18.06.2017 16:39

S. S. Wigry ferst við Mýrar.

Pólska flutningaskipið S.S. Wigry var smíðað hjá Sir Rayalton Dixon & Co Ltd í Middlesbrough í Englandi árið 1912. 1.892 brl. 1.140 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð af Clark George Ltd í Sunderland á Englandi. Smíðanúmer 567. Skipið var smíðað fyrir Denaby & Cadeby Main Collieries Ltd í Hull á Englandi, hét S.S. Hooton. Selt 1916, Harries Bros & Co í Swansea í Wales. Árið 1921 fær skipið nafnið S.S. Clanbrydan, sömu eigendur. Selt 1933, Livanos Maritime Co Ltd í Chios í Grikklandi, fékk nafnið Jenny. Selt 1937, Jenny Steamship Co í London, hét S.S. River Dart. Selt árið 1939, pólsku ríkisstjórninni (Baltic Shipping Company) fékk nafnið S.S. Wigry. Skipið kom til Reykjavíkur í desember 1941 og réðust þá þrír Íslendingar á skipið. Þeir voru; Bragi Kristjánsson Reykjavík, Garðar Norðfjörð Reykjavík og Ragnar Pálsson úr Hveragerði. Hélt Wigry síðan norður til Djúpavíkur á Ströndum, þar sem það lestaði síldarmjöl er fara átti til New York. Skipið kom aftur til Reykjavíkur rétt fyrir jólin og lá þar á höfninni til 6 janúar 1942, en þá um kvöldið var létt ankerum og haldið af stað vestur um haf. Wigry var í skipalestinni ON 53, sem þýskir kafbátar réðust á hinn 10 janúar og sökktu þeir einum þrjátíu skipum í lestinni. Ofsaveður gekk yfir stuttu eftir árásina og urðu kafbátarnir þá frá að hverfa. Wigry hraktist undan veðrinu upp að ströndum Íslands með hálf bilaða vél.
Wigry strandaði á Selboða við Hjörsey á Mýrum 16 janúar 1942. 24 af 27 skipverjum komust í björgunarbát en honum hvoldi fljótlega en 6 skipverjar komust á kjöl hans en tíndu fljótlega tölunni. Bátinn rak að landi við bæinn Syðri-Skógarnes í Hnappadalssýslu á Snæfellsnesi. Tveimur skipverjum var bjargað af heimilisfólkinu á bænum, þeir voru, Bragi Kristjánsson háseti og Ludwik Smolski stýrimaður á Wigry.
Í ár, 2017, eru 75 ár liðin frá þessum atburðum. 28 maí síðastliðinn var afhjúpaður minnisvarði um þetta átakanlega sjóslys við Syðra-Skógarnes er kostaði 25 sjómenn lífið.


S.S. Wigry.                                                                                              Ljósmyndari óþekktur.

     Ekki verður ófeigum í hel komið

         Rætt við Braga Kristjánsson, sem bjargaðist naumlega, þegar pólskt                             flutningaskip fórst hér við land á heimstyrjaldaárunum síðari.

Þegar pólska flutningaskipið Wigry fórst við Ísland í janúarmánuði 1942, komust aðeins tveir menn af, og það naumlega. Annar var íslendingur, hinn Pólverji. Íslendingurinn heitir Bragi Kristjánsson, og það er hann, sem hér er talað við. Ekki hefur Bragi haft neitt samband við hinn pólska félaga sinn, síðan leiðir skildu, eftir að þeir höfðu bjargazt úr klóm Ægis, en það síðasta, sem Bragi frétti, var, að Pólverjinn hafði setzt að í Kanada að stríðinu loknu og komizt vel í álnir. Ef til vill er hann ekki lengur í lifenda tölu, og sé svo, þá er Bragi Kristjánsson eini maðurinn í öllum heiminum, sem kann frá þeim tiðindum að segja, sem hér eru rakin. Íslenzk fréttaþjónusta gat lítt þessa atburðar á sínum tima, og lágu til þess ýmsar ástæður. Þannig munu til dæmis dagblöð ekki hafa komið út um þetta leyti, sökum verkfalls, en auk þess voru hömlur á fréttaflutningi vegna styrjaldarinnar. Með hógværð og án allrar tilfinningasemi rekur Bragi hörmungarnar, sem gengu yfir skipverjana á Wigry, eftir að þeir urðu að yfirgefa skip sitt og hröktust um á björgunarbát í stórsjó og illviðri. Loks voru aðeins fjórir eftir, þá tveir, en annar þeirra komst ekki nema í fjöruna. Hinn staulaðist heim til bæjar, hungraður, uppgefinn og berfættur.


