03.06.2017 07:55

479. Þór NK 32.

Þór NK 32 var smíðaður í Stavaag í Noregi árið 1928. Eik og fura. 21 brl. 46 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Eiríkur Þorleifsson í Dagsbrún á Norðfirði og synir hans, Ármann, Björn, Guðjón og Stefán frá apríl 1928. Ný vél (1936) 60 ha. Wichmann vél. Báturinn var seldur 2 janúar 1947, Jóni Einarssyni á Seyðisfirði og Þorvaldi Einarssyni í Neskaupstað, hét Þór NS 13. Seldur 13 maí 1952, Birni Bjarnasyni, Einari Þorgeirssyni og Birni Einarssyni á Seyðisfirði, sama nafn og númer. Ný vél (1958) 180 ha. Buda díesel vél. Seldur 9 október 1958, Þórði Sigurðssyni á Seyðisfirði, báturinn hét þá Sigurður NS 13. Seldur 2 febrúar 1961, Benedikt Guðmundssyni og Pétri Guðmundssyni í Keflavík, hét Guðmundur Ólafsson KE 48. Talinn ónýtur vegna þurrafúa og tekinn af skrá 26 nóvember árið 1965.
Þór var skráður með einkennisstafina SU 496 fyrstu tvö árin. Í sjómannaalmanaki frá 1932 er hann kominn með skráninguna NK 32.

Þór NK 32 á Norðfjarðarflóa. Dalatangi í baksýn.                                         (C) Björn Björnsson. 


Þór NK 32 upp í fjöru á Norðfirði eftir að togarinn sigldi á hann í september 1938. (C) Björn Björnsson.


Þór NK 32 að leggjast að bryggju á Höfn í Hornafirði.                                  Ljósmyndari óþekktur.

             Togari siglir á fiskibát

     Togarinn hélt leiðar sinnar eftir áreksturinn                         án þess að skifta sér af bátnum

 Í fyrrakvöld fór vélbáturinn Þór N.K. 32, skipstjóri Eiríkur Ármannsson, í fiskiróður og lagði línur sínar um 20 mílur út af Norðfirði. Um kl 3 í fyrrinótt, er báturinn lá yfir línum sínum, sigldi togari á hann og braut stefnið allmikið og rifnaði byrðingurinn frá, aftur um háþiljur og kom þegar leki að bátnum, - enda skildu bátverjar línurnar eftir og héldu þegar til lands. Níðaþoka var á, og svartnætti svo að eigi mátti greina nafn togarans eða einkennisstafi, en togarinn sigldi þegar á brott, án þess að láta sig afdrif bátsins nokkru skifta. Á bátnum var vélamaðurinn einn á verði en aðrir bátverjar sváfu. Ekki heyrði vélamaðurinn neitt hljóðmerki frá togaranum, en hinsvegar gat hann dregið nokkuð úr árekstrinum með því að láta vélina taka aftur á bak. Logn var og gott í sjó, og komst báturinn því heill í höfn.

Þjóðviljinn. 7 september 1938.

Flettingar í dag: 188
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 988
Gestir í gær: 153
Samtals flettingar: 1540252
Samtals gestir: 415876
Tölur uppfærðar: 21.9.2019 04:31:41