01.06.2017 20:23

2892. Björgúlfur EA 312. TFCR.

Björgúlfur EA 312 var smíðaður hjá Cemre Shipyard í Istanbúl í Tyrklandi árið 2017. 2.081 brl. 2.200 ha. Yanmar díesel vél. Eigandi skipsins er Samherji Ísland h/f á Akureyri en heimahöfn skipsins er á Dalvík. Björgúlfur lagðist við bryggju á Dalvík um miðjan dag í dag eftir um tveggja vikna siglingu frá Tyrklandi. Óska útgerð og áhöfn og öllum Dalvíkingum til hamingju með þetta glæsilega skip. Þessar myndir sendi Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík mér nú í kvöld. Þakka ég honum kærlega fyrir afnot myndanna.


2892. Björgúlfur EA 312.                                                         (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2892. Björgúlfur EA 312.                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2892. Björgúlfur EA 312.                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

    Nýr Björgúlfur EA 312 til Dalvíkur

Það var mikið um dýrðir á Dalvík í dag þegar nýr ísfisktogari, Björgúlfur EA 312, kom þar til heimahafnar. Nýja skipið leysir af hólmi 40 ára gamlan skuttogara með sama nafni.
Björgúlfur EA er í eigu Samherja og er systurskip Kaldbaks EA sem kom til Akureyrar fyrr í vor. Samherji fær þriðja skip sömu gerðar afhent í árslok. Skipið er smíðað í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og var sjósett þar í september 2016. Það lagði af stað til Íslands 18. maí, með viðkomu í Istanbúl þar sem tekið var eldsneyti.
Nýja skipið er 62 metra langt og 13,5 metra breitt. Áætlað er að það kosti tæplega tvo og hálfan milljarð fullbúið til veiða. Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir byrjað að smíða þann vinnslubúnað sem settur verður um borð. Vinna við að gera skipið klárt til veiða taki næstu 2-3 mánuði.
Dalvíkingar fögnuðu nýjum Björgúlfi sem var til sýnis fyrir almenning eftir að skipið lagðist að bryggju. "Í gamla daga var hefð fyrir því að flagga þegar ný skip komu til heimahafnar og eru íbúar hvattir til að viðhalda þeirri gömlu hefð og flagga fyrir nýjum Björgúlfi," sagði í frétt um skipakomuna á vef Dalvíkurbyggðar.
Nýr Björgúlfur leysir af hólmi 40 ára gamlan skuttogara með sam nafni, sem kom nýr til landsins árið 1977. Kristján segir hann enn á veiðum fyrir Samherja og verði ekki seldur fyrr en nýja skipið er tilbúið.

Rúv.is 1 júní 2017.

Flettingar í dag: 135
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 975
Gestir í gær: 205
Samtals flettingar: 1535726
Samtals gestir: 414782
Tölur uppfærðar: 16.9.2019 02:32:25