S.S. River Dart.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

Þegar heimstyrjöld er í algleymingi, þegar borgir brenna og milljónir á milljónir ofan verða mannlegri óhamingju að bráð, jafnvel þótt þeir hafi sloppið lifandi, ja, þá þykja það kannski ekki neinar stórfréttir, þótt eitt skip farist og tæpir þrír tugir manna láti líf sitt. Þó eru það mikil tiðindi. Þegar mannslíf hefur einu sinni glatazt, verður aldrei framar fyrir það bætt, það verður ekki endurheimt. Hver maður á sína ættingja, vini og vinnufélaga, sem sakna hans sárt. Þar gildir eitt fyrir alla, hvort sem í hlut á hermaður stríðandi þjóðar, óbreyttur borgari sem ferst í loftárás eða sjómaður, sem drukknar hér lengst norður í hafi. Eitt af mörgum sjóslysum síðustu heimsstyrjaldar var, þegar pólska flutningaskipið Wigry fórst hér við land í janúar mánuði 1942. Aðeins tveir menn komust lífs af úr þessu slysi, annar íslendingur, hinn Pólverji. Íslendingurinn, sem á þessa reynslu að baki, heitir Bragi Kristjánsson og býr við Mýrargötuna í Reykjavik. Hann var svo vinsamlegur að leyfa blaðamanni frá Timanum að spjalla við sig stundarkorn um daginn, og leysti greiðlega úr fávislegum spurningum.
- Segðu mér fyrst, Bragi: Á hvaða leið voruð þið, þegar þetta slys henti? - Við vorum á leið frá Íslandi til Bandarikjanna og sigldum í stórri skipalest. Við munum hafa verið um það bil á miðri leið, þegar skothrið hófst á skipalestina. Hvert skipið eftir annað var skotið niður, við fréttum seinna, að þau hefðu verið á milli þrjátíu og fjörutíu, sem sökkt var, enda var sagt að þau skip, sem að lokum komust til hafnar, hefðu verið svo herfilega útleikin, að annað eins hefði varla sézt, á meðan skipalestirnar fóru hér á milli.


Hjörsey á Mýrum og Selboði sunnan hennar.                                         (C) Landmælingar Íslands.  

Að þessu sinni björguðu veðurguðirnir nokkru, þótt það ætti raunar eftir að koma illilega niður á okkur. Það hvessti snögglega og gerði alveg snarvitlaust veður. Þar með var árásin um garð gengin, en við urðum viðskila við skipalestina, og jafnframt urðum við fyrir bilun, það sprakk bullustöng í vél. Rak okkur nú fram og aftur um hafið hátt í fjóra sólarhringa í stormi og stórsjó. Og veðrið var ekki aðgerðalaust. Við misstum bakborðslífbát og björgunarfleka og rifum lúgusegl; auk þessa var svo vélarbilunin. - Hvað var helzt til ráðs? - Við áttum ekki margra kosta völ, en við vildum reyna að komast til Englands og fá þar gert við skipið, sem orðið var mikið skemmt, víða brotið ofandekks, fyrir utan þau stóráföll, sem ég þegar hef lýst. En nú kom það upp úr kafinu, að í Englandi fengjum við ekki neina viðgerð, þar sem skipið var með farm fyrir íslenzka aðila, en ekki fyrir striðsþjóðirnar, Bretar eða Bandaríkjamenn. Við urðum því að taka þá ákvörðun að reyna að komast til Íslands. - Já, hvað voruð þið að flytja? - Það var síldarmjöl, sem við höfðum aðallega lestað á Djúpuvík, því að þá var síldin á þeim slóðum. Nú var alltaf verið að hringja neyðarbjöllunum, sem þýddi, að hætta væri í nánd og allir ættu að vera við öllu búnir. Það var því litið um svefn.


Kaþólskir prestar á Landakoti jarðsungu þá sem drukknuðu. Myndin er frá þeirri athöfn.

