12.06.2017 06:42

Muggur GK 15.

Muggur GK 15 var smíðaður hjá Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1942. Eik. 15 brl. 40 ha. Skandia vél. Eigendur voru Guðmundur Guðmundsson og Magnús Magnússon í Hafnarfirði frá nóvember sama ár. 30 september 1946 voru Guðmundur Guðmundsson Ingólfur Karlsson og Ingibergur Karlsson í Hafnarfirði eigendur bátsins. Ný vél (1947) 90 ha. Gray díesel vél. Ný vél (1952) 150 ha. GM díesel vél. 4 febrúar árið 1954 var verið að draga Mugg, sem var vélavana, í var inn á Grundarfjörð. Á móts við Brimilsvelli slitnaði dráttartaugin og bátinn rak upp í Haukabrekkuhleina (Vallabjarg) og brotnaði í spón. Dráttarskipið Marz frá Reykjavík, sem var með hann í togi, bjargaði áhöfninni, fjórum mönnum til Grundarfjarðar.


Muggur GK 15.                                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                  Muggur GK 15

Um miðjan nóvember 1942 var lokið við smíði á nýjum báti í skipasmíðastöð KEA á Akureyri. Bátur þessi er 15 rúml. brúttó að stærð, heitir Muggur og hefur einkennisstafina G. K. 15. Í honum er 40 hestafla Skandíuvél. Eigendur hans eru Guðmundur Guðmundsson og Magnús Magnússon í Hafnarfirði. Báturinn var gerður út á veiðar frá Hafnarfirði síðastliðna Vertíð.

Ægir. 1 maí 1943.

          Lítill fiskibátur brotnar í spón 

                 Mannbjörg varð 

Vélbáturinn Muggur frá Hafnarfirði, sem á nýbyrjaðri vertíð hefur verið gerður út frá Hellissandi, brotnaði í spón, er hann rak mannlaus upp í kletta.
Um kl. 10 í morgun kom hér inn á bátaleguna vélskipið Marz frá Reykjavík og var hann með vélbátinn Mugg í eftirdragi, en vél hans hafði bilað. Skipstjórinn á Marz hugðist ná með bátinn upp að bryggjunni hér, en lágsjávað var og stormur með miklum sjógangi. Tókst Marz ekki að komast að bryggjunni. Við svo búið hélt Marz út á bátaleguna. Hér var mönnum ljóst að alvara var á ferðum. Voru strax gerðar ráðstafanir til að koma mönnunum á Mugg til hjálpar, ef eitthvað bæri út af. En þá komu um það fregnir, að allir skipverjar á Mugg, fjórir talsins, væru komnir um borð í Marz. Um kl. 1 sáu menn, sem sendir höfðu verið inn í Vallafjörð, að bátinn rak upp í svonefnt Vallabjarg, sem gengur í sjó fram. Bátinn rak í hafrótið undir bjarginu og mun hafa brotnað þar í spón samstundis. Ekki er vitað hvort heldur báturinn slitnaði frá Marz eða legufærum á bátalegunni því ekkert samband var haft við Marz, sem eftir hádegi sigldi inn á Grundarfjörð í var undan verinu. Muggur, sem var 16 tonn, var eign Guðmundar nokkurs, sem kenndur er við Ölduna í Hafnarfirði. Skipstjóri á honum var Eggert Sigmundsson frá Hellissandi.

Morgunblaðið. 5 febrúar 1954.

Flettingar í dag: 346
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 479
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 723011
Samtals gestir: 53659
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 10:08:48