í dráttarvírinn, en Goðanes hafði vegmæli úti. Um kl. 09,00 var farið framhjá Reykjanesi, til lands sást þó ekki vegna roksins. Kl. 10,00 var komið fárviðri. Kl. 11,00 slitnaði dráttarvírinn. Voru skipin þá út af Hafnarleir. Voru þá strax vírslítrin dregin inn, nýr vír, 200 faðma langur og 5" sver, tekinn upp úr geymslurúmi, síðan lagt að Goðinesi aftur, línu skotið yfir, og síðan fest í Goðanes eins og áður. Kl. 12,30 var þessu öllu lokið og haldið af stað. Kl. 15,00 var farið framhjá Garðskaga, var vindur þá S 11. Kl. 19,05 var varpað akkeri á Reykjavíkurytrihöfn, var þá vindur S 7. Tveir dráttarbátar drógu Goðanes inn að bryggju, og þar með var björguninni lokið.

Útdráttur úr dagbók varðskipsins Ægis.
Eiríkur Kristófersson skipherra.
Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1951.

Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 426
Gestir í gær: 129
Samtals flettingar: 2392289
Samtals gestir: 622010
Tölur uppfærðar: 21.9.2021 14:04:29