Bar ykkur svo í námunda við Ísland? - Já, við komum að Dyrhólaey og héldum suður fyrir Vestmannaeyjar, fórum framhjá þeim um miðnætti. Að því er mig minnir, var klukkan átta að morgni, þegar við sigldum fyrir Reykjanesvita og sáum land síðast við Stafnes. Hálfum öðrum tíma seinna höfðum við tal af ensku herskipi, sem taldi sig vera norður af Garðsskaga, en þá var komið dimmviðri og aftur orðið rokhvasst, stormurinn, sem skall á, þegar við misstum af skipalestinni, hafði fylgt okkur óslitið allan tímann, enda vorum við búnir að fara langa leið. Nú var haldið inn á Faxaflóann og stefnan tekin á Reykjavík, eftir því sem herskipið hafði gefið okkur upp. Ég átti vakt frá klukkan átta til tólf þennan dag, sem nú fór í hönd, en klukkan tíu var sjórokið orðið svo mikið, að við greindum varla frammastrið. Við ætluðum nú að mæla dýpið, en dýptarmælirinn var á hjóli aftan á "hekkinu". Og nú vildi ekki betur til en svo, að vírinn slitnaði, og vorum við dýptarmælislausir eftir það. Þar sem ég var á vakt, fór ég upp í brú, en varð það á að reka mig á áttavitann, því að skipið valt mikið. Við þetta fékk ég svo mikinn rafstraum í mig, að ég hentist til. Þetta gat ekki þýtt nema eitt: Áttavitinn hlaut að bila í öllum veltingnum og ólátunum, og var nú farinn að leiða út rafmagn svona hressilega. Það var því auðséð, að ekki yrði mikið á hann að treysta það sem eftir væri leiðarinnar.


Bragi Kristjánsson 18 ára gamall árið 1942.

Þar kom, að við sáum ljós, sem við töldum að vera myndu í landi. Fyrsti stýrimaður bað mig þá að fara upp á stýrishúsið og vita, hvort ég þekkti ekki annað hvort ljósin eða umhverfi þeirra, því að hér átti ég að vera sæmilega kunnugur, ef við værum einhvers staðar í Faxaflóanum. Þegar ég kom þarna upp, sá ég stórt grunnbrot framundan, og skildi strax, að nú reið á að hafa snör handtök. Ég kallaði því niður: Stöðvið! Fulla ferð aftur á bak! En þetta var of seint. Skipið hentist til og byrjaði að hallast á bakborða. Mennirnir þustu allir upp á dekk. Ég hitti þar Garðar Norðfjörð og sá, að hann var með stærðar sár á enninu. Sagðist hann hafa henzt til og fengið sárið, þegar skipið tók niðri. Nú var farið að reyna að ná niður þessum eina lífbát, sem við áttum eftir, en það gekk erfiðlega. Ég vann að þessu ásamt einum félaga mínum, en mér gekk verr en honum, því að kaðallinn var eitthvað flæktur í blökkinni. Allt í einu heyrði ég að kokkurinn kallaði til mín: Passaðu á þér hendurnar! Ég lét ekki segja mér það tvisvar, og í sama bili kom kjötöxi kokksins fljúgandi, beint á kaðalinn, hjó hann í sundur og klauf blökkina. Ég ætlaði varla að trua mínum eigin augum, svo mjög undraðist ég leikni mannsins, og mér varð á að hugsa, að hann hlyti að hafa talsverða æfingu í því að kasta vopni.


Ludwik Smolski stýrimaður á Wigry.  

Um leið og báturinn datt niður, hallaðist skipið ennþá meira en það hafði áður gert, og sat nú báturinn á skipshliðinni, eins og á þurru landi, að því undan skildu þó, að sjór gekk í sifellu yfir skipið. Sumir mennirnir hrukku fyrir borð, en flestir komust upp á skipssíðuna aftur. Við settum nú bátinn á flot, en þegar við vorum komnir í hann, vildi skipsstjórinn ekki koma til okkar, en sagði sem auðvitað var líka rétt, að við yrðum að freista þess að ná þeim mönnum, sem enn voru í sjónum í kringum skipið, þótt við sæjum þá ekki, því að nú var komið myrkur og auk þess mikið hafrót. En þegar skipsstjóri neitaði að koma í bátinn, gerði kokkurinn slíkt hið sama. Þeir voru nákunnugir og hafa víst verið búnir að sigla lengi saman. - Fóruð þið ekki að reyna að bjarga mönnum úr sjónum? - Jú, við lögðum okkur alla fram til þess, og náðum þó aldrei nema tveimur, annar þeirra var Garðar Norðfjörð, og mátti hann þá heita meðvitundarlaus, enda dó hann í bátnum hjá okkur nóttina eftir. Við ætluðum svo að róa að skipinu aftur, en komumst það ekki fyrir brimi og óveðri. Við heyrðum köll og óp, og hafa það sjálfsagt verið skipstjóri og kokkurinn að reyna að ná til okkar, en þarna skildi leiðir.


Bragi við minnisvarðann í Fossvogi sem var afhjúpaður 8 september 1961. (C) Tíminn.

Við vorum í raun og veru alveg bjargarlausir og gátum ekkert gert, því við höfðum ekki annað en árar, og áttum fullt í fangi með að halda bátnum ofan sjávar. Við reyndum að halda honum upp í veðrið, svo að hann fyllti ekki, og rerum þannig alla nóttina. Það var verið að skiptast á um að ausa og róa, bæði til þess að halda á sér hita og líka vegna þreytunnar. Kuldi hefur auðvitað sótt á ykkur? - Já. Þetta var um hávetur, stormur og sjórok og gekk á með dimmum hríðaréljum. Svona vorum við á reki alla nóttina. Í birtingu um morguninn sáum við fjöll, sem við áttuðum okkur ekki á í fyrstu, en sáum svo, að myndi vera Snæfellsnes. En hvar vorum við við nesið? Það vissum við ekki. Allt í einu sáum við fjörð, og þá lyftist heldur á okkur brúnin, en þó var hér sá galli á, að það braut svo mikið fyrir fjarðarminninu, að ekki leit út fyrir annað en hann væri alveg lokaður. Þó sáum við að geil kom í brimið og renndum okkur strax í hana. En um leið og við komum í geilina, sem virtist geta orðið lífgjafi okkar, "braut saman" aftur. Bátnum hvolfdi ekki, en sjórinn spændist inn í hann framan frá og aftur úr og fyllti hann á augabragði. Rétt á eftir valt hann á hliðina. Auðvitað fórum við allir í sjóinn. Sumir urðu undir bátnum, en aðrir köstuðust frá. Flestir, ef ekki allir, voru vel syndir, og margir syntu að bátnum og tókst að rétta hann við. Siðan ætluðu þeir að reyna að ausa, en aðstæður voru næstum eins og þær gátu verið verstar, og þeir veltu bátnum yfir sig aftur, þegar þeir voru að reyna að ausa hann. Þeir, sem undir bátnum lentu, held ég að hafi drukknað þarna strax.


Bragi fyrir utan heimili sitt á Mýrargötu í Reykjavík í ágúst 1974.  (C) Tíminn, Róbert.

Nú var ekki framar gerð nein tilraun til þess að rétta bátinn, heldur syntum við að honum og skriðum upp á hann. Þar var þó aldrei friður til lengdar, því að brimið var svo mikið, að það var alltaf að skola okkur út af bátnum, en það var þó miklu hættuminna en að lenda undir honum, enda náðum við bátnum alltaf aftur og tókst að skriða upp á hann. Á þessu gekk lengi.
Eftir þetta held ég að félagar minir hafi ekki drukknað, heldur dofnað upp og dáið úr kulda. Smám saman urðu þeir svo máttfarnir, að þeir náðu ekki að skríða upp á bátinn, eða berjast við ölduna, og svo rak þá frá bátnum, unz þeir hurfu okkur í löðrið. - Voruð þið allir í lífbeltum? - Já, það vorum við, en sum þeirra voru nú orðin léleg. Þó nægðu þau, ásamt sundkunnáttu okkar, til þess að við flutum ágætlega í sjónum. Mér er minnisstæður lítill félagi minn, kátur og skemmtilegur fjörkálfur. Það var messadrengurinn. Ég tók allt í einu eftir því, að hann var farið að reka frá bátnum, og reyndi að synda til hans og ná honum upp á bátinn til okkar.


Minnisvarðinn í Fossvogskirkjugarði um þá 25 skipverja sem fórust með Wigry.  

En ég komst ekki langt. Það gerði ekki betur en ég næði bátnum aftur, svo þrekaður var ég orðinn. Þó að drengurinn væri ekki kominn ýkjalangt í burtu, þá vantaði mikið á að ég hefði náð þangað sem hann var, hvað þá að ég hefði komizt með hann að bátnum. Það síðasta, sem ég sá til hans, var að hann lyfti upp hendinni í kveðjuskyni. Ég held, að hann hafi verið orðinn dofinn af kulda og þreytu. - Voru menn æðrulausir í þessu dauðastríði? - Já, annað er ekki hægt að segja. Áuðvitað var öllum ljóst, hvað þarna var að gerast, en það var eins og rósemi manna yrði þeim mun meiri, sem lífshættan varð augljósari. - Færðust þið ekki smám saman nær landinu? - Jú að visu, bátinn rak mikið, þótt á hvolfi væri, en hann rak ekki beint til lands, heldur skáhallt fram með landinu. Alltaf vorum við að kastast út af honum og að klóra okkur upp aftur, og það held ég nú að hafi haldið í okkur lífinu, þrátt fyrir allt, því að við stirðnuðum þó ekki alveg á meðan. Einu sinni rak okkur framhjá smáeyju, og við vorum komnir á fremsta hlunn með að synda þar að landi, því við fórum svo nálægt eynni, en ef við hefðum gert það, hefði enginn orðið til frásagnar um þetta slys. Eftir því sem okkur var sagt síðar, var aldrei farið út í þessa eyju, nema stöku sinnum um hásumarið, og það var talið útilokað, að sézt hefði eða heyrzt til okkar, þótt við hefðum reynt að gera vart við okkur þar.


Líkan af Wigry afhjúpað í Sjómannasafninu Víkinni í Reykjavík 10 júní s.l. Formaður félags Pólverja á Íslandi og sendiherra Póllands á Íslandi gerðu það með sóma.        (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Nú um síðir vorum við komnir upp að fjöru, og enn voru allmargir eftir lifandi á bátnum, sem flaut þarna á hvolfi. Einn þeirra var Ragnar Pálsson, ágætur félagi og góðvinur minn. Þegar við vorum komnir svona nærri landinu, varð Ragnari að orði við mig: Ég ætla fljótlega að skrifa grein um þessa sjóferð okkar og birta hana í Vikunni. Það leizt mér vel á, og tók glaðlega undir þá ákvörðun, en ég sá, að Ragnari var orðið mjög kalt, enda var hann ekki skjóllega klæddur, aðeins í rykfrakka utan yfir vinnufötum sínum. Allt í einu sýndist mér hann eitthvað skrýtinn, svo að ég ýtti við honum og spurði, hvort hann myndi ekki eftir greininni, sem hann ætlaði að skrifa. En þá tók ég eftir þvi, að augu hans voru brostin. Hann hafði dofnað upp og dáið án þess að vita af þvi. - Hvað voru það svo margir, sem að landi komust? - Við vorum fjórir, sem komumst í fjöruna.


S.S. Wigry. Líkan.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 júní 2017.

En landtakan var ekki sem ákjósanlegust, því að fjaran var stórgrýtt og brimskafl fyrir framan. Við ákváðum, að við skyldum sleppa bátnum, áður en við kæmum alveg upp í fjörugrjótið, því það gæti stafað hætta af því að vera þá of nálægt honum. Þetta gerðu líka bæði stýrimaðurinn og ég, en hinir tveir héldu áfram að halda sér í bátinn, og þar með veltust þeir með honum upp í grjótið, og hafa liklega lent undir honum. Við sáum þá að minnsta kosti ekki aftur. - En syntuð þið tveir upp í fjöruna? - Já. Ég klöngraðist á undan upp í urðina, en var í meira lagi valtur á fótunum. Þegar ég var að synda í áttina að messadrengnum fyrr um daginn, fóru bæði stigvélin af mér, og í raun og veru var það bara gott, en ullarsokkarnir, sem ég var í, fylgdu stlgvélunum, og það var öllu lakara, ekki sízt nú. Við veltumst nú þarna um í urðinni, ég og stýrimaðurinn: einu sinni eða tvisvar náði ég til hans og gat dregið hann til mín. Siðan stóð ég upp, en svo var ég aumur orðinn, að þegar ég stóð upp, skellti aldan mér í hvert skipti sem hún náði í fæturna á mér, þótt vatnið tæki mér ekki nema í hné.


S.S. Wigry. Líkan.                                                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 júní 2017.
  
Um síðir vorum við báðir komnir alveg á þurrt undan sjó, en ekki var nú sopið kálið, því að nú var upp brattan sandbakka að fara. Ég veit ekkert, hvernig mér tókst að klöngrast upp bakkann og áleiðis heim að bæ, sem við vorum áður búnir að sjá að var þarna á ströndinni, skammt frá sjónum. Ég var víst um það bil klukkutíma að ganga þennan spöl heim að bænum, sem þó er ekki nema smáspölur. Ég var alltaf að reka berar tærnar í frosnar og snjóugar þúfur, en ég fann ekkert til, vissi varla, að ég hefði neinar tær en aftur á móti sá ég landið koma í bylgjum á móti mér. Það var undarleg tilfinning og síður en svo þægileg. Þegar ég kom heim að bænum, sá ég menn úti á túni, og held ég helzt, að þeir hafi eitthvað verið að bjástra við hesta. En ég gaf mig ekkert að þeim, en einblíndi á bæjardyrnar. Þegar ég loks stóð á hlaðinu, barði ég að dyrum, eins og fínn maður, og kona kom til dyra. Henni brá, þegar hún sá mig standa þarna, berfættan, sjóhraktan og sjálfsagt í meira lagi torkennilegan útlits. Ég sagði henni, að ég væri skipreika sjómaður (eins og hún sjálfsagt hefur séð). Ég sagði líka, að félagi minn væri niðri í fjöru lifandi, en annars hefðu allir drukknað. Þegar konan heyrði þessi tíðindi, þaut hún framhjá mér og út á tún, en ég stóð eftir og horfði á eftir henni. Svo varð mér litið inn eftir bæjarganginum og sá þá alla leið inn í búr, þar sem matur stóð á hillum.


S.S. Wigry. Líkan.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 júní 2017.
  
Þá fyrst fann ég að ég var svangur. - Hvað var þá langt frá því að þú hafðir bragðað mat? - Þegar við, félagarnir tveir, sem af komumst, náðum loks landi í fjörunni, var fullur sólarhringur liðinn frá því við fórum í björgunarbátinn. Allan þann tíma höfðum við verið að hrekjast um, ýmist í bátnum eða á kili hans, holdvotir og matarlausir. Þegar konan kom aftur heim, vildi hún styðja mig í rúmið, en ég þóttist geta komizt þetta hjálparlaust. Seinna var mér sagt, að þegar ég hefði komið að rúminu, hefði ég dottið yfir það þversum, steinsofandi. Þar svaf ég, þangað til læknirinn í Stykkishólmi kom til mín. - En hvað um félaga þinn? - Hann var sóttur og studdur á hesti heim að bæ. - Hvaða bær var þetta sem þið komuð að? - Það var Syðra-Skógarnes í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu. - Kól ykkur ekki til skemmda í þessu volki? - Nei, við sluppum furðuvel við það. Ég var alveg ókalinn á fótum, og hefur það líklega verið vatninu að þakka, en félagi minn, stýrimaðurinn, fékk sár á hnén. Þau stöfuðu af því, að hann kraup alltaf og hélt sér fast þegar ólögin riðu yfir bátinn, í stað þess að láta undan. Hann nuddaðist mikið á hnjánum og lá lengi í sárum eftir þetta.


S.S. Wigry. Líkan.                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 júní 2017.

Daginn eftir að við komum að Skógarnesi, fór líkin að reka, um miðjan dag voru þau orðin ellefu. Þá var ég beðinn að koma út og þekkja félaga mína. Það var óhugnanlegt verk, því að mörg likanna höfðu lent utan í klettum og voru illa farin. - Hvernig komust þið svo frá Skógarnesi og til Reykjavíkur? - Þá var setulið í Borgarnesi eins og víðast hvar annars staðar á landinu. Þaðan komu hermenn og sóttu okkur, bæði þessa tvo, sem enn voru á lifi, og þau sem þegar voru fundin. Vorum við félagar, svo látnir sem lifandi, fluttir á herbílum niður í Borgarnes. Þar var þá kominn bráðabirgðaspítali í staðinn fyrir þann, sem áður var, en hann hafði fokið í sama óveðrinu, sem við höfðum verið að berjast við undanfarna sólarhringa. Í Borgarnesi vorum við rúman sólarhring, en fórum þá með gamla Laxfossi til Reykjavíkur. Það var farið með okkur eins og höfðingja og við látnir vera niðri í farþegarými, sem að visu var hvorki stórt né mikið í gamla Laxfossi. En þannig voru nú við- brögðin hjá okkur, að þegar skipið skipti um skrúfu og rykktist ofurlitið til af þeim sökum, þá sögðum við báðir í einu: Nú hefur hann tekið niðri. Það var sú skýring, sem okkur datt fyrst í hug. - Hversu fjölmenn var áhöfn skipsins í upphafi? - Við vorum tuttugu og níu, og vorum af tólf þjóðernum. Yfirmenn allir voru pólskir, en hinir úr ýmsum áttum. Kyndarinn okkar var gamall Egypti. Hann hafði svo gaman af rottunum, sem talsvert var af um borð, að honum tókst að láta þær éta korn úr lófa sínum. En þegar við vorum lagðir af stað frá Reykjavík í siðasta sinn, sást ekki ein einasta rotta í skipinu. Við horfðum á kyndarann okkar gá alls staðar niðri og rétta fram korn í lófa sínum, eins og við höfðum svo oft séð hann gera áður, en nú bar það engan árangur. Þetta er undarlegt, og sjálfsagt finnst einhverjum það ótrúlegt, en satt er það engu að síður. - Var ekki kvíði í þér við að fara á sjó eftir þetta? - Nei. Ég tolldi í landi eitthvað tvo eða þrjá mánuði, en fór svo á tundurduflaveiðar á gamla Þór. Á honum var ég allt næsta sumar og fram á vetur. - Stundar þú sjóinn ennþá? - Nei. Fyrir fjórum árum fór dælan í mér, hjartað, eitthvað að kvarta, og þá var sjálfgert að fara í land. Þó er ég ekki alveg laus úr tengslum við skip. Ég er fæddur og uppalinn hérna við höfnina, svo það er ekki neitt ýkja auðvelt að slíta sig alveg frá fortiðinni. Jú, ég er að gera mér það til dundurs að vaka um borð í skipum. Þau hafa flest vaktmenn um nætur, og það getur verið tilvalin vinna fyrir menn eins og mig.


Syðra-Skógarnes í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi.                            (C) Mats Wibe Lund.

- Sækir ekki að þér óhugur, þegar þú hugsar til þessa hörmulega slyss, sem grandaði nærri öllum félögum þínum og hafði næstum hremmt þig með?  Ekki óhugur, nei, en ég finn til saknaðar og sorgar. Það er óhjákvæmilegt að maður sakni góðra drengja og félaga, ekki sízt eftir að hafa með eigin augum horft á þá tínast í hafið, einn og einn, svo að segja fyrir framan tærnar á sér. Það, sem mér finnst einna undarlegast við þetta allt, er, að nóttina eftir að ég kom hingað heim til foreldra minna, dreymdi mig alla þá, sem látizt höfðu, hvern einn og einasta, og mér fannst þeim öllum líða svo einkennilega vel, og miklu betur en nokkru sinni fyrr. Á þessum draumi kann ég ekki neina skýringu, ef til vill hefur hann aðeins stafað frá sjálfum mér. Ég veit það ekki, en svona var það.

Tíminn. 24 ágúst 1974. 

           Wigry strandaði á Selskeri

Föstudaginn 8. september 1961 fór fram athöfn í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík, til minningar um sjómenn þá, sem fórust með pólska flutningaskipinu Wigry fyrir Mýrum í janúar 1942. Við það tækifæri var afhjúpaður minnisvarði á grafreit pólsku sjómannanna. Frá þessari athöfn er sagt í Reykjavíkurblöðunum, og í Tímanum 7. sept. og Morgunblaðinu 9. sept. eru frásagnir af sjóslysi þessu og tildrögum þess. Vegna rangra frásagna af strandstað skipsins, vil ég greina frá því, sem réttara er varðandi þetta sjóslys. Árið 1942 hef ég skráð hjá mér eftirfarandi atriði varðandi þetta skipsstrand: 16. janúar 1942 gekk yfir eitt mesta afspyrnu-sunnanveður. Hér í Hjörsey var innan við 100 metra skyggni vegna sædrifs, þegar hvassast var. Hélzt veðrið fram í myrkur, klukkan 9 um kvöldið lægði veðrið niður í ca. 8 vindstig. Sáum við þá siglingaljós á skipi suðvestur frá eynni í stefnu á Selboða. Siglingaljósin hurfu eftir fjórðung stundar. Sáum við þá lítið hvítt ljós berast undan vindi, reiknuðum með, að menn hefðu komizt í skipsbát. Símasambandslaust var til Reykjavíkur. Yfirmönnum varnarliðsins í Borgarnesi var tilkynnt sjóslys, og að líkur bentu til að áhöfnin hefði komizt í bát, sem ræki í stefnu á innanvert Snæfellsnes. Morguninn eftir voru menn komnir frá varnarliðinu að Hjörseyjarsundi. Daginn eftir rak úr skipinu í Hjörsey: Timbur, fatnaður, merkjaflögg, pólski fáninn. Næstu daga rak síldarmjölspoka í hundraðatali. 4. febrúar fórum við út að Selboða á litlum árabát. Sáum fyrir skipssíðu, sem braut á. Tvær bómur, fastar í vírum, flutu við flakið, ca. 20-26 feta Iangar. Flakið er ca. 150-200 metra norður frá Selboða, á svonefnd um boðatöglum. Selboði er uppúr um fjöru allt að 2 metra. 7 faðma dýpi er um fjöru við flakið.  Skip hefur ekki áður strandað á þessum stað. Frásögn þessa sendi ég Slysavarnafélagi Íslands fyrir árslok 1942. Hvort hún hefur glatazt, get ég ekki sagt um, því að árbók SVFÍ frá því ári hef ég ekki við höndina. En Wigry fórst á Selboða við Hjörsey milli kl. 9 og 10 að kvöldi hins 16. janúar 1942, en ekki við Skógarnes á Snæfellsnesi.

20. sept. 1961, Hjörtur Þórðarson frá Hjörsey.

Tíminn. 28 september 1961.

            Afhjúpuðu minnisvarða um                              mannskætt sjóslys

Fyrir 75 árum sökk pólska gufuskipið Wigry skammt úti fyrir Mýrum. Tveir skipverjar lifðu af en hálfur þriðji tugur fórst. Sýning um skipið og slysið verður opnuð í Sjóminjasafninu í næsta mánuði. Barn bjargvættar stefnir á að vera við opnun sýningarinnar.
Á fimmta tug manns var í gær viðstaddur þegar minnisvarði um pólska flutningaskipið SS Wigry var afhjúpaður við Syðra-Skóganes á Snæfellsnesi í gær. Skipið fórst út af Mýrum þann 15. janúar 1942 en aðeins tveir skipverjar, af 27 manna áhöfn, komust lífs af. Við athöfnina í gær var 25 rósum fleytt út í sjó til að minnast þeirra sem fórust. "Við vorum heppin. Rúta lagði af stað frá Reykjavík í rigningu en á leiðinni byrjaði sólin að skína," segir Witek Bogdanski, formaður Samtaka Pólverja á Íslandi. Wigry lagði af stað frá Reykjavík í ársbyrjun 1942 ásamt þremur öðrum skipum. Stefnan var tekin á New York. Skömmu eftir að þau höfðu lagt í hann leit allt út fyrir aftakaveður og tekin var ákvörðun um að snúa við. Skipið komst ekki klakklaust undan því það sökk ekki langt frá þeim stað sem franska ransóknarskipið Porquoi-Pas? strandaði árið 1936.


Minnisvarði um skipverjanna 25 sem fórust með Wigry 16 janúar 1942 var afhjúpaður í landi Syðra-Skógarness 28 maí síðastliðinn.               (C) Iwona Bergiel.
  
Af 27 skipverjum komust 24 í björgunarbát skipsins en honum hvolfdi. Sex manns náðu að klifra upp á kjöl skipsins og héngu þar klukkustundum saman. Eftir að tveir þeirra örmögnuðust afréðu hinir fjórir að reyna að synda í land. Af þeim komust tveir í land. "Annar þeirra, Bragi Kristjánsson, sem þá var átján ára, skreið rúman kílómetra að bænum Syðra-Skógarnesi og sagði bóndanum þar, Kristjáni Kristjánssyni, hvað hafði gerst. Hann reið af stað og bjargaði hinum manninum úr fjörunni," segir Witek. Hinn eftirlifandinn hét Ludwik Smolski og var stýrimaður á skipinu. Meðal gesta í gær var sendiherra Póllands á Íslandi, Lech Mastalerz, en hann flutti stutt ávarp. Unnið hafði verið að því að afkomendur eftirlifenda og dóttir bóndans á Syðra-Skóganesi myndu vera viðstödd en þau áttu ekki heimangengt. "Dóttir Braga ætlar hins vegar að vera með okkur þegar sýningin um Wigry verður opnuð þann 10. júní næstkomandi," segir Witek. Sýningin ber heitið Minning þeirra lifir og verður, sem áður segir, opnuð 10. júní. Hún verður opin út allan júní- mánuð. Á henni má meðal annars finna líkan, í hlutföllunum 1:100, af Wigry auk mynda, blaðagreina og fleiri muna sem tengjast slysinu.

Fréttablaðið. 29 maí 2017.

Flettingar í dag: 38
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 767
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 717859
Samtals gestir: 53359
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 02:07:38